131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Umgengni um nytjastofna sjávar.

732. mál
[17:02]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að við getum verið sammála um að menn eigi ekki að hlaupa eftir kjaftasögum utan úr bæ, en Samfylkingin má kannski eiga það fram yfir Sjálfstæðisflokkinn að hún fer ekki út í lagasetningar á grundvelli kjaftasagna en það virðist Sjálfstæðisflokkurinn ætla að gera í þessu máli. Mér þykir þar ansi stór munur á. Það er sýnu alvarlegra þegar menn eru farnir að bera fram frumvörp í fúlustu alvöru undir húrrahrópum og lófataki, m.a. frá formanni sjávarútvegsnefndar, einmitt út frá einhverjum kjaftasögum, því ekkert í gögnunum bendir til þess að þetta sé nauðsynlegt. Það er miklu skynsamlegra að taka á málinu með þeim hætti sem ég reyndi að benda á í ræðu minni áðan, að beita frekar svæðalokunum, fylgjast með þessu í samstarfi við sjómennina okkar og beita hreinlega svæðalokunum á þeim slóðum þar sem meðafli er það mikill að okkur ofbýður. Það eru engin skynsemisrök sem mæla með þessu, ég kem hreinlega ekki auga á þau. Ég held að þegar hæstv. sjávarútvegsráðherra verður búinn að sofa á þessu og hugsa málið aðeins betur sjái hann í hendi sér að þetta sé eitthvað sem við ættum að láta ógert.