131. löggjafarþing — 113. fundur,  19. apr. 2005.

Höfundalög.

702. mál
[14:06]

Guðmundur Hallvarðsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hjó eftir því að hæstv. menntamálaráðherra kom að því að þetta væri aðeins fyrsti áfangi í endurskoðun höfundalaga og þykir mér miður að ekki skyldi hafa verið stigið skrefið til fulls.

Það er rétt eins og fram kom hjá hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni að höfundarréttarnefnd er skipuð með mjög sérstökum hætti þar sem neytendur koma nánast ekkert að. Ég nefni sem dæmi að lagður er 50 kr. skattur á hvern einasta geisladisk sem er fluttur inn til landsins án tillits til þess til hvers hann er notaður, enda hefur STEF ómældar tekjur af skattinum. Það eru til fyrirtæki á Íslandi sem vilja gjarnan framleiða ýmislegt efni á disk sem kemur höfundarréttarlögum og STEFI ekki nokkurn skapaðan hlut við. Ég nefni kvikmyndafyrirtæki, sem gæti skapað mörg störf, sem eru í samstarfi við önnur Norðurlönd og vinna alla vinnu frá a-ö nema að setja á diskinn, vegna þess að hann kostar 50 kr. hér, en diskurinn með ákomnu efni annars staðar frá Norðurlöndunum er á 30 til 40 kr. Hér er því nokkuð stórt mál á ferðinni.

Ég endurtek það, virðulegi menntamálaráðherra, að mér þykir miður að vinnan skyldi ekki hafa verið stigin til fulls til þess að við hefðum getað skapað hér talsverð störf í þessu. Ég vænti þess að starfinu verði hraðað, því þetta er búið að vera hálfgert ófremdarástand um langan tíma og menn hafa beðið eftir lagabálkinum og að skrefið væri stigið til fulls hvað þetta áhrærir.