131. löggjafarþing — 112. fundur,  18. apr. 2005.

Skipan ferðamála.

735. mál
[18:08]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hlýt að gera athugasemd við það sem hv. þingmaður nefndi þar sem hann efast um að A-hluta stofnun, í þessu tilviki Ferðamálastofa, sé til þess bær að sjá um tryggingar vegna alferða vegna þess að hún sé A-hluta stofnun. Við höfum mörg dæmi um það hjá Vegagerðinni þar sem um verksamninga er að ræða að verktaki verði að skila inn tryggingu til að fá verk. Það eru náttúrlega óteljandi dæmi þess að A-hluta stofnun sé fær um að sinna slíku verkefni og það fer að sjálfsögðu eftir settum reglum. Ráðuneytið, sem hlýtur að flokkast undir að vera stjórnsýslustofnun allra stjórnsýslustofnana, sinnti þessu áður. Breytingin sem verið er að gera með því að færa útgáfu þessara leyfa til Ferðamálastofu er að koma á tryggari, betri og traustari stjórnsýsluháttum þar sem stofnunin Ferðamálastofa sinnir þessari útgáfu og eftirliti en hægt er að kæra meðferð máls hjá viðkomandi stjórnsýslustofnun til æðra stjórnvalds sem er ráðuneytið. Það var mat allra sem að málinu komu að þetta væri til mikilla bóta og ég held að þetta eigi ekki að þurfa að tefja afgreiðslu þessa afar mikilvæga máls sem hér er til meðferðar.