131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Kynþáttafordómar og aðgerðir gegn þeim.

[13:47]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Við í Frjálslynda flokknum höfum ávallt verið þeirrar skoðunar að við þurfum á útlendingum að halda í framtíðinni, bæði til að auka og auðga menningu okkar en einnig sem vinnuafli og þeir eru að sjálfsögðu velkomnir til Íslands.

Hlutir eins og aðlögun hljóta að skipta mjög miklu máli. Hér hefur oft verið gagnrýnt að málefni útlendinga heyri undir þrjú ráðuneyti í stað þess að vera sameinuð undir eitt ráðuneyti eða að a.m.k. sé fyrir hendi skýrt heildarskipulag yfir þjónustu til útlendinga. Það getur verið afar erfitt fyrir útlendinga sem koma hingað að átta sig á hver ber ábyrgð á hverju innan stjórnsýslunnar á hverjum tíma.

Til að forðast kynþáttafordóma, sem oft eru byggðir á vanþekkingu en líka misskilningi, höfum við talið mikilvægt að aðlaga innflytjendur að íslensku samfélagi, m.a. með því að efla upplýsingaþjónustu til þeirra og leggja áherslu á að þeir læri íslensku. Íslenskukennslan og námsefni og kennsla heyrir undir menntamálaráðuneytið en alls konar félagsþjónusta heyrir undir félagsmálaráðuneytið og þetta getur náttúrlega valdið vandræðum. En við hljótum að vera sammála um að lágmarkskunnátta í íslensku sé forsenda þess að fólk geti tekið virkan þátt í samfélaginu og það er sannfæring mín að ef það gerir það náum við að eyða fordómum.

Þekking í íslensku hlýtur að vera grundvallaratriði svo að ekki myndist einangraðir minnihlutahópar fólks af erlendu bergi brotið en þá verðum við líka að taka mið af aðstæðum innflytjenda, til að mynda kvenna í þeirra hópi sem hafa kannski hlotið litla menntun og eru jafnvel hugsanlega ólæsar eða illa læsar. Þetta er mjög viðkvæmur hópur sem við megum ekki gleyma og við verðum líka að athuga það að ef við gerum ekkert í þessum málum geta myndast hér hópar innflytjenda, kannski önnur eða þriðja kynslóð sem ekki hafa náð að aðlagast íslensku (Forseti hringir.) samfélagi og það er í sjálfu sér stórhættulegt.