131. löggjafarþing — 114. fundur,  20. apr. 2005.

Fjárhagsleg og stjórnunarleg tengsl ráðherra.

623. mál
[13:35]

Fyrirspyrjandi (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Á undanförnum árum hefur átt sér stað meiri tilfærsla á almannaeignum í hendur einkaaðila en dæmi eru um í Íslandssögunni. Um er að ræða verðmæti sem nema gríðarlegum upphæðum, verðmæti sem ekki aðeins eru mæld í peningum heldur einnig í völdum og áhrifum. Þær ríkisstjórnir sem hafa staðið að einkavæðingunni hafa legið undir ámæli fyrir að gæta hagsmuna almennings illa og má í því sambandi benda á söluna á SR-mjöli á 10. áratugnum en ekki síður eru þó alvarlegar ásakanir um að stjórnmálaflokkar hafi hyglað fjármálamönnum og fyrirtækjum sem þeim eru þóknanleg. Þannig hafa verið búnar til söluaðferðir sem tryggja að tilteknir aðilar komist að kjötkötlunum og er þar gjarnan vísað í einkavæðingu ríkisbankanna sem færðir voru upp á silfurfati í árslok 2002.

S-hópurinn svonefndi öðlaðist yfirráð yfir Búnaðarbankanum en S-hópurinn er, sem kunnugt er, gjarnan tengdur við Framsóknarflokkinn og eru fyrir því ærnar ástæður. Landsbankinn hafnaði hjá öðrum aðila, kjölfestufjárfesti eins og ríkisstjórnin kallaði þá sem öðluðust hnossin. Svo ofbauð einum nefndarmanni í einkavæðingarnefnd, frjálshyggjumanninum Steingrími Ara Arasyni, að hann sagði sig úr nefndinni fyrir vikið og gagnrýndi hin pólitísku tök sem höfð voru á við söluna.

Hæstv. bankamálaráðherra Valgerður Sverrisdóttir sagði í sjónvarpsþætti í gær að það væri svo undarlegt að gagnrýnendur virtust beina sjónum sínum að einum þingmanni öðrum fremur þegar tengsl við fyrirtæki sem tengdust einkavæðingunni væru til umræðu. Hver skyldi sá þingmaður hafa verið? Sá maður heitir Halldór Ásgrímsson og er hæstv. forsætisráðherra þjóðarinnar.

Nú verð ég að segja, hæstv. forseti, að ekki þykir mér þetta vera undarlegt. Þvert á móti er það fullkomlega eðlilegt og málefnalegt að beina sjónum að sjálfum verkstjórum einkavæðingarinnar. Sem áður segir eru þeir ábyrgir fyrir ráðstöfun verðmæta og valda. Sjálfir þurfa þeir að vera hafnir yfir allan vafa um annarleg hagsmunatengsl. Þegar svo kemur í ljós að þeir sjálfir beint eða nánustu samherjar þeirra í stjórnmálum eru viðriðnir fyrirtæki sem tengjast einkavæðingunni er fullkomlega eðlilegt að um það sé spurt og upplýsinga og skýringa krafist.

Að mínum dómi er það lykilatriði að við innrætum okkur þá afstöðu að könnun á tengslum stjórnmála og viðskiptahagsmuna sé fullkomlega eðlileg. Þetta er ekki spurning um hnýsni eða illgirni, heldur forsenda þess að við reisum ekki þjóðfélag byggt á spillingu. Þeir stjórnmálamenn sem flæktir eru inn í viðskiptaleg hagsmunatengsl en telja sig ekki hafa neitt að fela í þessum efnum og telja allar gjörðir sínar réttlætanlegar og eðlilegar ættu sjálfir að ríða á vaðið og leggja öll sín spil á borðið. Það gerði Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur. Á heimasíðu danska forsætisráðuneytisins er hægt að fá upplýsingar um tengsl allra ráðherra í dönsku ríkisstjórninni við hvers kyns viðskiptahagsmuni. Þetta er til mikillar fyrirmyndar.

Er ríkisstjórn Íslands reiðubúin að gera slíkt hið sama?