131. löggjafarþing — 116. fundur,  20. apr. 2005.

Framkvæmd vegáætlunar.

737. mál
[17:34]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður spyr: „Hvaða kröfur eru gerðar til stöðu undirbúnings vegaframkvæmda þegar fjárheimilda er leitað?“

Svar mitt er þetta: Að lágmarki þarf að liggja fyrir skilgreining verkefnisins áður en verk er sett inn á vegáætlunarhluta samgönguáætlunar. Fyrir verk sem eru á tveimur fyrri árum áætlunar er æskilegt að fyrir liggi frumhönnun eða verkhönnun, sem væri auðvitað æskilegt ef það er hægt.

Í annan stað er spurt: „Eru verk á vegáætlun þar sem undirbúningi er lokið og verkin tilbúin til útboðs án þess að fjárheimild liggi fyrir?“

Svar mitt er þetta: Fjárheimildir eru gefnar út fyrir verk sem eru með fjárveitingu á vegáætlun viðkomandi árs. Undantekning frá þessu er ef áætlanir benda til þess að kostnaður við verkið verði meiri en fjárveiting.

Í þriðja lagi er spurt: „Hefur komið til álita að breyta forgangsröðun verkefna þegar verk tefjast?“

Svar mitt er þetta: Fyrir kemur að framkvæmdaröð sé breytt ef verk með fjárveitingu á vegáætlun dregst af einhverjum ástæðum.

Í fjórða lagi er spurt: „Hvað tekur undirbúningur fyrir nýframkvæmdir hjá Vegagerðinni að jafnaði langan tíma, annars vegar fyrir lagningu vega, hins vegar brúarsmíð?“

Svar mitt er þetta: Undirbúningur vegna nýframkvæmda Vegagerðarinnar tekur eðli málsins samkvæmt mjög mislangan tíma eftir stærð og eðli verks. Ekki er unnt að gefa upp neinn „eðlilegan tíma“, meðaltíma í því sambandi. Þetta á bæði við um vega- og brúargerð. Almennt má segja að þessi tími hafi verið að lengjast að undanförnu vegna krafna um meira og flóknara samráð við ýmsa aðila og á það ekki síst við um þegar slíkar framkvæmdir eru inni í þéttbýli þar sem búið er að skipuleggja og byggja kannski þétt upp að viðkomandi vegarstæði. Þá þarf að taka tillit til mjög margra þátta, svo sem eins og hljóðvistar, þar sem upp hefur komið mjög aukin krafa til veghaldara um hljóðvistaraðgerðir í tengslum við hönnun vega í þéttbýli.