131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[19:12]

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Umræðan í dag hefur verið góð og ýmislegt athyglisvert hefur komið fram. Ég verð að viðurkenna að mér varð nú svolítið hugsað til síðustu kosninga þegar það var enn og aftur staðfest hér að Samfylkingin ætlaði aldrei að standa við kosningaloforð um skattalækkanir. Mér var bara hugsað til þess, vegna þess að á hverjum einasta kosningafundi sem ég var á fóru frambjóðendur Samfylkingarinnar yfir það að þeir ætluðu að lækka jaðarskatta. Það er ágætt að það sé enn og aftur staðfest að þeir ætluðu aldrei að standa við það.

Það er auðvitað mikið gert sem betur fer í samgöngumálum, ekki bara á síðustu árum, heldur í rauninni alveg frá 1991. Segja má að ákveðin samgöngubylting hafi orðið í landinu. Ég ætlaði að ræða fyrst og fremst um það sem snýr að mínu kjördæmi. Þrátt fyrir að ég vilji að meira sé gert verður að fara yfir það sem vel er gert. Það hafa verið sett sex mislæg gatnamót í Reykjavíkurborg frá árinu 1991, en fyrir þann tíma höfðu einungis verið gerð tvenn. Það varð bæði stefnubreyting og hugarfarsbreyting þegar hæstv. þáverandi ráðherra, Halldór Blöndal, tók við og hæstv. samgönguráðherra, Sturla Böðvarsson, hefur alveg verið á sömu línu hvað þetta varðar.

Ég vil hins vegar frekar tala um næstu skref. Ég lít á það sem svo, jafnvel þó að við höfum lagt mikið í samgöngumál og við getum talað um samgöngubyltingu, þá liggur það alveg fyrir að mörg verk eru óunnin og við eigum eftir langt í land með að ná viðunandi stöðu.

Ég held að það sé þrennt sem við þyrftum að fara í sem a.m.k. snýr helst að mér. Í fyrsta lagi er það greiðari umferð á höfuðborgarsvæðinu. Í annan stað er það öruggari umferð, ekki bara á höfuðborgarsvæðinu, heldur á öllu landinu. Í þriðja lagi tel ég að við þurfum að huga að Reykjavíkurflugvelli og opna þá umræðu aðeins. Ég ligg ekkert á þeirri skoðun minni að ég hefði viljað sjá hann færðan úr Vatnsmýrinni. Ég sé í rauninni engan annan raunhæfan stað fyrir hann en í Keflavík, en ég fer nánar í það á eftir.

Ég er í þeirri sérkennilegu stöðu að fullt af verkefnum eru í mínu kjördæmi. Gatnakerfið á höfuðborgarsvæðinu er sprungið. Það finnum við öll sem keyrum hér til vinnu á morgnana. Það er af mörgum ástæðum. Ein ástæðan er sú að við búum á útnesjum og miðborgin t.d. er ekki í miðborginni og við þurfum að hafa ansi mikið fyrir því að koma samgöngum þannig fyrir að hún verði sá miðpunktur sem við viljum. Miðborgin í Reykjavík er ekkert bara miðborg Reykjavíkur. Þetta er í raun eina miðborg landsins og það eru hagsmunir allra landsmanna að hér séu öflug miðborg og að höfuðborgin Reykjavíkurborg geti verið sá útvörður í samkeppni við útlönd sem við viljum sjá.

Við erum hins vegar í þeirri sérkennilegu stöðu að helstu andstæðingar okkar Reykvíkinga í samgöngumálum eru borgaryfirvöld. Það liggur alveg fyrir að við erum að horfa hér upp á meiri vanda ef skipulagsmálin fara áfram eins og horfur eru á og menn fara í byggð í Úlfarsfelli upp á 25.000 manns, einn Kópavog, og bæta því ofan á sprungið umferðarkerfi. Við höfum séð að í málefni Sundabrautar hefur R-listinn dregið lappirnar og hefur ekkert leyst. Menn hafa rætt hér mikið að ekki sé búið að taka ákvörðun um staðsetningu, þ.e. hvar fyrsti áfangi á að vera. Það á líka eftir að afgreiða með skynsemi hvernig menn ætla að hafa legu Hallsvegar. Það er ekki búið. Nú hefur stór hluti íbúa Grafarvogs kært umhverfismatið og þær leiðir sem þar eru uppi. Ég segi það hér að þær eru óásættanlegar. Hins vegar liggur fyrir að Sundabraut ein og sér leysir engan vanda. Hún leysir engan vanda, því miður, ef við erum bara með fyrsta áfanga. Við þurfum að fara með Sundabraut alla leið og við þurfum að leysa Miklubrautarmálið. Við verðum að skera þar á umferðarhnútinn. Það er alveg stórkostlegt að við horfum upp á það í Reykjavík að samgönguráðherra hefur verið að pressa borgaryfirvöld til að koma á mislægum gatnamótum við Miklubraut og Kringlumýrarbraut. Það er búið að leggja 10–20 milljónir í undirbúning. En það eru borgaryfirvöld sem stoppa þetta. Þetta er nákvæmlega sambærilegt við það ef bæjarstjórn Siglufjarðar hefði stoppað Siglufjarðargöngin vegna þess að þeir vildu ekki fá of mikla umferð í bæinn, nákvæmlega eins. Þetta er mjög sérkennilegt vandamál. Ríkið þarf eðli máls samkvæmt að koma mörgu að því sem þarna ætti að leysa. Ég hef tekið niður allt að fjórtán punkta sem þarf að leysa. Þetta eru Kringlumýrarbraut/Miklabraut, Miklabraut/Háaleitisbraut, Miklabraut/Grensásvegur, Miklabraut/Sæbraut/Reykjanesbraut. Svo eru ýmsir fleiri þættir sem því miður er ekki tími til að fara yfir núna.

Ég veit að aukin áhersla er lögð á öruggari umferð. Ég hef mikla trú á þessu verkefni sem heitir EuroRAP sem eldhuginn Ólafur Guðmundsson hefur mikið verið að kynna. Ef ég veit rétt er aukin áhersla lögð á þetta í samgönguráðuneytinu og kannski að ráðherra minnist eitthvað á það seinna í umræðunni. En eins og hefur komið hér fram í umræðunum þá erum við fámenn á stórri eyju og við höfum verið að reyna að koma á þokkalegum samgöngum um allt landið í þokkalegri sátt. Það er nauðsynlegt allra hluta vegna og fyrir íbúa alls landsins. Allir keyra á vegunum. Ég segi þetta vegna þess að það er líka mikilvægt fyrir landsbyggðarmenn að samgöngur séu góðar í Reykjavík. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir Reykjanes, fyrir Suðurlandið, fyrir Vesturlandið að auðvelt sé að komast leiðar sinnar innan Reykjavíkurborgar því menn sækja bæði þjónustu og vinnu til þessa svæðis. Þess vegna þarf að vera samstaða um það.

Ég tel þess vegna að það séu líka hagsmunir fólgnir í því og tækifæri fyrir landsbyggðina að færa Reykjavíkurflugvöll. Það mundi styrkja miðborgina. Það segir sig alveg sjálft að við þurfum að leysa mörg vandamál. Við þurfum að leysa vandamál varðandi varaflugvöll. Við þurfum að leysa vandamál varðandi samgöngur hér á svæðinu. Við þurfum að leysa vandamálið fyrir þá staði sem verða fyrir skerðingu á samgöngum. Þá er ég að vísa fyrst og fremst til Ísafjarðar og Egilsstaða. Einnig mætti nefna Akureyri og Vestmannaeyjar og Höfn. Menn eiga ekki að setja sig í skotgrafir hvað þetta varðar heldur líta á þetta með opnu hugarfari.

Ég bý í Grafarvogi og ég er svona 10–20 mínútur, eftir því hvernig umferðin er, að keyra til vinnu á þennan vinnustað hér og það tekur sama tíma fyrir mig að fara á Reykjavíkurflugvöll. En ég er þetta 30–40 mínútur að keyra til Keflavíkur. Þegar menn eru að tala um að þessi þjónusta eigi að vera í miðborgum eða nálægt þéttbýli þá er það alveg rétt. En ef við berum okkur saman við önnur lönd þá er ekkert stórmál að keyra til Keflavíkur. Það er ekkert stórmál. Ég átta mig alveg á því að það er hrein og klár fórn að færa völlinn. En í því felast gríðarleg tækifæri.

Við verðum að ná sátt um það, virðulegi forseti, að byggja upp samgöngur á höfuðborgarsvæðinu með auknum krafti og þar verða (Forseti hringir.) að koma til bæði skipulagsyfirvöld í borginni og ríkið og á (Forseti hringir.) sama hátt væri æskilegt að ná betri og málefnalegri umræðu um Reykjavíkurflugvöll.