131. löggjafarþing — 118. fundur,  26. apr. 2005.

Skattskylda orkufyrirtækja.

364. mál
[17:45]

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrir þessa stuttu og snörpu ræðu sem var held ég í einn klukkutíma og tæplega fimmtán mínútur. Hann talaði hér um það, ef ég skil hann rétt — ég held ég geri það alveg — að viðhorf vinstri grænna séu þau að orkufyrirtækin eigi að vera í sameign og samfélagsþjónustu. Áhersla þeirra er á mikið öryggi og lágmarksgjaldtöku og svo eru þeir algjörlega á móti þessari stóriðjustefnu.

Nú er það bara þannig að Vinstri grænir, þessi flokkur sem er kannski ekkert sérstaklega stór, stýra í Reykjavík orkufyrirtæki. En þar hafa menn ekki þessi viðhorf. Þeir eru með sína fulltrúa í stjórn, ágætis fulltrúa, og eru líka í meiri hluta í borgarstjórn Reykjavíkur. Þar er ekki nein áhersla lögð á lágmarksgjaldtöku enda var hv. þingmaður kominn í mótsögn við sjálfan sig þegar hann talaði um að það væri líka sjálfsagt að taka stórar upphæðir út úr fyrirtækjunum því það er þvert á það markmið að vera með lágmarksgjaldtöku. (Gripið fram í.) Rangt hjá hv. þingmanni. Hvað sem því líður þá liggur það fyrir að menn hafa notað þetta fyrirtæki til að fara út í samkeppnisrekstur, ævintýrafjárfestingar sem má ekki rannsaka þrátt fyrir að menn hafi keypt verðlaus fyrirtæki á 250 millj. kr. svo eitt dæmi sé tekið. En vinstri grænir hafa stoppað opinbera rannsókn á því.

Orkuveita Reykjavíkur ber ábyrgð á því að álver er í Hvalfirði. Vinstri grænir tóku átt í því og voru með nákvæmlega sömu áherslur og Landsvirkjun hvað það varðar.

Að koma hér upp og tala um sameign og samfélagsþjónustu, mikið öryggi og lágmarksgjaldtöku og vera á móti stóriðjustefnu er allt í lagi, en ekki ef það er einn af vinstri grænum. Það er algjörlega fráleitt því þar sem þeir hafa völdin þá er farið í þetta á fullu.