131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Umgengni um nytjastofna sjávar.

732. mál
[15:44]

Guðjón Hjörleifsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. sjávarútvegsráðherra fyrir framlagningu frumvarpsins. Ég er góðhjartaður maður og vil eiga gott samstarf við oddvita minni hlutans í sjávarútvegsnefnd.

Í frumvarpinu er annars vegar lagt til að heimilt verði að meta meðafla við veiðar á uppsjávarfiski til aflamarks fiskiskipa með ákveðnum hætti og hins vegar að gerðar verði nokkrar breytingar á framkvæmd leyfissviptinga vegna veiða umfram veiðiheimildir.

Breytinguna á því hvernig meðafli skuli metinn til aflamarks má rekja til tillagna frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna og umgengnisnefnd. Það hefur verið starfandi nefnd sem vinnur að úttekt á starfsumhverfi í sjávarútvegi og breytingartillögur um framkvæmd leyfissviptinga verða að mestu raktar til tillagna frá nefndinni, en hún lagði til að skoðað yrði hvernig einfalda mætti með hvaða hætti Fiskistofa tilkynnti útgerðum um veiðar umfram veiðiheimildir auk þess sem útgerðum yrði skylt að greiða slíkan kostnað.

Fiskistofa hefur í samvinnu við Hafrannsóknastofnunina fylgst vel með löndun á uppsjávarfiski tvö síðustu ár. Það kom í ljós á síðustu kolmunnavertíð að meðafli jókst nokkuð. Töluverð umræða hefur verið um hvort og þá hvernig eigi að bregðast við. Breytingar á frumvarpinu eru niðurstaða af þeirri umræðu sem farið hefur fram.

Eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu eru fyrst og fremst tvær ástæður fyrir því að lagt er til að horfið verði frá því að krefjast þess að meðafli sé flokkaður frá við veiðar á uppsjávarfiski. Fyrst ber að nefna að mörg skipanna eru vanbúin til að hirða þennan fisk, skilja hann frá öðrum afla og tryggja frágang þannig að hann geti nýst til manneldis. Í öðru lagi er sá meðafli sem kemur með uppsjávarfiski oft litlu eða engu verðmætari en uppsjávarfiskurinn sem fer í bræðslu bæði vegna smæðar og lítilla gæða. Þess vegna er lagt til að tekin verði upp aðferð til þess að meta meðafla með nákvæmum hætti og reikna hann til aflamarks viðkomandi fiskiskips þar sem koma nákvæmari upplýsingar um magn meðafla sem reiknast til aflamarks veiðiskipsins og mun það hafa í för með sér að skipstjórar munu reyna að sleppa við meðafla eða velja frekar þann kost að skilja hann frá öðrum afla og nýta hann á sem hagkvæmastan hátt.

Virðulegi forseti. Ekkert fiskveiðistjórnarkerfi er svo heilagt að ekki megi gera á því breytingar og ýmsar lagfæringar. Þessar breytingar gera fiskveiðistjórnarkerfið enn gegnsærra. Ég fagna því að frumvarp þetta skuli lagt fram og styð það heils hugar.