131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[17:16]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir þarf ekkert að benda mér á það að flugvöllurinn hefur verið byggður og að hann er í Vatnsmýrinni. Ég veit allt um það, enda bý ég við flugvöllinn. Ég er hins vegar að segja að það er alveg hægt að færa þennan flugvöll. Það er hægt að koma honum fyrir á einhverjum öðrum stað í bæjarlandinu eða við borgarmörkin án þess að sú þjónusta sem landsbyggðarmönnum er veitt sé skert. Ég er ekkert að tala um það. Ég er ekki að tala um að það eigi ekki að byggja hér neina samgöngumiðstöð, ég þekki það úr öðrum borgum að það er nauðsynlegt að hafa samgöngumiðstöðvar, hvort sem eru lestakerfi, rútusamgöngur, flugsamgöngur eða einhvers konar annars konar samgöngur. En að sú samgöngumiðstöð sé hérna rétt ofan í Alþingishúsinu eða í göngufæri við helstu verslunargötu þjóðarinnar finnst mér bara algjörlega fáránlegt.

Ég tel að það sé algjör þröngsýni ef hv. þingmenn landsbyggðarinnar geta ekki horfst í augu við það að við Reykvíkingar höfum nú líka eitthvað um það að segja hvar flugvöllurinn er. Eins og ég sagði áðan er ég ekki talsmaður þess að hann fari til Keflavíkur. (Gripið fram í: Hvert á hann að fara?) Ég vil bara fara með hann eitthvað annað á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Ég tel að það sé nóg landrými hér til að koma öðrum flugvelli fyrir þannig að við getum byggt í Vatnsmýrinni. (Gripið fram í.)

Ég nefni það og ég bendi á að þrátt fyrir að flugvöllurinn sé þarna er ekkert sem kemur í veg fyrir að hann verði færður um nokkra kílómetra. Það er bara ekkert að því. (Gripið fram í.) En ég óttast það, eins og ég mun koma að í ræðu minni síðar í dag, að verði þessi flugstöð byggð séu menn í eitt skipti fyrir öll að festa þennan flugvöll sem Bretar ákváðu að væri þarna í Vatnsmýrinni um aldur og ævi, og það finnst mér ekki nægilega góð þróun. Ég spái því að verði þessi flugstöð byggð þurfi ansi mikið (Gripið fram í.) átak (Forseti hringir.) í að láta rífa hana.