131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[18:28]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér áðan talaði hv. þm. Magnús Stefánsson, sem einnig er formaður fjárlaganefndar. Hann er þingmaður fyrir Framsóknarflokkinn í Norðvesturkjördæmi. Félagi hans í Framsóknarflokknum í Norðvesturkjördæmi, hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, birti fyrir örfáum dögum grein þar sem hann hefur lagst í útreikninga á þeim fjárhæðum sem fyrirhugað var að leggja til vegamála. Hann kemst að þeirri niðurstöðu að þrátt fyrir að framkvæmdum verði frestað, bæði í fyrra, nú í ár og á næsta ári, en síðan eigi að bæta í árið 2007 og 2008, er niðurstaða útreikninga hans að fjárframlög til vegamála dragist saman um eina 4 milljarða króna á fimm ára tímabili. Skýringarnar telur hann helst felast í því að tölurnar í samgönguáætluninni sem nú liggur fyrir taka ekki tillit til hækkandi verðlags á tímabilinu.

Mig langar að spyrja hv. formann fjárlaganefndar að því hvort þarna hafi verið gerð einhvers konar mistök, hvort hann hafi orðið þess var að gerð hafi verið mistök með þessum hætti við gerð fjárlaga á undanförnum árum, hvort útreikningar hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar, félaga hans í Framsóknarflokknum í Norðvesturkjördæmi, standist.