131. löggjafarþing — 119. fundur,  29. apr. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:02]

utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi það sem hv. þingmaður nefndi, um Íslensku friðargæsluna og tryggingamál þeirra, þá hefði hann ekki þurft að spyrja þannig ef hann hefði verið viðstaddur í þingsalnum þegar hv. þm. Ögmundur Jónasson spurðist fyrir um þessi atriði. Ég svaraði því mjög afdráttarlaust og þegar hv. þingmaður spyr um þau atriði þá vísa ég til þeirra svara gagnvart því sem hann spurði síðan um hér í sinni ræðu.

Varðandi viðræður, viðræðuleysi og slappan framgang stjórnvalda, eins og það var efnislega orðað af hv. þingmanni, um varnarviðbúnað í Keflavík verð ég að minna hv. þingmann á það að það var nú svo að Bandaríkin tilkynntu einhliða í maí fyrir tveimur árum, árið 2003, að þoturnar og þar með hugsanlega, ef sú yrði niðurstaðan, allur varnarviðbúnaður mundi hverfa innan mánaðar frá Keflavík. Viðbrögð íslenskra yfirvalda urðu til þess að af þeim fyrirætlunum varð ekki og hefur ekki enn orðið. Það er enginn vafi í mínum huga um að hið sérstaka og nána samband sem náðst hafði milli íslenskra og bandarískra yfirvalda, ekki síst við bandaríska forsetann, varð til þess að sú varð niðurstaðan og einmitt sú afstaða sem ríkt hefur til að mynda af hálfu þess sem hér stendur í þeim efnum.

En hv. þingmaður sem nú talaði hefur nýlega lýst því yfir í blaðagrein að hann styðji til formennsku í Samfylkingunni formann sem lengi hefur haft á sinni stefnuskrá að varnarliðið skuli hverfa frá Keflavík. Hann hefur lýst því yfir í blaðagrein að hann styðji til formennsku í Samfylkingunni formannsefni sem lengi hefur haft á sinni stefnuskrá — ég hef oft heyrt hana leggja það til — að varnarliðið skuli hverfa úr Keflavík. Það er mjög fróðlegt að sjá að hv. þingmaður skuli gera það.