131. löggjafarþing — 119. fundur,  29. apr. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[14:40]

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég kem hér upp í tvennum tilgangi, í fyrsta lagi að þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir málefnaleg ummæli um nauðsyn þróunarsamvinnu. Það styður það sem áður hefur verið sagt í dag í þessari umræðu og einnig væntanlega þau stefnumið sem hæstv. utanríkisráðherra lagði fram.

Hv. þingmaður gerði einnig að sérstöku umtalsefni það sem hæstv. ráðherra hafði áður sagt um pólitískt ástand og ástandið í sunnanverðri Afríku, Afríku sunnan Sahara eins og stundum er sagt. Vissulega er það ekki gott. Þar hefur spilling vaðið uppi, kúgun, harðstjórar og þar fram eftir götunum, því miður, í allt of mörgum löndum. Eitthvert versta dæmi sem við höfum um það núna er Robert Mugabe sem einu sinni var frelsishetja en hefur núna kúgað þjóð sína til ólífis, liggur mér við að segja.

Það er önnur ástæða, frú forseti, fyrir ástandinu í þessum löndum, alnæmisfaraldurinn. Hann herjar á Afríkubúa með þeim áhrifum og þeim árangri — sem náttúrlega er ekki árangur — að það er eins og að stríð herji í hverju landi vegna þess hverjir falla fyrir alnæminu. Það er unga fólkið og það eru foreldrarnir. Það eru milljónir munaðarlausa barna í Afríku sunnan Sahara. Það er talið að núna sé 15 milljón börn í Afríku undir 18 ára aldri munaðarlaus vegna alnæmisins og að þau verði árið 2010 a.m.k. 18 milljónir, munaðarlausu börnin. Það eru 25 milljónir sýktar af HIV-veirunni. Það sem er verst í þessu, þó að það sé með örfáum undantekningum, er að ekki hefur verið gripið til aðferða sem duga, því miður.