131. löggjafarþing — 113. fundur,  19. apr. 2005.

Fjarskipti.

738. mál
[15:58]

Guðmundur Hallvarðsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var merkilegt að hlusta á hv. þingmann fjalla um kosningasjóðina, hvernig hann gat tengt það málinu, enda er það bara grín það sem stjórnarandstaðan hefur verið að bjóða upp á og sagt: Það er í lagi að gefa í kosningasjóð ef það eru bara 499 þúsund kr., það þarf ekki að skrá það. En það má gefa margar 499 þús. kr. gjafir án þess að það komi til skráningar á flokkana eins og hér hefur verið talað um.

Annað í sambandi við skráningu á upplýsingum. Ég minnist þess að hafa fengið miklar skammir sem formaður samgöngunefndar fyrir að hafa ekki tryggt betri aðgang að eldri gögnum í hugbúnaðarkerfum vegna þess að dæmi kom upp um öfugugga sem voru að misnota kerfið. Það var ekki svo greiður aðgangur að þeim sem höguðu sér þannig gagnvart borgurunum.

Með frumvarpinu er verið að tryggja aðgang í fyrsta lagi, eins og segir í 7. gr., að því máli sem við tókumst aðeins á um. Verið er að tryggja að skjöl verði geymd í eitt ár. Það er með nákvæmlega sama hætti sem verið er að tryggja rétt borgaranna ef þeir verða fyrir óþægindum og síðast en ekki síst ef það þarf lögreglurannsókn í því máli er verið að tryggja að hægt sé að upplýsa málið.

Er þingmaðurinn virkilega að meina að það eigi að loka öllu þessu og engan varði um það hverjir eru að klæmast á netinu, hverjir eru barnaníðingar og hverjir eru með símahótanir og eiturlyfjasölur? Það á allt að vera lokað þannig að menn geti hagað sér nánast eins og fáráðlingar án þess að opinberir aðilar, lögregla og löggæsla geti komið þar nálægt. Svo ætlar hv. þingmaður að tengja málið því að einhver kosningasjóður Sjálfstæðisflokksins þurfi sérstakrar aðgæslu með. Hvers konar andskotans kjaftæði er þetta?

(Forseti (JóhS): Forseti vill biðja hv. þingmann að gæta orða sinna og vera ekki með blótsyrði í ræðustól.)