131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Umgengni um nytjastofna sjávar.

732. mál
[17:05]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég ætla aðeins að koma inn í umræðuna. Ég heyrði hana ekki alla þar sem ég var úti í bæ í útsendingu á Talstöðinni en ég vona að það sem ég heyrði megi skilja svo að mönnum finnist sjálfsagt að finna málinu einhvern farveg.

Ég held að rétt sé að reyna að finna málinu farveg. Það eru kannski ekki margar aðferðir til þess. Það er hægt að beita svæðalokunum og skyndilokunum, sem er það kerfi sem við höfum verið með á undanförnum árum og hefur iðulega verið beitt við ýmsar veiðiaðferðir, m.a. vegna kolmunnaveiðanna, að svæðum hefur verið lokað ef meðafli hefur orðið mikill.

Síðan er hægt að útbúa veiðarfærin, vonandi, það er farið að gera tilraunir með það að annar fiskur en sá sem verið er að sækjast eftir eigi leið út úr vörpunni án þess að skaðast verulega, svokallaðar skiljur eða grindur sem stýra mun stærri fiski en verið að veiða út úr vörpunni. Það kann að vera framkvæmanlegt en allt þarf þetta athugunar við því það er alveg ljóst að menn ætla síðan að reyna að ná þeim afla sem verið er að sækjast eftir, hvort sem það er síld eða kolmunni ætla menn að reyna að ná honum. Þar af leiðandi eru takmörk fyrir því hvernig veiðarfæri getur verið útbúið svo rétt sigtun eða rétt val verði í veiðarfærinu miðað við þá möguleika að nota einhvers konar skiljur. Það hefur auðvitað verið þróun í þeirri tækni á undanförnum árum og kannski hægt að útbúa veiðarfæri þannig að þau séu nothæf þrátt fyrir að slíku sé komið fyrir.

Einnig er eðlilegt að menn skoði meðferð aflans sem kemur í veiðarfærin með þeim fiski sem verið er að veiða og hvernig með eigi að fara. Þar hljótum við að þurfa að horfa til jafnræðisreglunnar varðandi það að menn sitji við sama borð þegar verið er að taka til reiknings þann afla sem í veiðarfærið kemur. Þegar menn nota stórtæk veiðarfæri eins og flotvörpur kemur örugglega annað slagið talsverður meðafli, misjafnlega mikill, og spurning hvort ekki sé hægt að ná meðaflanum frá með ákveðnum útbúnaði um borð í skipunum þannig að hann sé fullnýtanleg vara, alla vega að einhverjum hluta. Það er ekki víst að svo sé vegna þess að aflanum er yfirleitt dælt um borð í skipin og þar af leiðandi líkur á að stærri fiskur skemmist, en það kæmi í ljós. Reynslan mundi sýna það.

Ég held því að menn verði að skoða málið í hv. sjávarútvegsnefnd út frá þeim hliðum sem mönnum finnast skynsamlegar, en miðað við það veiðikerfi sem við erum með, kvótakerfið, hlýtur að þurfa að líta til þess að menn sitji nokkurn veginn við sama borð varðandi framkvæmdina að þessu leyti. Það eru samt ýmsar reglur í kvótakerfinu um að skemmdur afli, selbitinn o.s.frv., sem ekki er hægt að komast hjá við ákveðnar veiðar, teljist ekki til aflamarks og megi jafnvel varpa fyrir borð. En þarna er ekki um það að ræða, heldur að afli kemur í dregin veiðarfæri og eingöngu dælingin sem skemmir hold fisksins þegar hann kemur um borð.

Ég ætla ekki að hafa lengri ræðu um málið að þessu sinni en vonast til þess að eftir að sjávarútvegsnefnd hefur farið yfir málið og lagt með sér með- og mótrök í málinu að það komi inn með greinargerðum og nefndarálitum. Þá kann að vera fullt tilefni til þess að taka nánari umræðu um málið en ég ætla ekki að gera það nú á þessum sólríka fimmtudegi, hæstv. forseti.