131. löggjafarþing — 119. fundur,  29. apr. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[11:52]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Hæstv. utanríkisráðherra fór vítt og breitt yfir í upphafsræðu sinni áðan eins og venja er reyndar þegar hæstv. utanríkisráðherra flytur árlega skýrslu sína um utanríkismál. Það var komið víða við. Ég verð þó að segja að einn kafli ræðu hæstv. utanríkisráðherra olli mér verulega miklum vonbrigðum. Það er lítil klausa þar sem fjallað er um ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs. Þar var fátt bitastætt að finna enda var það mikla og erfiða deilumál sem hefur tröllriðið að ég hygg alþjóðastjórnmálum um áratuga skeið aðeins afgreitt með stuttum kafla sem kannski tók rétt tæpa mínútu að flytja.

Hér er að finna fullyrðingu um að fráfall Yassers Arafats hafi valdið því að nú sé friðvænlegra á þessu svæði en verið hefur og þar segir líka orðrétt, með leyfi forseta: „Nú skiptir meiru en nokkru sinni að palestínska stjórnin haldi áfram að stuðla að friði með því að koma í veg fyrir hryðjuverkaárásir á Ísrael. Jafnframt verða stjórnvöld í Ísrael að standa við skuldbindingar í svonefndum vegvísi til friðar varðandi landnemabyggðir á Vesturbakkanum.“

Þetta er allt og sumt, samandregin niðurstaða, ályktun eða skoðun hæstv. utanríkisráðherra á því hvað ber að gera á því svæði til að reyna að stilla til friðar. En því miður er vandamálið miklu flóknara en svo að hægt sé að afgreiða það í örfáum setningum og það er líka miklu alvarlegra en svo að afgreiða megi það með þessum hætti.

Það er nefnilega þannig að ég er tiltölulega nýkominn frá þessu svæði eftir að hafa dvalið þar í eina viku í kynnisferð ásamt fleiri þingmönnum og ég hygg að hæstv. utanríkisráðherra deili ekki þeirri reynslu með mér að hafa komið á þau svæði og séð hvernig umhorfs er þarna í raun og veru, (Utanrrh.: Ég hef komið þrisvar þangað.) þ.e. til Palestínu og verið Palestínumegin. — Gott og vel, hæstv. utanríkisráðherra hefur komið þrisvar þangað en hann hefur kannski ekki komið þangað nýlega því þarna hafa gerst stórir og mjög alvarlegir hlutir á skömmum tíma.

Hæstv. utanríkisráðherra nefndi í ræðu sinni að jákvæð þróun mála í Afganistan hefði að nokkru fallið í skugga vaxandi spennu á öðrum svæðum. Ég hygg að neikvæð þróun í Palestínu og Ísrael hafi að verulegum hluta fallið í skugga annarra atburða, til að mynda í Afganistan og Írak á undanförnum missirum og athygli heimsbyggðarinnar hafi beinst frá Ísrael og Palestínu yfir til Íraks og Afganistans. Það er í sjálfu sér kannski ekki skrýtið en það er afskaplega sorgleg staðreynd því að mjög alvarlegir hlutir hafa verið að gerast í Palestínu og líka í Ísrael. Ég ætla ekki að fara að varpa sök í sjálfu sér á einn né neinn. En ég vil bara koma því að í ræðu minni að það sem er að gerast þarna er algerlega óásættanlegt og það skiptir í raun engu máli hvar í pólitík við stöndum, hvaða stjórnmálaflokkum við tilheyrum. Við hljótum öll, og það er reynsla mín eftir þessa ferð með þingmönnum annarra flokka, að andmæla því sem er þarna að gerast.

Hér er ég að sjálfsögðu að tala um hvernig Ísraelsmenn koma fram vilja sínum og valdi gagnvart Palestínumönnum. Það er ekki hægt að sitja þegjandi og hljóðalaust og horfa upp á það gerast sem er þarna á seyði. Þar er til að mynda verið að reisa þennan skelfilega aðskilnaðarmúr sem er gríðarlegt steinsteypumannvirki sem teygir sig fleiri hundruð kílómetra, múr sem er reistur á landi þjóðar sem var hernumin, og það held ég að allir séu sammála um, í sex daga stríðinu árið 1967. Ísraelsmenn halda enn þá þeim svæðum sem þeir lögðu undir sig þá. Þarna er verið að reisa þennan hroðalega múr á landi hinnar hernumdu þjóðar. Meira að segja er verið að reisa þennan múr með þeim hætti að hann umlykur landnemabyggðir sem Ísraelsmenn hafa komið sér fyrir á í hinu hernumda landi sem er í andstöðu við alþjóðalög. Þjóð sem hernemur aðra þjóð má ekki flytja inn íbúa sína inn á hið hernumda land til að koma þar upp eins konar nýlendum eða hreinlega til að leggja undir sig land hinnar hernumdu þjóðar. Þetta er einfaldlega bannað, en þetta eru Ísraelsmenn að gera. Og nú eru þeir að reisa múr í kringum þessar landnemabyggðir til að geta innlimað þau svæði síðan inn í Ísrael. Múrinn er 10 metra hár, á honum eru myndavélar og búið er að ryðja upp svæði sitt hvorum megin við hann, margra metra belti. Þar er búið að ryðja um koll bæði húsum, akurlendum og öðrum mannvirkjum í eigu Palestínumanna bótalaust. Búið er að setja upp gaddavírsgirðingar og víggirta varðturna. Það eru op á múrnum með vissu millibili þar sem hægt er að hleypa í gegn herliði frá Ísrael og inn í Palestínu hvenær sem Ísraelsmönnum þóknast. Þarna er hreinlega verið að brjóta mjög alvarlega á mannréttindum og réttindum þjóðar. Ég tek ekki gilda þá afsökun Ísraelsmanna að þeir séu að gera þetta til að verjast hryðjuverkaárásum Palestínumanna. Ég get ekki skrifað upp á að verið sé að innleiða svona miklar þjáningar yfir þjóð sem telur milljónir manna vegna þess að menn kjósa að verjast hryðjuverkaárásum sem hafa vissulega kostað einhver mannslíf. En menn telja sig vera að gera þetta til að verjast hryðjuverkaárásum. Þetta er engin lausn á vandanum. Þetta verður aldrei nein lausn á vandanum. Það var engin lausn í Berlín á sínum tíma að skipta borginni þar í tvennt með múr. Það var engin lausn, það vitum við.

Það var heldur engin lausn í Varsjá á sínum tíma að skipta borginni þar í hluta með múr. Á báðum stöðum sauð upp úr. Í Varsjá endaði þetta í blóðugri uppreisn, í Berlín leystu menn málið með friðsamlegum hætti. Við vitum ekki hvað mun gerast í Ísrael og Palestínu. En ég er alveg sannfærður um eftir að hafa komið þangað og séð þær aðstæður sem þarna ríkja, að þetta svæði er tifandi tímasprengja fyrir heimsfriðinn. Þarna mun fyrr eða síðar sjóða upp úr og draga til stórra og mjög alvarlegra tíðinda. Þarna eru báðar þjóðir komnar inn í vítahring ofbeldis og kúgunar sem engan endi virðist ætla að taka. Það er heldur ekki að sjá að vilji sé meðal stórvelda sem gætu haft áhrif á þessa atburðarás, sem gætu hugsanlega stillt þarna til friðar og fengið menn til að setjast niður, fengið Ísraelsmenn til að fallast á að Palestínumenn hafa réttindi, þeir eiga þetta land, Palestínu, og fengið báða aðila til að viðurkenna tilvist hvor annars og fengið þessi ríki til að fallast á að þarna skuli ríkja landamæri eins og eru á milli allra siðmenntaðra þjóða. Bandaríkjamenn virðast ekki af einhverjum ástæðum hafa það bolmagn eða vilja til að skikka Ísraelsmenn til að koma vitinu fyrir Ísraelsmenn. Þetta er að sjálfsögðu mjög stór harmleikur.

Það sem olli mér kannski mestum vonbrigðum í ræðu hæstv. utanríkisráðherra var það að ég hefði gjarnan viljað heyra hann tala svolítið skýrar um afstöðu okkar Íslendinga, um afstöðu íslensku ríkisstjórnarinnar til þessara mála, jafnvel koma með einhverjar tillögur um hvað við getum lagt af mörkum til að létta fólki þarna lífið, jafnvel kannski lagt okkar litla lóð á vogarskálarnar til að þessi mál verði leyst.

Frændur okkar og nágrannar, Norðmenn, hafa um margra ára skeið verið mjög virkir á þessu svæði með utanríkisþjónustu sína, verið mjög virkir í því að reyna að fá þessa aðila til að setjast að samningaborðinu og ræða saman, verið mjög duglegir við að reyna að létta fólki þarna lífið, til að mynda með hjálparstarfi, með því að senda þangað nokkurs konar gæsluliða til að fylgjast með ástandinu og reyna að sjá til þess að báðir aðilar sitji á sér þannig að ekki sjóði upp úr. Það er í sjálfu sér mjög vandasamt verk. Bara frá því að ég var þarna fyrir mánuði hafa Ísraelsmenn fellt þó nokkuð marga Palestínumenn, síðast í gær. Talandi dæmi um það hversu mikil púðurtunna þetta er er að palestínskur leigubílstjóri í borginni Hebron þar sem við komum, Íslendingarnir, og urðum fyrir frægu grjótkasti, ók óvart á ísraelskan hermann. Ísraelsku hermennirnir byrjuðu strax að skjóta. Þegar upp var staðið voru ísraelsku hermennirnir bæði búnir að skjóta leigubílstjórann og líka félaga sinn sem varð fyrir bílnum. Svona er ástandið þarna. Það má ekkert út af bera til að allt fari í bál og brand.

Það er mikið svikalogn sem nú varir þó að menn hafi setið þarna við eins konar óformlegt vopnahlé um tveggja mánaða skeið. Við höfum séð hvernig Ísraelsmenn hafa aftur og aftur nánast misst tök á ástandinu. Þó að þeir hafi yfirburði hvað varðar vopn og vígtól alls konar hygg ég að ef Palestínumenn tækju sig til, og tala nú ekki um ef þeir fengju ríkin í kring sem líka sitja á ófriðarstóli við Ísraelsmenn og hafa gert allt frá dögum sex daga stríðsins virkilega til að hjálpa sér, gæti allt þarna farið í bál og brand. Þá er heimsfriðnum hreinlega ógnað.

Það er mín skoðun að við Íslendingar ættum að kynna okkur þessa hluti betur, kynna okkur betur það sem er að gerast þarna. Við fórum þangað um daginn, þingmenn allra flokka nema Sjálfstæðisflokksins. Ég vil nota tækifærið núna til að hvetja þingmenn Sjálfstæðisflokksins til að fara í svipaða ferð til að kynna sér ástandið sem er með þeim hætti að maður verður eiginlega að sjá það til að trúa því. Ég er alveg sannfærður um að ef þingmenn Sjálfstæðisflokksins fara suður eftir og sjá ástandið með eigin augum munu þeir koma til baka og vera sammála okkur hinum um að þetta geti ekki gengið. Ég held að við Íslendingar gætum lagt eitthvað af mörkum þarna, til að mynda með því að senda hjálparliða, reyna að aðstoða Palestínumenn í menntamálum og heilbrigðismálum. Við getum líka reynt að tala máli þeirra við Bandaríkjamenn og reynt að sveigja Bandaríkjamenn í þá átt að reyna að hafa áhrif á Ísraelsmenn.

Ég hygg líka að við ættum að íhuga það mjög alvarlega hér á Alþingi Íslendinga að lýsa hreinlega yfir fullum stuðningi við sjálfstæði Palestínu, við rétt Palestínumanna til að búa sjálfstæðir í sínu eigin ríki, eins og þeir hljóta að hafa fullan rétt til. Þá værum við á vissan hátt að gera svipaða hluti og við gerðum á sínum tíma þegar löndin við Eystrasalt voru að rífa sig undan oki og hernámi Sovétmanna. Við Íslendingar eigum nefnilega ávallt að ganga fram fyrir skjöldu og mótmæla því þegar aðrar þjóðir eru hernumdar.

Það er ekki hægt að fallast á það núna árið 2005 að ríki í heiminum sýni nágrönnum sínum yfirgang og ofbeldi, til að mynda með hernámi, tala nú ekki um ef hernámið varir áratugum saman. Það á að vera sjálfsagður réttur allra þjóða að lifa frjálsar í sínu eigin landi. Þann rétt eigum við Íslendingar ávallt að verja. Það er mín bjargfasta trú og skoðun, og sú skoðun hefur ekki gert neitt annað en að styrkjast á undanförnum vikum.