131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[21:50]

Einar Karl Haraldsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. samgönguráðherra segir að það liggi ekkert samkomulag fyrir um legu Sundabrautarinnar. Ég sagði að það lægi fyrir ákvörðun innan borgarstjórnar í málinu, þar væri alla vega komin ákvörðun í málinu og þess vegna er ekkert að vanbúnaði að leggja í verkið. Menn eru að fara fram á að hæstv. samgönguráðherra gefi fyrirheit um að gangi þetta allt eftir muni ekki standa á fjármunum til að hægt sé að hanna mannvirkið þannig að hægt sé að taka ákvarðanir um framkvæmdina á árinu 2007. Að öðrum kosti er hætt við að framkvæmdirnar dragist úr hömlu og dragist fram undir 2010 að hefja þær. Þess vegna er mjög mikilvægt að fyrir liggi fyrirheit um það að þetta mál og undirbúningur þess verði ekki látið stranda á skorti á fé til hönnunarverkefna og annarra undirbúningsframkvæmda.

Ég er ekki að fara þess á leit að hæstv. samgönguráðherra upplýsi hér eða lofi því að hægt verði að ráðast í framkvæmdina. Til þess þarf að huga að framkvæmdaleiðinni og fjármögnuninni. En verið er að biðja um að ekki strandi á undirbúningnum á næstu árum.