131. löggjafarþing — 119. fundur,  29. apr. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:58]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég kveð mér hljóðs í annað sinn í dag, fór yfir nokkur atriði í fyrri ræðu minni, átti sitthvað ósagt.

Fyrst langar mig til að víkja að tveimur þáttum sem hafa komið til umræðu síðan ég stóð í pontu. Annars vegar átti ég ósagt nokkur orð við hv. formann utanríkismálanefndar þingsins, Sólveigu Pétursdóttur, en hún sagði í ræðu sinni eða í andsvari við mig að það skyti skökku við að Vinstri hreyfingin – grænt framboð bæri fyrir brjósti hag friðargæslunnar, en þá hafði ég rætt sérstaklega tryggingar þeirra einstaklinga sem urðu fyrir sprengju í Kabúl ekki alls fyrir löngu og hefur verið til umræðu í fjölmiðlum. Ég tók þetta mjög óstinnt upp og sagði að við hefðum alla tíð borið hag þessara einstaklinga fyrir brjósti, við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, og frábið mér svona tal. Ég ætla að gera þetta mál upp hér og nú.

Hv. þingmaður sagði, með leyfi forseta:

„Það ber nýrra við að talsmaður Vinstri grænna skuli bera hagsmuni Íslensku friðargæslunnar fyrir brjósti.“

Ég andmælti þessu.

Síðan sagði hv. þm. Sólveig Pétursdóttir, með leyfi forseta:

„Mér finnst furðulegt þegar hv. þingmaður reynir að halda því fram að hér sé um útúrsnúning að ræða. Hann er þá sjálfur með útúrsnúninga þegar hann talar um að hægt sé að skilja að málefni einstaklinga og réttindamál þeirra og svo starfsemi Íslensku friðargæslunnar.“

Hæstv. forseti. Ég tel að hægt sé að skilja þetta tvennt að. Við höfum á málefnalegum forsendum andmælt þátttöku okkar í svokölluðu „friðargæslustarfi“ í Afganistan — sem ég set rækilega innan gæsalappa — annars vegar og hins vegar fjallað um hagsmuni þeirra einstaklinga sem í hlut eiga.

Hæstv. utanríkisráðherra var mjög afdráttarlaus í yfirlýsingum sínum í dag hvað varðar réttindamál einstaklinganna og er ég sammála því sem fram kom hjá honum, að við aðstæður af því tagi sem hér er um að ræða er að sjálfsögðu ekki hægt að greina á milli þess sem fólk gerir í afmörkuðum vinnutíma og hins sem er utan vinnutímans. Auðvitað rennur þetta allt saman í eitt. Ég fagnaði því þá og geri enn og ítreka að jákvætt er að utanríkisráðuneytið sé með þetta mál til frekari skoðunar á þessum forsendum.

Hitt atriðið sem ég vildi víkja að voru athugasemdir hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar. Hann harmaði að ég skyldi ekki hafa dvalið lengur við ástandið í Írak í ræðu minni, en ég hef ekki úr meiri tíma að moða en aðrir þingmenn, 15 mínútum, og þarf að koma víða við. Hann gagnrýndi í ræðu sinni síðan að ég hefði talað um að kosningarnar í Írak hefðu verið í skötulíki og vafasamt að tala um þær í sama orðinu og lýðræðislegar kosningar eins og við þekkjum til. Ég stend að sjálfsögðu fyllilega við þetta. Staðreyndin er sú engu að síður, eins og hann benti á, að margar milljónir manna tóku þátt í kosningunum en þeim var að sjálfsögðu mjög ábótavant. Það er ekki hægt að halda frjálsar kosningar í hersetnu landi. Ég nefni það eitt að í borginni Falluja, þar sem einhverjir alvarlegustu stríðsglæpir hernámsliðsins voru framdir, voru engar kosningar haldnar. Þar var ekkert fólk á kjörskrá, enda hafði fjórðungur úr milljón íbúa borgarinnar verið hrakinn á brott og hefur núna í seinni tíð verið að flytja smám saman til baka, sennilega innan við 100 þúsund manns. Þetta er aðeins eitt dæmi.

Talið er að af 27 milljónum sem menn ætla að byggi Írak hafi 13 milljónir skráð sig á kjörskrá og þar af var kjörsókn 58% og þá erum við að tala um 7,5–8 milljónir manna. Auðvitað var það mikill fjöldi fólks sem tók þátt í þessum kosningum, ég ætla ekki að gera lítið úr því, enda efast ég aldrei og hef aldrei efast um vilja þeirrar þjóðar, almennings í því landi til að búa við frelsi og lýðræði, að sjálfsögðu ekki.

En ég gæti nefnt fjöldann allan af dæmum um kosningarnar þar sem þeim var ábótavant. Það er alkunna að kjörsóknin var mest í Kúrdahéruðunum norðan til og á svæðum sjíta-múslima í Suður-Írak, en í miðhluta landsins sem er að mestu byggður súnní-múslimum var kosningaþátttakan lakari, bæði vegna þess að fjöldi þeirra sniðgekk kosningarnar og sums staðar kom skálmöld í veg fyrir að hægt væri að halda kjörfund yfirleitt. Svo er þess að geta að í norðurhlutanum, þar sem kosningaþátttaka var allmikil í Kúrdahéruðunum og í þeim héruðum þar sem Kúrdar eru ráðandi, gerðu þeir sig því miður seka um að koma í veg fyrir að fjöldi fólks af öðrum þjóðarbrotum gæti notið kosningarréttar, en talið er að kosningarréttur hafi verið hafður af á milli 200 og 400 þúsund Assyríumönnum sem búa á þessu svæði og fleiri hópa mætti einnig nefna.

Þessa get ég vegna þess að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson óskaði sérstaklega eftir því að ég tjáði mig nánar um kosningarnar í Írak og hvað byggi að baki staðhæfingum mínum um að kosningarnar hefðu verið í skötulíki. Ég ítreka að í hernumdu landi er ekki hægt að halda frjálsar kosningar og það sannaðist í Írak. Síðan er það allt annar handleggur að fjöldi manns tók þátt í þessum kosningum og er það lýsandi vitnisburður um hvað fólkið vill að sjálfsögðu, en þessu tvennu getum við ekki ruglað saman.

Síðan langar mig til að víkja að nokkrum þáttum í ræðu hæstv. utanríkisráðherra og þá fyrst kannski að víkja að niðurlagsorðum ræðunnar.

Hann segir þar, með leyfi forseta:

„Herra forseti. Sem endranær er það tilgangur íslenskrar utanríkisstefnu og markmið utanríkisþjónustunnar að gæta hagsmuna og velferðar lands og þjóðar.“

Að sjálfsögðu. Þetta hef ég engar efasemdir um.

Síðan heldur áfram, með leyfi forseta:

„Það verður áfram best gert í samstarfi við bandamenn og önnur lýðræðisríki um að tryggja frið og frelsi í heiminum.“

Það er nú þetta með bandamennina okkar. Ég veit ekki til hverra hæstv. utanríkisráðherra er að vísa, væntanlega til NATO-ríkjanna og hinnar vígfúsu sveitar sem stóð að baki Bandaríkjamönnum við innrásina í Írak, að baki þeim Bush og Blair, forsætisráðherra Bretlands. Í þeim hópi má nefna fjölda ríkja, Erítreu, Albaníu, Makedóníu, Rúanda, Georgíu, Úkraínu og Úganda. Eða það mætti nefna hjálparkokkana frá innrásinni í Afganistan eins og Úsbekistan, Túrkmenistan, Pakistan og aðra útverði mannréttinda í Mið-Asíu.

En þess má geta, svo ég taki eitt dæmi um mannréttindi og af því að vísað er til þess í samhenginu „frelsisbarátta“ að World Press Freedom setti upp lista 167 ríkja með tilliti til mannréttinda og þar kom bandaríki hæstv. utanríkisráðherra, Davíðs Oddssonar, Erítrea númer 163 af 167 þegar meta átti frelsi og mannréttindi þar innan borðs. En nóg um þetta.

Það er vikið að Doha-lotunni og fagnað samningum um þjónustu og sagt að vonir standi til að þeim samningum eða Doha-lotunni ljúki og hugsanlega á þessu ári. Þessir samningar hafa gengið í rauninni afskaplega illa, sigldu í strand fljótlega eftir Doha-fundinn í Katar. Þá endurskoðuðu menn hernaðarlist sína, hvernig þeir ættu að haga sér gagnvart almenningi í heiminum sem hefur reist miklar mótbárur gegn þessum samningum og það var ákveðið að fara með þær inn í leynilegan farveg, sveipa þær leynihjúp eins og kostur væri þannig að einstök ríki reistu kröfur á hendur öðrum og héldu fullri leynd yfir því. Evrópusambandsríkin afsöluðu sér samningsumboði í hendur framkvæmdanefndar bandalagsins, sem hélt mjög leynilega á sínum málum. Upplýst hefur verið um þetta annað veifið hvaða kröfur framkvæmdanefndin hefur verið að reisa á hendur öðrum ríkjum í heiminum. Það varð mikið uppistand í Bretlandi þegar í ljós kom að krafan var sett á einkavæðingu vatns, m.a. í þróunarríkjunum.

Við höfum eflaust verið tilneydd til að taka þátt í þessu leynimakki. Samtök launafólks hafa gert sitt til að reyna að fá málin fram í dagsljósið og ég verð að segja að starfsmenn utanríkisráðuneytisins sem sinna þessum málum hafa gert það mjög vel miðað við þann ramma sem þeim er settur að þessu leyti. En ég vil ítreka að mér finnst fráleitt og óásættanlegt að alþjóðasamningar fari fram með þessum hætti þar sem verið er að taka á grundvallarmálum sem snerta hagsmuni okkar og þjóðarhag.

Síðar í ræðu hæstv. utanríkisráðherra er fjallað um velheppnuðu kosningarnar í Írak og Kabúl og síðan er komið inn í gereyðingarvopnin og þar er bent á þá hættu sem stafar af Norður-Kóreu og Íran, að þessar þjóðir séu hugsanlega að brjóta alþjóðlegar skuldbindingar um bann við útbreiðslu kjarnorkuvopna. Það er alvarlegt mál, ég tek undir það, það er alvarlegt mál. Okkur ber að vinna að því að reyna að draga úr hættunni á útbreiðslu kjarnorkuvopna og það er rétt sem segir í ræðu hæstv. ráðherra að „gereyðingarvopn í höndum skálkastjórna og annarra óábyrgra ríkja er mesta öryggisógn sem steðjar að mannkyninu um þessar mundir ásamt hættunni á að hryðjuverkamenn eignist slík vopn.“

Ég vil bæta fleirum í þennan hóp sem ég tel að í hugmyndum hæstv. ráðherra rúmi ekki Bandaríkjamenn og aðrar þjóðir sem hafa þessi vopn undir höndum og vil minna á að Bandaríkjamenn eru eina þjóðin í heiminum sem hefur beitt kjarnorkuvopnum gegn annarri þjóð. Það var gert í ágúst 1945 gegn Japan, drápu í sprengingunum á Nagasaki og Hírósíma 100 þúsund manns og mörg hundruð þúsund manns örkumluðust og dóu síðan í kjölfarið og áhrifanna gætir enn. Og Bandaríkjamenn verja þessa gjörð sína enn þá.

Síðan er ástæða til að minna á að Bandaríkjastjórn sagði upp ABM-samningum, Anti-Ballistic Missile Treaty, sem var gerður 1972. Bandaríkjamenn eða Bush gerði það á fyrstu metrunum í embætti sínu og síðan hafa þeir lagst gegn samningum um bann við tilraunum gegn kjarnorkuvopnum. Þessu hefur hæstv. utanríkisráðherra engar áhyggjur af og ekki heldur tilraunum sem gerðar hafa verið á vegum annarra ríkja, Ástralíu, Suður-Kóreu. Ég er upplýstur um það af hálfu sérfræðinga íslenska ríkisins að þar sé ekki saman að jafna því sem sé að gerast í Íran. Það má vel vera, ég ætla ekki að fella neinn dóm um það, en hitt veit ég að menn leggja það ekki að jöfnu í sínum pólitísku dómum þegar í hlut eiga ríki sem eru hliðholl Bandaríkjunum og önnur.

Þá kem ég að því sem ég því miður hef allt of lítinn tíma til, það er öryggisráðið. Ég vil spyrja hæstv. utanríkisráðherra hvort hann sé sammála mér að því leyti að við gætum varið þeim fjármunum sem eiga að fara í tilraunir okkar til að komast í öryggisráðið og tilkostnað í tengslum við það betur til annarra mála. Það er t.d. unnið að hafbotnssáttmála fyrir Sameinuðu þjóðirnar, við höfum sett framlag og vinnu inn í það verkefni. Eigum við ekki frekar að nota þessa peninga á sviði af þessu tagi, efla rannsóknir hér heima við háskóla og aðrar rannsóknarstofnanir í stað þess að vera að streða þetta að komast inn í öryggisráð Sameinuðu þjóðanna? Værum við ekki að verja peningum okkar á markvissari hátt til að láta gott af okkur leiða á alþjóðavettvangi með þeim hætti? Það væri fróðlegt að heyra svar hæstv. utanríkisráðherra um það efni.