131. löggjafarþing — 112. fundur,  18. apr. 2005.

Umferðaröryggismál.

[15:36]

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör. Ég held að þetta sé eitt af næstu stóru verkefnum í samgöngumálum. Það eru náttúrlega mörg verkefni en ég lít svo á að við séum komin á þann þáttinn að við þurfum að fara sérstaklega að huga að umferðaröryggismálum. Við höfum á undanförnum árum verið mjög mikið að koma bundnu slitlagi á þjóðvegi landsins sem auðvitað er mjög þarft. Við vorum mörgum árum á eftir öðrum þjóðum til margra áratuga. Það er svo sem að færast í betra horf en næstu verkefni hljóta að vera á þessu sviði, að huga að umferðaröryggismálum. Ég fagna því og met það svo að hæstv. ráðherra hafi verið að lýsa því hér yfir að menn fari af fullum krafti í þetta EuroRAP-verkefni sem er samstarfsverkefni 21 bifreiðaeigendafélags í Evrópu. Sá aðili sem er með málið á Íslandi er FÍB. Á sama hátt sjáum við öflugt starf í rannsóknarnefnd umferðarslysa sem er eðli málsins samkvæmt mjög mikilvæg.