131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[20:57]

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Nú er það svo með mig sem sit mitt fyrsta þing að ég hef ekki fengið tækifæri til að ræða margar veg- eða samgönguáætlanir fram að þessu en mig langar til að leggja orð í belg varðandi þá áætlun sem hér hefur verið lögð fram í formi tillögu til þingsályktunar.

Ég vil í fyrsta lagi segja að umræðan í dag hefur verið dálítið sérstök. Hún hefur ekki endilega verið flokkspólitísk heldur kannski miðast af hagsmunum þingmanna eftir því hvaðan þeir koma af landinu og hefur snúist frekar um einstök byggðarlög. Það er í sjálfu sér eðlilegt vegna þess að samgöngumál eru mikilvæg og ég ætla ekki að gera neitt lítið úr því að þau mál eru ekkert síður mikilvæg fyrir þingmenn og íbúa landsbyggðarinnar en okkur hér.

Ég verð að segja áður en lengra er haldið að ég vil vara þingmenn sem koma úr landsbyggðarkjördæmunum við því að halda fram þeim málflutningi að ekki sé nóg að gert fyrir hinar dreifðu byggðir. Ég tel að þingmenn af Stór-Reykjavíkursvæðinu hafi sýnt landsbyggðinni allmikið langlundargeð á síðustu árum eða áratugum og við sjáum það í þeirri samgönguáætlun sem hér er til umræðu að hún gerir ráð fyrir að 19% af fjármunum til nýrra vegamála renni til Stór-Reykjavíkursvæðisins á næstu þremur árum og síðan 23% á síðasta ári áætlunarinnar. Það er dálítið sérstakt í ljósi þess að á þessu svæði búa 65% landsmanna. Auðvitað spyr maður sig í ljósi þessara talna hvort slíkar tölur séu eðlilegar og ég tel þegar maður fer yfir það hvernig fjármunum hefur verið skipt á síðustu árum og áratugum að ástæða sé til þess að við spýtum í lófana fyrir íbúa Stór-Reykjavíkursvæðisins á næstu árum.

Það eru einkum þrjú atriði varðandi samgöngumálin sem mig langar fyrst og fremst til að gera hér að umræðuefni og vil gagnrýna. Tvö af þessum gagnrýnisatriðum lúta ekki að hæstv. samgönguráðherra, heldur kannski öðrum aðilum.

Ég sakna í fyrsta lagi þess að í þessari samgönguáætlun sé ekki lykiláhersla hvað okkur Reykvíkinga varðar á mislæg gatnamót Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar. Ég leyfi mér hér úr ræðustól hins háa Alþingis að gagnrýna borgaryfirvöld í Reykjavík fyrir það að hafa tekið slíka framkvæmd af skipulagi borgarinnar. Það er algjörlega ólíðandi fyrir okkur Reykvíkinga, hvort sem við erum þingmenn eða íbúar hér, að þurfa að þola það að ekki sé ráðist í mislæg gatnamót á mótum þessara tveggja vega.

Í annan stað verð ég að segja að það veldur mér svo sannarlega vonbrigðum að ekki sé meiri fjármunum varið til framkvæmda vegna Sundabrautar. Nú hygg ég að í þá framkvæmd verði ráðist með sérstakri fjárveitingu frá ríkisstjórninni, en hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir talaði hér fyrr í dag og lýsti því yfir að ábyrgðin væri ríkisstjórnarinnar eða stjórnvalda en ekki Reykjavíkurborgar. Mér þótti það þunnur þrettándi vegna þess að ég hef hér fyrir framan mig útskrift úr greinasafni Morgunblaðsins þar sem fjallað er um það að á hverfafundi í félagsmiðstöðinni í Grafarvogi þann 27. mars árið 2000, fyrir fimm árum, hafi núverandi varaformaður Samfylkingarinnar lýst þessu yfir, með leyfi forseta:

„Í haust verður tekin ákvörðun með eina lausn og ef allt gengur að óskum ættu framkvæmdir að geta hafist á næsta ári.“

Borgaryfirvöld töldu sem sagt árið 2000 að þessi framkvæmd væri í farvatninu. Ég hlýt fyrir hönd Reykvíkinga og sem þingmaður Reykjavíkur að lýsa yfir sérstökum vonbrigðum yfir því að sú verði ekki raunin.

Í þriðja lagi vil ég segja að ég set fyrirvara við það atriði í samgönguáætluninni sem fram kemur á bls. 65, að fyrirhugað sé að byggja nýja flugstöð við Reykjavíkurflugvöll þar sem hann er nú. Ég hef lýst því hér yfir í dag og ég lýsi því aftur yfir að ég er þeirrar skoðunar að í Reykjavík eigi að vera flugvöllur. Ég er hins vegar ekki þeirrar skoðunar að hann eigi að vera í Vatnsmýrinni, þar sem hann er nú. Ég viðurkenni mikilvægi samgangna fyrir landsbyggðarmenn og fyrir Reykvíkinga, að samgöngumiðstöð eigi rétt á sér og vil að samgöngur gangi greiðar héðan frá Reykjavík og út á landsbyggðina. En ég geri þá sanngjörnu kröfu til stjórnvalda og til Alþingis, sem er að fjalla um þessa tillögu til þingsályktunar, að menn leiti nú leiða til að finna þessum flugvelli annan stað í borgarlandinu eða við borgarlandið. Það gengur ekki fyrir okkur sem berum hagsmuni Reykjavíkur fyrir brjósti að flugvöllur sem Bretar settu niður fyrir áratugum í einu besta byggingarlandi Reykjavíkur þurfi að vera þar um ár og aldir, eða a.m.k. næstu áratugi. Ég segi það að ætli menn að ráðast í byggingu á flugstöð eða samgöngumiðstöð á þessu svæði verður ekki aftur snúið, a.m.k. ekki næsta áratug eða áratugi. Það má gera ráð fyrir því að sú flugstöð muni kosta ríkið 2–3 milljarða og eftir að hún hefur verið byggð er algjörlega augljóst að hún verður ekki rifin.

Ég hvet stjórnvöld og samgönguráðherra til að leita leiða til að koma þessum flugvelli einhvers staðar fyrir annars staðar í borgarlandinu. Ég nefni t.d. á Miðdalsheiði við Hafravatn, á Bessastaðanesi eða einhvers staðar annars staðar þannig að við Reykvíkingar getum hagað skipulagsmálum okkar þannig að borgin okkar, (Forseti hringir.) höfuðborgin, verði að raunverulegri borg og það verði grætt í þetta sár sem Reykjavíkurflugvöllur er svo sannarlega í borgarlandinu.