131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[14:22]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þetta með hv. þingmanni. Það er rétt sem hann segir að við þurfum að tryggja að viðhaldi vegakerfisins sé vel sinnt. Við þurfum að leggja mikla fjármuni til þess og við höfum verið að gera það. Til dæmis var tekin ákvörðun um að auka vetrarviðhald síðastliðið haust. Ég tel að mjög nauðsynlegt hafi verið að taka þá ákvörðun. Ég get tekið undir það með þingmanninum að við þurfum að tryggja fjármuni til viðhalds.

En áhersla á uppbyggingu vegakerfisins hefur verið mikil og við höfum lagt mest af okkar fjármunum í nýbyggingar. Engu að síður held ég að þjónusta á vegakerfinu almennt hafi stóraukist. Hún er býsna góð að ég tel þó lengi megi betur gera.