131. löggjafarþing — 118. fundur,  26. apr. 2005.

Samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu.

704. mál
[13:59]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Því ber að fagna að við afgreiðum nú samninginn milli Íslands og Færeyja um veiðar í lögsögu ríkjanna, gagnkvæmar veiðar, á sama ári og samningurinn nær til, en ekki eins og áður þegar við vorum nánast að afgreiða samninga sem þegar höfðu verið uppfylltir að öllu leyti vegna þess að tíminn sem þeir náðu til var liðinn. Ber að þakka að málið skuli berast inn á vorþinginu en ekki síðar.

Það eru hins vegar ýmsar breytingar að eiga sér stað í lífríkinu í Norðurhöfum og einnig að því er varðar aflabrögð úr þeim stofnum sem við erum m.a. að fjalla um. Það má t.d. minna á síðustu loðnuvertíð sem endaði reyndar með allt öðrum hætti en menn höfðu gert ráð fyrir og upplýst er að loðnugangan sem lengst fór austur af landinu skilaði sér ekki á miðin suðaustur og suður af landinu eins og gert hafði verið ráð fyrir. Þar af leiðandi stöndum við uppi með verulegar breytingar á heildarafla úr loðnustofninum á þessari vertíð og auðvitað er ekki fyrirséð hvernig útkoman verður á þeirri næstu, en undanfarin ár hefur ekki verið mikil veiði á sumar- og haustvertíðum á loðnu. Þetta er nokkuð sem ég held að við neyðumst til að skoða alvarlega.

Þó að hér sé kannski verið að tala um tiltölulega lítinn afla af loðnu þá erum við samt að tala annars vegar um 30 þúsund lestir og hins vegar 10 þúsund eða um 40 þúsund lestir í veiðum færeyskra skipa úr loðnustofninum innan íslenskrar lögsögu og það skiptir máli, sérstaklega ef að heildarveiðin fer að dragast saman og verða allt öðruvísi en menn gerðu ráð fyrir. Ég vildi láta þetta koma fram. Ef hæstv. utanríkisráðherra hefur þær upplýsingar væri fróðlegt að fá að vita hvort í þeim viðræðum eða erindaskiptum sem getið er um í þessari þingsályktunartillögu hafi eitthvað hafi komið fram um að menn hafi rætt m.a. loðnuveiðarnar og nýtingu loðnustofnsins á þessari vertíð og fyrirsjáanlega nýtingu á þeirri næstu. Við skulum ekki gleyma því að það var t.d. alls ekki fyrirséð snemma á síðastliðnu hausti að við mundum yfirleitt ná að hefja loðnuveiðar þá. Ég spyr hvort þessar umræður hafi farið fram á milli aðila með tilliti til breytinga á heildarafla.

Annað atriði sem mér finnst líka skipta verulegu máli að við veltum fyrir okkur er auðvitað sú spurning sem við stöndum frammi fyrir nú eftir 25 ára árangursleysi við stjórn fiskveiða, þ.e. sérstaklega hvað varðar uppbyggingu þorskstofnsins og hvernig við ætlum við að taka á því vandamáli. Það tengist að mínu viti nýtingu á loðnustofninum á komandi árum og missirum þar sem ég hallast sífellt meira að því að við þurfum að skoða bræðsluveiðar á loðnu upp á nýtt með tilliti til þess hvort við ætlum að ná upp verðmætasta stofni okkar, þorskstofninum, og hvernig við munum fara í það. Ég ætla ekki að ræða nánar um þá hlið málsins hér og nú þótt fullt tilefni væri til þess, en ég held að engum blandist hugur um að með það árangursleysi sem við okkur blasir varðandi stýringu á botnfiskveiðum okkar þar sem þorskstofninn er okkar langverðmætasti stofn, þá þurfum við auðvitað að skoða allar hliðar þessa máls og samningurinn við erlendar þjóðir um nýtingu á loðnustofninum mun örugglega koma inn í það mál og á ég þá líka við Norðmenn.

Síðan er annað atriði í þessum samningi sem kveður á um fiskveiðar og það varðar kolmunnaveiðar en skipum við kolmunnaveiðar er heimilt að stunda þær innan lögsögu beggja ríkjanna og hefur það verið okkur Íslendingum mjög verðmætt á undanförnum árum að geta stundað þær veiðar innan færeyskrar lögsögu. Nú er upplýst að nýtingin á kolmunnastofninum er verulega meiri en menn gera ráð fyrir að geti verið til langframa. Norðmenn eru þar stórtækastir, hafa sennilega veitt nú þegar yfir hálfa milljón tonna úr kolmunnastofninum. Ég sá það líka í Morgunblaðinu í morgun, því virðulega blaði, að þar var upplýst af norskum útgerðarmanni að veiðar á kolmunna á þessari vertíð hefðu farið fram mun norðar og vestar en áður hefur verið, þ.e. í lögsögu Evrópusambandsins. Nefnt var svæðið norðvestur af Rockall. Ber þá auðvitað að horfa til þess að þar með er verið að nálgast íslenska lögsögu verulega með þessar vetrarveiðar á kolmunna sem ekki hefur verið áður því þær hafa oft farið fram vestur af Írlandi og á því svæði að langmestu leyti. Þetta bendir til þess að hegðun kolmunnastofnsins sé að verða eitthvað öðruvísi en verið hefur á undanförnum árum og stendur það líklega í sambandi við aukinn sjávarhita og breytingu á fæðuskilyrðum. En allt að einu, þetta er veruleg breyting. Ef við ætlum að horfa til þess í framtíðinni að breyta loðnuveiðum okkar að einhverju leyti þá eigum við auðvitað að gera það meðan við höfum frjálsan aðgang að kolmunnastofninum því þar getum við auðvitað bætt okkur upp þá tilfærslu sem við þyrftum að taka varðandi loðnuveiðarnar, enda kemur það fram í Morgunblaðinu í morgun í viðtali við formann LÍÚ, Friðrik Arngrímsson. Hann segir einmitt að við höfum ekki verið af krafti í kolmunnaveiðunum vegna þess að við höfum verið að sinna loðnuveiðunum.

Hæstv. forseti. Ég held að þetta séu allt mál sem við þurfum að hugleiða vel og ég spyr þess vegna hæstv. utanríkisráðherra líka að því hvort hann viti til þess að í viðræðum aðila og erindaskiptum hafi farið fram einhver nánari skoðun á málinu varðandi kolmunnaveiðarnar, hvernig við munum standa að því samkomulagi í framtíðinni miðað við nýtingu okkar og annarra.