131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[18:03]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Eins og ég nefndi hér fyrr, virðulegi forseti, lít ég svo á að tilteknar aðgerðir í endurbótum á vegakerfinu séu fyrst og fremst umferðaröryggisaðgerðir. Ég vísa því til samgönguáætlunarinnar sem heildar, en því til viðbótar eru sérstakir fjármunir og þeir tilgreindir, 385 milljónir á ári, sem eru til aukins eftirlits, til hraðamælinga, til svartblettaaðgerða, minni háttar svartblettaaðgerða reyndar, og til aðgerða til að bægja búfé frá þjóðvegunum o.s.frv.

Að öðru leyti vísa ég til þess að við erum að fara í endurbætur og erum í endurbótum á Vesturlandsveginum, við erum í endurbótum á Hellisheiðinni, af því að ég veit að hv. þingmaður hefur svo mikinn áhuga á þessu svæði nær höfuðborginni, og við erum í endurbótum á höfuðborgarsvæðinu sjálfu, þ.e. færslu Hringbrautar með miklum brúarmannvirkjum fyrir gangandi vegfarendur og úrbætur, og síðan á Reykjanesbrautinni. Allt þetta er náttúrlega sönnun þess að það er alrangt sem hv. þingmaður leyfir sér að halda fram, að samgönguráðherra, sem hefur lagt til að settir yrðu hvað mestir fjármunir í uppbyggingu samgöngumannvirkja á höfuðborgarsvæðinu, sé í einhverri sérstakri andstöðu við höfuðborgarbúa. Ég vísa þessu algerlega til föðurhúsanna og ég vil benda hv. þingmanni á að hætta að tína upp slíkar fullyrðingar og slíkar dylgjur sem dálkahöfundar og spekingar sem spjalla í ljósvakamiðlum, eins og Egill nokkur sem rekur Silfrið, leyfa sér að viðhafa á síðum visir.is. Ég vil ræða þetta á málefnalegum forsendum en ekki með slíkum sleggjudómum.

Það er mjög alvarlegt viðfangsefni sem við erum að fást við og ég fagna því hvað hv. þingmaður sýnir mikinn áhuga (Forseti hringir.) eins og fyrri daginn á umferðaröryggismálum og ég er tilbúinn til að eiga málefnalegt, gott og traust samstarf við hana um það.