131. löggjafarþing — 113. fundur,  19. apr. 2005.

Fjarskipti.

738. mál
[15:47]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjarskipti sem felur í sér margvíslegar breytingar. Sumar eru jákvæðar eins og að leggja eigi fram sérstaka fjarskiptaáætlun á nokkurra ára fresti, sem fram kemur í 1. gr. og ég tel vera mjög jákvætt. Annað tel ég miður í þessu og tel rétt að fara yfir.

Fyrst ber að nefna, eins og hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir kom inn á, að fjarskiptaráð virðist vera ansi opið. Fram kemur að ráðherra skuli skipa tvo fulltrúa án tilnefningar og aðra fulltrúa úr hópi hagsmunaaðila eftir tilnefningu í samræmi við reglur sem hann setur þar um. Það er því allt opið um framkvæmdina og hvernig fjarskiptaráð verði skipað að lokum. Ég tel það algjörlega ótækt og að einhver mynd verði að vera á því hvernig ráðið verði skipað. Ef menn eru með einhverja hugmynd um hlutverk ráðsins hlýtur að vera hægt að ákveða hverjir eigi að sitja í ráðinu.

Ég vara einnig við því að hæstv. ráðherra geri fjarskiptaráð að einhverri stofnun en í gær lagði hann til að gerð yrði enn ein ríkisstofnunin. Þá var það Ferðamálaráð, sem er að einhverju leyti að breytast í Ferðamálastofu og eftirlitsstofnun og ég vara við því að sama verði gert við þetta ráð.

Mér finnst 2. gr. frumvarpsins vera mjög sérstök, að fjarskiptafyrirtæki skuli án endurgjalds tryggja þar til bærum yfirvöldum aðgang að búnaði til hlerunar símtala og annarrar löglegrar gagnaöflunar í fjarskiptanetum sínum. Þegar maður les 7. gr. um hvað eigi að afla víðtækra gagna setur að manni vissan ugg, sérstaklega í ljósi þess að heilmikil umræða var í fyrra um frumvarp hæstv. dómsmálaráðherra, hlerunarfrumvarpið, sem fól í sér að hlera mætti síma án dómsúrskurðar. Hér er verið að gera sama hlutinn að vissu leyti. Verið er að safna saman upplýsingum um alla landsmenn fyrir fram og síðan er hægt að kanna eftir á hvað viðkomandi hafi verið að aðhafast síðasta árið.

Ég tel miklu nær ef lögregluyfirvöld hafa einhverja grunsemd um refsivert athæfi að þau ákveði að fylgjast eigi með þeim sem liggur undir grun og fara þá að safna gögnum í stað þess að safna gögnum um alla Íslendinga, allt sem þeir aðhafast. Ég fór inn á það í andsvari við hæstv. ráðherra að tölvutækni og fjölmiðlar væru að renna saman og þá væri verið að kanna t.d. ár aftur í tímann hvað viðkomandi væri að horfa á í sjónvarpi. Það er alveg með ólíkindum þegar hæstv. ráðherra kemur með svo víðtækt frumvarp sem gengur mjög nærri friðhelgi einkalífs að hann skuli ekki leita í ríkara mæli álits stofnunar sem þetta heyrir undir. Ég skil ekki hvað hæstv. ráðherra er að fara, nema þá að hann ætli að fara bakdyramegin að því markmiði sem stefnt var að í fyrra þegar hæstv. dómsmálaráðherra vildi fara að hlera síma án dómsúrskurðar, hér er verið að safna öllum gögnum holt og bolt um jafnvel fjölmiðlanotkun ár aftur í tímann. Áður en það er gert þurfa menn auðvitað að leggja fram einhverjar betri röksemdir en hæstv. ráðherra hefur gert. Það kom ósk frá ríkislögreglustjóra. Það hefur ekki komið fram hvaða brot það eru sem hæstv. ráðherra telur að þurfi að hafa eftirlit með ár aftur í tímann í fjölmiðlanotkun í landinu til dæmis. Mér finnst að ráðherra skuldi miklu greinarbetri svör hvað það varðar.

Það kom heldur ekki fram hjá hæstv. ráðherra í andsvari áðan hver kostnaðurinn er sem liggur að baki. Mér finnst að það þurfi að liggja fyrir og kominn tími til þess að Sjálfstæðisflokkurinn fari að hugsa eitthvað um minni fyrirtækin af til. Sum fyrirtæki eru ekki með mjög mikla veltu og ekki nóg með það að kostnaðurinn sé mikill heldur eru kvaðir í 7. gr. að verklagsreglur eigi að vera um það hvernig geyma eigi og hvernig meðferð upplýsinganna eigi að vera. Auðvitað er þetta kostnaður sem leggst á minni fyrirtæki sem velta t.d. 10, 15, 20 millj. og þurfa kannski að fylla út skýrslur daginn út og inn fyrir ríkislögreglustjóra ef honum skyldi detta í hug að rannsaka einhvern sem liggur undir grun.

Mér finnst miklu nær að ríkislögreglustjóri óski eftir því ef einhver liggur undir grun að haft verði eftirlit með honum í staðinn fyrir að hafa eftirlit með allri símnotkun og allri tölvunotkun í landinu. Ég held að hæstv. ráðherra hafi kannski ekki gert sér grein fyrir því sem verið er að fara fram á og hvað þetta eru geysilega mikil gögn.

Verið er að leggja fram fjarskiptaáætlun og ræða um samkeppnishæfni. Þetta er auðvitað eitt af því sem kemur inn á samkeppnishæfni að vera ekki að láta lítil fyrirtæki standa í því að sendast fyrir ríkislögreglustjóra ef honum mögulega dytti í hug að rannsaka einhvern og kanna þá hvort sambærileg fyrirtæki erlendis þurfi að afla þessara gagna.

Framvísa á skilríkjum þegar keypt eru símkort samkvæmt 8. gr. Það er hægt, eins og hæstv. ráðherra kom inn á, að nota erlend símkort. Er þá eitthvert gagn að þessu? Ef glæpamennirnir sem verið er að eiga við eru jafnharðsvíraðir og jafnmikil styrjöld er í gangi og hv. þm. Hjálmar Árnason lét í veðri vaka, ef eiturlyfjastyrjöldin væri blóðug, sem eru mjög dramatískar lýsingar, held ég að hinum harðsoðnu glæpamönnum munaði ekki um að senda einhvern úr landi með Iceland Express og kaupa nokkur símkort. Ég held að menn hafi ekki séð þetta fyrir, enda er gefið til kynna að hæstv. samgönguráðherra hafi ekki einu sinni séð fyrir endann á því hvernig fjarskiptaráð eigi að vera skipað. Ég tel vera ákveðna fljótaskrift á frumvarpinu og að fara þurfi miklu betur yfir þessa hluti.

Engu að síður er vert að fara yfir það að stjórnvöldin sem fara fram á að safna gögnum holt og bolt fyrir fram um heiðvirða borgara, sem eru 99% Íslendinga a.m.k., til þess að eiga við nokkra harðsvíraða glæpamenn, eru sömu stjórnvöld sem leyna okkur og alla landsmenn hverjir greiða t.d. í kosningasjóði. Mér finnst mjög sérstakt að hæstv. samgönguráðherra, sem vill fara að skrá niður ár aftur í tímann hvað fólk er að horfa á, í hvern það hringir og hvað símtalið stendur yfir í langan tíma, telji eðlilegt að leyna kjósendur því hverjir greiða í kosningasjóði Sjálfstæðisflokksins. Sama á við t.d. um Framsóknarflokkinn. Þetta skýtur skökku við.

Eins þegar við ræðum ýmis mál í þinginu, þegar verið er að biðja um skýrslur, það gerðum við í Frjálslynda flokknum ásamt Vinstri grænum, báðum um skýrslu um einkavæðingarnefnd og eitt og annað, m.a. vegna þess að einn nefndarmaður hafði sagt sig með hávaða úr nefndinni. Þá benda sömu stjórnvöld og vilja hlera allt og alla á einhverja heimasíðu. Þetta er með ólíkindum.

Þegar ræða á t.d. fjárhagsleg tengst hæstv. ráðherra við mögulega kaupendur Símans er það jafnvel talinn dónaskapur. En sömu stjórnvöld vilja skrá niður sjónvarpsáhorf og í hvern borgararnir hringja, finnst það eðlilegt, og hvað símtalið stendur yfir lengi. Frú forseti. Ég verð að segja eins og er að ég tel þetta vera mjög öfugsnúið og skjóta mjög skökku við.