131. löggjafarþing — 112. fundur,  18. apr. 2005.

Skipan ferðamála.

735. mál
[18:12]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get fullvissað hv. þingmann um að af fenginni reynslu er ekki hætta á að þarna verði mikil útþensla. Þessi verkefni hafa verið í samgönguráðuneytinu hingað til og starfsmönnum hefur ekki fjölgað mikið þar. Öll sérfræðivinna sem snýr að þeim hefur verið aðkeypt, bæði hafa endurskoðendur unnið að því að meta tryggingarskyldu og lögfræðingar sömuleiðis. Þetta hefur allt verið innan mjög hæfilegra og hóflegra marka. Ábendingar hv. þingmanns tel ég góðra gjalda verðar og ég fagna þeirri afstöðu þingmannsins að hann skuli vera kominn í hóp talsmanna aðgátar í því að þenja út ríkisstofnanir og við þurfum auðvitað að gæta að því.

Hvað varðar hins vegar það sem hann nefndi, að færa mætti þessi verkefni annað, þá er einmitt í 4. gr. frumvarpsins heimild til að fela öðrum hluta þeirra verkefna sem Ferðamálastofu er ætlað að fengnu samþykki ráðherra. Það er ekkert sem mælir gegn því ef finnast öflugir og traustir aðilar, sem ég efast ekki um að eru á hverju strái, slíkir sýslumenn, sem gætu sinnt einhverjum þeirra verkefna sem þarna er gert ráð fyrir að séu unnin. Ef það er sérstakt keppikefli þá er heimild fyrir Ferðamálastofu að færa út verkefni að fengnu samþykki ráðherra. Ég tel sjálfsagt að gera það, enda liggur það að baki þessu ákvæði að skapa möguleika til að færa verkefni til aðila utan Ferðamálastofu. Embætti sýslumanna koma þar vel til greina.