131. löggjafarþing — 112. fundur,  18. apr. 2005.

Umferðaröryggismál.

[15:34]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Vegna fyrirspurnar hv. þingmanns varðandi svokallað EuroRAP-verkefni er þess að geta að þar er um að ræða sérstakar aðgerðir til að meta ástand þjóðvegakerfisins út frá umferðaröryggisþáttum. Aðilar á Íslandi hafa sýnt þessu mikinn áhuga og það er rétt að upplýsa það hér að ég hef falið Umferðarstofu að vinna að þessu máli í samstarfi við þá aðila sem hafa lýst sig viljuga til að koma að þessum verkefnum. Ég tel að það sé mjög af hinu góða að ganga til slíks samstarfs og það hefur gefið góðan árangur í öðrum löndum. Partur af öllum þessum aðgerðum er auðvitað það sem kemur fram í samgönguáætlun, að leggja upp með aðgerðir til að bæta verstu kafla þjóðvegakerfisins. Þetta kerfi getur gengið mjög vel út á það verkefni og verið í tengslum við það en það er sem sagt Umferðarstofa sem hefur fengið verkefnið að vinna að því máli.

Hvað varðar árangur af störfum rannsóknarnefndar umferðarslysa fer ekki á milli mála að það er geysilega mikilvægt fyrir okkur að rannsaka umferðarslys, ekki síður en flugslys og sjóslys, læra af þeirri hörðu reynslu sem fylgir slysum og leggja á ráðin um endurbætur á öllum sviðum að fengnum upplýsingum um slysin. Rannsóknarnefndin hefur unnið að þessu og nú er að renna upp ný tíð með lögum sem taka gildi um næstu áramót, lögum um rannsóknir umferðarslysa. Það er fyrsta löggjöfin sem sérstaklega fjallar um þá þætti og ég bind miklar vonir við það starf sem (Forseti hringir.) rannsóknarnefnd umferðarslysa er ætlað að vinna.