131. löggjafarþing — 109. fundur,  13. apr. 2005.

Staða íslenska kaupskipaflotans.

[13:59]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Í áratugi hefur sá sem hér stendur starfað að málefnum sjómanna. Langt er síðan ljóst var hvert stefndi í atvinnumálum íslenskra farmanna. Í ársskýrslum Farmanna- og fiskimannasambandsins sem ég er með má sjá söguna og tillögur stjórnvalda um viðbrögð til eflingar farmennsku og farskipaútgerð áratugi aftur í tímann. Meðal annars er í þessari skýrslu 1997–1998 sagt frá nefndarstarfi og áherslum til stjórnvalda.

Mig langar að vitna, með leyfi forseta, í þessa skýrslu. Þar segir sem stefnumörkun:

„að sem flest skip sem rekin eru á vegum íslenskra kaupskipaútgerða sigli undir íslenskum fána,

að vernda eigi atvinnu íslenskra sjómanna og þekkingu og menntun á sviði kaupskipaútgerðar,

að tekjur ríkisins af kaupskipaútgerð og afleiddum greinum, svo sem viðhaldsþjónustu og fjármálaþjónustu verði svo miklar sem samkeppnisaðstæður leyfa“.

Þetta var sagt á árinu 1998.

Nefndarstarfið var leitt af forsætis-, samgöngu- og fjármálaráðuneyti, þremur starfsmönnum þessara ráðuneyta. Farmanna- og fiskimannasambandið lýsti sig sammála þessum tillögum að mestu leyti enda hafði þá störfum farmanna fækkað úr 507 árið 1988 í 254 á árinu 1998, þ.e. á 10 ára tímabili. 253 störf höfðu sem sagt aflagst og 43% af farmönnum voru þá starfandi sem erlendir menn á þeim 24 farskipum sem þá voru hér í eigu íslenskra útgerða.

Það er algjörlega ljóst, virðulegi forseti, að nú verður að grípa til aðgerða.

Vorið 2004 samþykkti Alþingi þingsályktun sem við þingmenn Frjálslynda flokksins fluttum og hv. samgöngunefnd undir forustu Guðmundar Hallvarðssonar tók upp og gerði að sinni þar sem skorað var á ríkisstjórnina að bregðast við. Niðurstaða starfshópsins er að ef ekkert verði að gert muni stétt íslenskra farmanna minnka og svo hverfa alveg úr íslenskri atvinnusögu.

Ég verð að lýsa því yfir, hæstv. forseti, að mér finnst hæstv. fjármálaráðherra lýsa hér sjónarmiðum sem (Forseti hringir.) eru eins og þegar mús kíkir út um holu, fer strax inn aftur og aðhefst ekki neitt.