131. löggjafarþing — 118. fundur,  26. apr. 2005.

Skattskylda orkufyrirtækja.

364. mál
[23:40]

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur kannski ekki komið nógu vel fram hjá mér að ég átti að sjálfsögðu við fulltrúa stjórnvalda og fulltrúa iðnaðarráðuneytisins sem mötuðu okkur í iðnaðarnefnd af gögnum og öðru slíku. Aðvörunarorðin komu, eins og ég sagði áðan frá orkufyrirtækjum á höfuðborgarsvæðinu. Þau voru hrakin vegna þess að þau voru ekki rétt, enda hefur það ekki gengið eftir sem þau sögðu. Þeir fulltrúar sem töluðu þar voru með mjög háa arðsemiskröfu.

Ég held að ég geti fullyrt, virðulegi forseti, að meira að segja fulltrúar Vinstri grænna vöruðu ekki við þeim ósköpum sem hafa komið fram í hækkun raforkuverðs. Aðvörunarorðin voru hefðbundin frá Vinstri grænum vegna tilskipunar frá Evrópusambandinu vegna hugsanlegrar einkavæðingar og allt það sem við erum stundum ósammála um, eins og það að leyfa orkufyrirtækjum að breyta sér í hlutafélög eða selja hitaveitur líkt og gert var í Skagafirði og Siglufirði m.a. með stuðningi ágætra manna þar. Ég held því að meira að segja Vinstri grænir hafi ekki getað ímyndað sér þau ósköp sem hafa gengið eftir í prósentuhækkunum á íbúa á landsbyggðinni.