131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Kynþáttafordómar og aðgerðir gegn þeim.

[13:53]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það er alveg ljóst að það eru á margan hátt alvarlegar vísbendingar sem berast okkur úr niðurstöðum skoðanakannana sem sýna að umburðarlyndi fari þverrandi og jafnvel að andúð sé beinlínis að aukast í garð fólks af erlendum uppruna. Ég held þó að við þurfum líka að varast að oftúlka heldur þurfum við að túlka á skynsamlegan hátt slíkar vísbendingar og það væri rangt að missa umræðuna í það far að ungt fólk nú á dögum sé upp til hópa fullt af kynþáttafordómum eða rasistar.

Þá skulum við líka minnast þess að yfirleitt endurómar ungt fólk þau viðhorf og þá umræðu sem það tekur þátt í, ekki síst heima hjá sér, þannig að það er þá ærin ástæða fyrir okkur fullorðna fólkið að líta í eigin barm og satt best að segja hefur maður ekki síður áhyggjur af því sem þaðan kemur, þ.e. úr röðum þeirra sem fullorðnari eru og meiri ættu að hafa þroskann til að tala af víðsýni um þessi mál og hér hafa menn vitnað í fjölmiðlaviðtöl.

Þetta á fyrst og fremst að vera okkur hvatning til að gera betur og vera á verði, gera betur í aukinni fræðslu og uppbyggilegri umfjöllun um þessi mál. Það sem ég tel að til langs tíma litið skipti þó mestu að verjast er lagskipting í samfélaginu og að hópar einangrist kynþáttabundið. Virk þátttaka nýrra þjóðfélagsþegna og jafnir möguleikar þeirra í atvinnulegu tilliti, til náms o.s.frv. eru alveg miðlægir í því að koma í veg fyrir að slíkir hlutir gerist. Við eigum að efla starfsemi þeirra aðila sem eru að sinna mikilvægum verkefnum á þessu sviði, eins og alþjóðahúsin, Rauði krossinn og auðvitað skólarnir. Síðast en ekki síst þurfa íslensk stjórnvöld að líta í eigin barm og spyrja sig að því hvort útlendingapólitík, stefna íslenskra stjórnvalda í útlendingamálum sé ekki á köflum ærið mótsagnakennd (Forseti hringir.) og gefi jafnvel tilefni til þess að þjóðin dragi rangar ályktanir af.