131. löggjafarþing — 120. fundur,  2. maí 2005.

Ferðamál.

678. mál
[15:12]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ástæða er til að nefna í upphafi að það er fagnaðarefni að fyrir Alþingi skuli nú liggja tímamótaályktun að mörgu leyti um ferðamál þar sem fögur fyrirheit og háleit markmið eru fram sett og tímabær mjög þó svo að hægt sé að fara mörgum orðum um það hvernig menn ætla að hrinda þeim í framkvæmd, en það er seinni tíma mál.

Hér kemur margt mjög merkilegt fram. Í fyrsta sinn er þessum mikilvæga atvinnuvegi okkar markaður rammi, heildstæður rammi þar sem sett eru fram markmið á hinum ýmsu sviðum er lúta að ferðaþjónustunni. Vöxturinn í ferðaþjónustunni hefur verið feikilegur á liðnum árum og eiginlega undraverður miðað við hvað ýmislegt ætti kannski að hafa haldið aftur af þeirri þróun, eins og gengið og hryðjuverkaárásir erlendis, í Bandaríkjunum o.s.frv., en engu að síður hefur verið mikill vöxtur í ferðaþjónustunni. Síðasta ár fjölgaði erlendum ferðamönnum hér á landi um 13,5% og gistinóttum um 7% á landsvísu. Greinin er þar af leiðandi sífellt mikilvægari fyrir íslenskt þjóðarbú. Ferðaþjónustan er nú þegar orðin ein af þremur öflugustu stoðunum í íslensku efnahagslífi og aflaði á síðasta ári u.þ.b. 40 milljarða kr. í erlendum gjaldeyri. Hér er því um að ræða mikinn atvinnuveg fyrir okkar Íslendinga og því löngu tímabært að við mörkum heildstæðan og skynsamlegan ramma utan um atvinnuveginn þar sem þeir sem hyggjast hasla sér völl innan ferðaþjónustunnar eða hafa gert það nú þegar, eigi þess auðveldan kost.

Það er líka margt sem hægt er að gagnrýna og ber að taka til þegar við ræðum þetta hérna, af því að á sama tíma og umfang ferðaþjónustunnar og vöxturinn hefur verið jafnmikill og orðinn er — til að mynda jukust, eins og ég sagði, gjaldeyristekjur af ferðamönnum um 5,4% á milli áranna 2003 og 2004, og slíkar tölur mætti aðrar tína til um aukningu og umfang ferðaþjónustunnar í íslensku atvinnulífi — þá stendur greinin að mörgu leyti á veikum grunni. Gangi markmið þingsályktunartillögunnar um ferðamál sem við ræðum í dag eftir mun það breytast að mörgu leyti.

Um leið og mikill uppgangur er í greininni og auknar tekjur af henni eru margar ógnanir sem hún stendur frammi fyrir einnig. Við fyrri umr. spurði ég hæstv. samgönguráðherra alveg sérstaklega út í ályktun sem kom fram frá aðalfundi Samtaka ferðaþjónustunnar fyrir nokkrum dögum, þar sem samtökin lýstu miklum vonbrigðum með að dregið skyldi úr opinberum framlögum til markaðsmála í ferðaþjónustunni á sama tíma og greinin er að berjast við að standa af sér mikla tekjurýrnun vegna sterks gengis krónunnar.

Í ályktuninni segir, með leyfi forseta:

„Fáar atvinnugreinar á Íslandi eru jafnberskjaldaðar fyrir gengissveiflum og ferðaþjónustan og því brýn þörf á að hún búi við mikinn skilning opinberra aðila. Skorað er á stjórnvöld að efla á ný markaðssókn á mörkuðum og að haldið verði áfram öflugu samstarfi hins opinbera og atvinnugreinarinnar.“

Hér er tekið afdráttarlaust til orða og ljóst að Samtök ferðaþjónustunnar eru mjög óánægð með framgöngu stjórnvalda hvað varðar þátttöku hins opinbera í framlögum til markaðsmála. Hæstv. ráðherra gaf ekki mikið fyrir þessa ályktun í sjálfu sér og vildi meina að þess væri í reynd ekki þörf. Það er nú önnur umræða þó að nauðsynlegt sé að hafa það til hliðsjónar hvernig umhverfi ferðaþjónustunnar er í dag þegar við ræðum það í síðari umræðu um ferðamál hvernig best verði að marka stefnu í ferðamálum, ferðaþjónustunni, þessum stóra og mikla atvinnuvegi sem stefnir jafnvel í að verða stærsti atvinnuvegur Íslendinga ef spár ganga eftir, að innan nokkurra ára verði ferðamenn sem koma til Íslands komnir yfir eina milljón talsins, sem er í sjálfu sér heilmikið verkefni fyrir okkur að skipuleggja hvernig eigi að taka á móti þeim fjölda, hvernig við getum dreift þeim ferðamannafjölda yfir árið þannig að kjölfestan eflist í atvinnugreininni og hún detti ekki mikið til niður yfir veturinn en svo sé allt vitlaust að gera á sumrin, og einnig til að stuðla að því að starfsfólk við greinina eigi að því að ganga að geta starfað við hana allt árið um kring.

Hér eru meginmarkmiðin sem Alþingi leggur til í tillögunni að fela samgönguráðherra og öðrum ráðherrum viðkomandi málaflokka. Þar er margt tínt til sem er athyglisvert og vonandi að gangi eftir. Þar er sérstök áhersla lögð á náttúru landsins og menningu þjóðarinnar, enda eru það þeir þættir sem langflestir ferðamenn hljóta að vera að sækjast eftir og sækja heim þegar þeir ákveða að koma til Íslands. Allir þekkja þann mikla ferðamannafjölda sem hefur t.d. verið frá Þýskalandi í gegnum þá miklu landkynningu sem íslenski hesturinn hefur verið víða um Evrópu og reyndar í Norður-Ameríku líka núna um árabil og áratuga skeið. Þó svo að á ýmsu hafi gengið í útflutningi á íslenska hestinum hefur skapast sérstakt samfélag í Evrópu í kringum íslenska hestinn þar sem íslenski hesturinn er í brennidepli og í hávegum hafður. Allir þekkja heimsmeistaramótin sem eru umfangsmikil og glæsileg og haldin í Evrópu annað hvert ár, held ég. Út frá slíkum menningartengdum hlutum koma hingað þúsundir ferðamanna á hverju ári, enda er það undirstrikað hér að náttúran og menning þjóðarinnar verði ráðandi þættir í þróun íslenskra ferðamála.

Þá er lögð áhersla á að tryggð verði samkeppnihæfni ferðaþjónustunnar sem stuðli að hámarksafrakstri í greininni og hlýtur að vera undirliggjandi.

Þá er sérstaklega lagt til að ferðaþjónustunni verði sköpuð rekstrarskilyrði sambærileg við rekstrarskilyrði í samkeppnislöndunum.

Ísland verði í forustu í umhverfisvænni ferðaþjónustu og því verði fylgt eftir með uppbyggingu þjóðgarða með því að stuðla að ferðaþjónustu sem samþættir útivist og náttúruvernd. Það er markmið sem ég vil sérstaklega taka undir og gera að umtalsefni. Ég er alveg viss um að rekstur og stofnun þjóðgarða getur haft mjög mikil tækifæri í för með sér fyrir okkur Íslendinga, bæði til að vernda náttúruna og í öðru lagi til að nýta hana með sem best og skynsamlegast. Þjóðgarðastofnun fylgir bætt aðgengi að náttúruperlunum. Miklar vonir eru bundnar við Vatnajökulsþjóðgarð og heilmikil uppbygging sem lítur út fyrir að fari fram í kringum hann í sveitarfélaginu Hornafirði og menn hyggja þar á háleit markmið eins og stofnun jöklaseturs. Svo er ýmislegt annað sem kemur þar í sambandi við þjónustu og aðra menningu eins og Þórbergssetrið á Hala í Suðursveit, sem stefnir í að verða mjög mikill ferðamannasegull á næstu árum. Þar er byggt á þeirri stórmerkilegu menningu sem er að finna í verkum Þórbergs Þórðarsonar, þess mikla meistara.

Menningartengd ferðaþjónusta og þjóðgarðar eru þeir lykilþættir sem við vonandi hljótum að leggja til grundvallar og vekur að sjálfsögðu aftur upp umræðu um umfang virkjana og stóriðju til hliðar við ferðaþjónustuna og hvort þetta fari saman og hvenær virkjana- og stóriðjuuppbyggingin fari að skaða verulega og alvarlega uppbyggingu ferðaþjónustunnar. Um leið og við vinnum og göngum frá þessari þingsályktunartillögu um ferðamál hljótum við og íslensk stjórnvöld einnig að leiða hugann að því að kannað verði og það verði kortlagt skynsamlega og skipulega hvenær og hve mikið umfang hinnar hefðbundnu stóriðju má vera þannig að það fari ekki að skaða alvarlega ímynd landsins sem ferðamannalands. Þar tel ég að tækifærin liggi fyrst og fremst í skynsamlegri ferðamannauppbyggingu.

Hér er að finna eigin sóknarfæri hinna dreifðu byggða, bændanna víða um land, þ.e. að byggja upp hvers konar ferðaþjónustu. Ferðaþjónustubúskapur er orðinn að stórum atvinnuvegi í mörgum sveitum landsins og hefur í rauninni snúið vörn margra sveitanna til sóknar aftur þar sem bændur og búalið hafa fundið sér ný tækifæri til að byggja á. Menningartengd ferðaþjónusta úti um byggðir landsins hlýtur því að vera okkar meginkeppikefli.

Markaðsmálin nefndi ég áðan og þau eru mjög mikilvæg, að ferðaþjónustan fái til þess fjármagn, bæði frá hinu opinbera og atvinnulífinu, til að kynna þau mál sem mikilvægust eru.

Í markmiðunum er bent á að:

„Íslandi sé komið á framfæri sem heild með almennri kynningu bæði innan lands og erlendis.

Í allri kynningu sé lögð áhersla á að dreifa umferð/álagi yfir tíma og á svæði.

Samstarf hagsmunaaðila í ferðaþjónustu styrki innviði greinarinnar og efli markaðssetningu landsins sem heildar.

Opinberir fjármunir verði nýttir að stærstum hluta til samstarfsverkefna í kynningarmálum.“

Það er þarna sem stjórnvöld hafa verið að draga úr og Samtök ferðaþjónustunnar hafa gagnrýnt það mjög harkalega að hið opinbera skuli vera að draga úr framlögum til kynningar og markaðsmála á sama tíma og öll þau stóru sóknarfæri blasa við greininni og ég nefndi hérna áðan að ferðaþjónustan væri nú þegar orðin ein af þremur öflugustu stoðunum í íslensku efnahagslífi og hefði aflað á síðasta ári u.þ.b. 40 milljarða kr. í erlendum gjaldeyri allt saman tekið, fluggjöld og fararkostnaður allur þar inni.

Þá segir hér að liggja þurfi fyrir rannsóknir og áætlanir um aðkomu opinberra aðila í þeim geira.

„Ferðamálaráð vinni náið með aðilum í greininni að markaðsstarfi og framþróun með það að markmiði að þjónusta við ferðamenn verði heilsársatvinnugrein og skapi þannig fleiri örugg og vel launuð störf.“

Það hlýtur að vera stóra verkefnið eða eitt af stóru verkefnunum í ferðaþjónustunni á allra næstu missirum að byggja atvinnuveginn upp sem heilsársgrein sem detti ekki niður yfir veturinn og sé þannig stabílli að öllu leyti. Leiðir að því eru að sjálfsögðu fjölmargar en ég vildi sérstaklega gera að umtalsefni eina, sem er menntunarmálin. Menntunarmálin innan ferðaþjónustunnar skipta verulega miklu máli til að efla greinina á allan hátt, bæði til að gera hana móttækilegri fyrir því að starfrækjast sem heilsársatvinnugrein og margt annað.

Hérna segir að menntun þurfi að taka mið og þróast í samræmi við síbreytilegar þarfir ferðaþjónustunnar og sérstök áhersla lögð á að allt nám á lægri skólastigum opni möguleika til frekara framhaldsnáms. Ég held nefnilega að tækifærin liggi í því að stofna fleiri styttri námsbrautir í kringum ferðaþjónustuna þar sem ákveðnir þættir sem lúta að ferðaþjónustunni verði gerðir að réttindanámi í gegnum styttri námsbrautir sem námsmaðurinn og hver sá sem það tekur geti alltaf byggt frekar ofan á síðar og leiðin liggi alltaf þannig að nemendurnir geti bætt ofan á menntun sína þar til þeir útskrifast með einhver frekari starfsréttindi, fleiri starfsréttindi, stúdentspróf, tæknipróf eða eitthvað slíkt, þannig að það verði alltaf auðvelt að fara aftur inn í skólana og byggja ofan á greinina.

Af því að ferðaþjónustan er mikill atvinnuvegur úti um allar hinar dreifðu byggðir landsins skiptir algjöru meginmáli að mínu viti að efla símenntunarstöðvarnar, að fjarnámið verði eflt með öllum tiltækum ráðum. Nú búa margar símenntunarstöðvarnar við mjög þröngan kost. Þeim er mismunað mjög eftir því hvort þær eru kallaðar símenntunarstöðvar eða háskólasetur þó svo að starfsemi þeirra sé mjög sambærileg. Þá er ég ekki að segja að það sé gert of vel við þær símenntunarstöðvar sem fái meira en hinar, þvert á móti, það þarf að samræma og efla þær sérstaklega þannig að þær fái greitt fyrir það fjarnám á háskólastigi sem þær veita hundruðum ef ekki þúsundum Íslendinga nú þegar. Það þarf því að efla símenntunarstöðvarnar töluvert og fjarnámið skiptir þarna miklu máli. Mikilvægt er að fjölbrautaskólarnir um allt land taki upp áfanga í styttri námsbrautum, eins og ég nefndi áðan, að búnar verði til styttri námsbrautir og sérstök fög utan um hvers konar þjónustu og eflingu starfsnáms sem lýtur sérstaklega að þessari atvinnugrein. Það er vísir að því í mörgum skólum eins og Verkmenntaskólanum á Akureyri og í mörgum fjölbrautaskólum víða um land þar sem vel hefur til tekist og hefur án vafa bætt ferðaþjónustuna nú þegar og eflt umhverfi hennar töluvert.

Það þarf að efla þetta sérstaklega og eins og segir í tillögunni: „Gæði menntunar skal tryggja með sérhæfingu menntastofnana þar sem við á.“ Og þá sérstaklega fjarnámið. Símenntunarstöðvarnar og fræðslunetin hafa nú þegar opnað fjölda fólks úti um allt land ótrúlega mörg ný tækifæri til að bæta við þekkingu sína og lengja skólagöngu og auka réttindi sín og gerir fjölda Íslendinga kleift að starfa og menntast og stunda nám í heimabyggð sinni, sem fólk mundi annars ekki fara út í af því að það tæki sig ekki upp og flytti um langan veg til að stunda námið. Þessar símenntunarstöðvar og fræðslunet skila hundruðum manna á hverju ári í gegnum ýmiss konar nám og fjarnám í háskóla hvers konar þannig að við þurfum að efla þetta verulega. Menntunarframboð stjórnvalda þarf að taka mið af þeim þörfum sem uppi eru í greininni en fullyrða má að þar sé um að ræða mjög mikla þörf á hvers konar réttindanámi en það þarf að greina og draga saman sérstaklega.

Þá þarf að taka tillit til kostnaðar fyrirtækjanna í tengslum við starfsnámið, segir í tillögunni, og námsbrautir framhaldsskóla og sérskóla tengist svo sem kostur er þannig að ekki myndist blindgötur eða óþörf skörun námsbrauta og skólastiga. Háskólanám í ferðamálum byggist í vaxandi mæli á þeim grunni sem lagður er á framhaldsskólastigi, þannig að við inntöku nemenda verði tekið tillit til menntunar og/eða reynslu á sviði ferðamála.

Þá segir í tillögunni að tryggja verði aðgengi að hröðu fjarskiptaneti við fjarnámið. Þar komum við að öðrum mjög mikilvægum þætti í öllu sem kemur að bæði uppbyggingu ferðaþjónustunnar úti um allt land og hvers konar byggða- og sanngirnismálum, að það þarf að sjálfsögðu að tryggja það að allir landsmenn hafi aðgengi að háhraðatengingum, háhraðaneti. Við blasir að þar sem ekki er um að ræða fyrsta flokks eða viðunandi háhraðatengingar er ekki um það að ræða að fólk annars vegar stundi fjarnámið eða byggi upp þau öflugu tækifæri sem þar er að finna. Það hlýtur því að koma sérstaklega inn í þetta og fyrir þinginu liggur metnaðarfull fjarskiptaáætlun til næstu tíu ára þannig að það hlýtur að koma þar inn sem mikið meginmál að efla háhraðatengingarnar um allt land.

Lesa mátti frétt af því í morgun að sveitarfélögin þrjú í Rangárvallasýslu hefðu gert með sér samkomulag og samið við fyrirtækið eMax um að byggja upp háhraðatengingar í sveitarfélögunum í sumar, á næstu vikum og mánuðum. Þar er um að ræða frumkvæði sveitarfélaganna sjálfra, sem er mjög lofsvert og þakkarvert. Þar hafa stjórnvöld alls ekki staðið sig í stykkinu og í raun svikið þúsundir Íslendinga um aðgengi að upplýsingabyltingunni, mörgum árum eftir að hún hófst. Ég harma að ekki skuli hafa verið gengið fram af meiri skörungsskap þegar kemur að háhraðatengingunum og að stór hluti landsmanna þurfi að sætta sig við mjög lakar tengingar eða reddingar sem standast ekki samanburð við það sem ætti að gera. Að þessu hefði þurft að hyggja sérstaklega.

Í tillögunni sem hér er til umræðu eru vel tíunduð annars vegar þau markmið sem áætlunin byggir á og hins vegar leiðir til að fylgja þeim eftir. Í kaflanum um nýsköpun og þróun, sem er mikill lykilkafli, segir um markmiðin, með leyfi forseta:

„Nýsköpun og þróun í greininni auki arðsemi allt árið með bættri nýtingu fjárfestinga.

Áhrif nýsköpunar á vöxt íslenskrar ferðaþjónustu verði rannsökuð.

Sífelld endurnýjun og endurmat ferðaþjónustunnar eigi sér stað.

Vöru- og þjónustuþróunarferlar verði mótaðir til hagnýtingar fyrir íslensk ferðaþjónustufyrirtæki.“

Leiðirnar sem hér er bent á eru, með leyfi forseta:

„Stjórnvöld taki virkan þátt í nýsköpunar- og vöruþróunarstarfi ferðaþjónustunnar, sbr. stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.“

Það er akkúrat þarna sem marga rekur í vörðurnar. Í þessari áætlun eru sett fram mjög háleit markmið á ýmsum sviðum, hvort sem lýtur að rannsóknum á aðstæðum ferðaþjónustunnar, menntunarmálum, grunngerðinni, gæða- og öryggismálunum, rekstrarumhverfi atvinnugreinarinnar, kynningarmálum eða nýsköpun og þróun. En að mörgu leyti er það ekki mjög trúverðugt þar sem hvergi kemur fram hvort þessu fylgir fjármagn, hvað stjórnvöld ætli að verja miklum fjármunum til að ná markmiðunum. Þessu hlýtur hæstv. ráðherra að þurfa að gera skil við umræðuna, þ.e. hvernig stjórnvöld ætli að fylgja þessu eftir og hvort þetta plagg muni hafa þá þýðingu sem það þarf að hafa til að byggja undir þennan mikilvæga atvinnuveg.

Margar athyglisverðar tölur hafa komið fram sem er fróðlegt er að skoða í þessari umræðu, m.a. um vaxandi gjaldeyristekjur af ferðaþjónustunni, þrátt fyrir hina sterku krónu. Í rauninni er stórmerkilegt að greinin hafi haldið áfram að vaxa af fullum krafti þrátt fyrir þá stöðu sem uppi er. En eyðsla innan lands jókst um 1,5 milljarða kr. á síðasta ári og gjaldeyristekjur ferðaþjónustunnar voru rúmlega 39 milljarðar kr. og jukust um 5,4% frá árinu á undan. En aukningin var að stærstum hluta sögð vegna eyðslu erlendra ferðamanna innan lands, sem var heilir 26 milljarðar kr. á árinu 2004.

Um eyðslu erlendra ferðamanna segir í frétt í Morgunblaðinu frá 11. mars 2005, með leyfi forseta:

„Eyðsla erlendu ferðamannanna innan lands jókst um 6,31% og fargjaldatekjur um 3,77%, samkvæmt upplýsingum Samtaka ferðaþjónustunnar. Voru fargjaldatekjur í fyrra alls 13 milljarðar. … Sérstaklega þó frá Evrópu og þar er líka mestur vöxtur. Þetta bendir því til þess að þeir ferðamenn sem hafa verið að koma í auknum mæli frá Evrópu, hafa meira til ráðstöfunar eftir að hingað er komið, …“

Þá segir að framboð á afþreyingu og vöruvali í ferðaþjónustunni hafi aukist innan lands á allra síðustu árum og ferðamenn eyði töluvert meiri fjármunum innan lands en áður. Hins vegar er bent á að skýringin á auknum gjaldeyristekjum sé ekki vegna þess að hækkanir hafi orðið á þjónustunni og tölur sýni að ekki hafi verið um miklar verðhækkanir að ræða, hvorki á veitingum né á ferðum. Ferðamenn eru eyða meira og nýta meira innviði ferðaþjónustunnar.

Að mati Samtaka ferðaþjónustunnar má halda því fram að gjaldeyristekjurnar á seinasta ári hefðu verið röskum tveimur milljörðum meiri ef gengið hefði haldist óbreytt en miklar sveiflur í gengi séu fyrirtækjunum mjög erfiðar. Þá hafi gengiskarfa Seðlabankans lækkað um rösklega 10% síðustu sex mánuði og ljóst að fyrirtæki sem seldu ferðir til Íslands 2005 á föstu verði fyrir nokkrum mánuðum séu búin að tapa stórum hluta álagningar sinnar. Áframhaldandi hátt og jafnvel hækkandi gengi íslensku krónunnar er að þeirra mati alvarleg ógnun við afkomu fyrirtækjanna. Þess vegna leggja Samtök ferðaþjónustunnar sérstaka áherslu á að hið opinbera haldi a.m.k. í við fyrri framlög til markaðs- og kynningarmála en dragi ekki úr eins og reyndin hefur verið.

Það er einnig fróðlegt að skoða farþegatölur sem er að finna á vef Samtaka ferðaþjónustunnar en þar segir, með leyfi forseta:

„Fram til ársloka 2000 var talning erlendra ferðamanna til landsins framkvæmd af starfsmönnum sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli fyrir hönd Útlendingaeftirlitsins. Þær tölur er hægt að nálgast á vef Útlendingaeftirlitsins … Við gildistöku Schengen-sáttmálans var ekki lengur skylda að framvísa vegabréfi við komu til landsins frá löndum innan svæðisins og því var talningu hætt. Frá febrúarmánuði 2002 var aftur farið að telja ferðamenn sem fara um Keflavíkurflugvöll af sömu starfsmönnum, en nú fyrir hönd Ferðamálaráðs. Sú breyting var gerð að nú eru farþegar taldir við brottför, því þar þurfa menn að framvísa einhverjum persónuskilríkjum og því hægt að sjá þjóðerni farþeganna. Niðurstöður þeirrar talningar eru aðgengilegar og reglulega uppfærðar á vef Ferðamálaráðs.“

Tölurnar yfir komur til Keflavíkurflugvallar á síðasta ári eru athyglisverðar og er t.d. fróðlegt að skoða þróunina yfir erfiðustu mánuðina, vetrarmánuðina á árabilinu 2000–2005. Árið 2000 voru komur til Keflavíkurflugvallar 17.800 tæplega og fjórum árum síðar, árið 2004, voru þær orðnar 27.128. Aukningin á þessu fjögurra ára bili var mjög mikil í janúarmánuði og sama má segja um alla mánuðina. En í janúar 2004 komu hingað fleiri ferðamenn en fjórum árum áður og aukningin hefur verið töluverð yfir vetrarmánuðina og jafnvel meiri hlutfallslega.

Samtals komu til Keflavíkurflugvallar árið 2000 540 þúsund ferðamenn en árið 2004 voru þeir orðnir 692 þúsund, þannig að komunum fjölgaði verulega á þessu árabili. Sama mætti segja þegar rýnt er í tölur um gjaldeyristekjur af ferðamönnum, eins og ég nefndi áðan. Gjaldeyristekjur af erlendum ferðamönnum hafa aukist mikið á fáum árum. Séu tekin til viðmiðunar árin 1989 og aftur 2004 þá hefur aukning tekna verið talsverð. Árið 1989 voru tekjur alls rúmir 9 milljarðar kr. en árið 2004 voru þær tæplega 40 milljarðar kr. Tekjuaukningin á einum og hálfum áratug er því mjög gleðileg. Þess vegna er sérstök ástæða til að styðja með öllum ráðum við bakið á þessari grein og ef markmið þessarar þingsályktunartillögu um ferðaþjónustuna nást þá er vel gert. Sá rammi sem margir hafa verið að kalla eftir á liðnum árum væri a.m.k. kominn fram þannig að menn vissu að hverju þeir gengju á næstunni, þekktu grunngerð atvinnugreinarinnar til framtíðar og hvernig stuðningi við hana yrði hugsanlega háttað.

Þegar kemur að grunngerðinni segir í áætluninni að umferðarmiðstöðvar verði nýttar til að tengja og samræma allar tegundir almenningssamgangna og bættrar þjónustu við ferðamenn. Þá leiðir maður hugann að því hvernig framtíðarfyrirkomulagið verði varðandi innanlandsflug á næstu árum, hvort það verði fært úr Vatnsmýrinni eða verði þar áfram. Ef það yrði fært, yrði það þá fært til Keflavíkur og þá þyrfti að huga að því hvernig ætti að tengja milli Keflavíkur og Reykjavíkur þannig að innanlandsflugið verði áfram kostur fyrir almenning og ferðamenn.

Við höfum rætt töluvert um samgöngumálin og aukna umferð þar sem mest er traffíkin, bæði almennings, íslenskra ferðamanna og útlendra ferðamanna. Umferðin hefur aukist í samræmi við fjölgun ferðamanna. Til að mynda hefur umferðin austur fyrir fjall aukist um meira en 70% á vel innan við áratug. Við blasir við að vegakerfið er sprungið þegar álagið er sem mest en sem betur fer er á áætlun að bæta þar töluvert úr. Vonandi munu þær áætlanir ná fram að ganga. En um leið slá menn á frest og svíkja landsmenn um aðrar samgöngubætur sem margoft hefur verið lofað, eins og Suðurstrandarveg. Um þá leið var gerð sérstök samgönguáætlun vegna kjördæmabreytinganna. Sá vegur hefði skapað mikil tækifæri fyrir suðurströndina alla til uppbyggingar ferðamannaþjónustu og var sérstaklega litið til þeirra samgöngubóta til að tengja saman kjördæmið og skapa nýja möguleika. Ferðaþjónustan á þessu svæði hefur beðið eftir þeim vegi enda mundi hann opna nýja leið austur fyrir fjall með suðurströndinni, þar sem ferðamenn, bæði innlendir og erlendir, gætu farið aðra leið en þeir þurfa nú að fara og nýtt sér allt aðra tegund af ferðamennsku.

Það er óhætt að taka undir með þeim sem sagt hafa að þessi tillaga til þingsályktunar sé fagnaðarefni. Það hefur skort skýran lagaramma, markmiðaramma, utan um uppbyggingu ferðaþjónustunnar sem hefur vaxið feikilega á liðnum árum og er orðin ein af helstu atvinnugreinum okkar. Hins vegar er margt sem þarf að lagfæra og breyta þannig að ramminn sé með þeim hætti að ferðaþjónustan geti dafnað og vaxið sem sú öfluga atvinnugrein sem hún hefur orðið á undanförnum árum. Fjölgun ferðamanna er stórmerkileg og tekjuaukningin í greininni einnig en þó er margt sem þarf að lagfæra og breyta.

Ferðaþjónustan hefur á sumum landsvæðum að mörgu leyti tekið við af hefðbundnum landbúnaði, sem hefur átt undir högg að sækja á síðustu árum og lagst af í miklum mæli. Búin hafa þjappast saman og breyst. Búskaparhættir allir hafa breyst verulega en uppgangur ferðaþjónustunnar hefur verið vítamínsprauta fyrir sveitirnar og hinar dreifðu byggðir. Hægt væri að nefna mörg dæmi um hvernig uppbygging ferðaþjónustunnar hefur tekist til víða úti á landi. Segja má að hún sé núna undirstaða byggðar á einstökum svæðum þar sem hefðbundnar greinar gegndu áður stóru hlutverki. Á mörgum stöðum hefur vel til tekist en auðvitað er uppbyggingin mörgum erfið og margir sem hafa teflt á tæpasta vað við að byggja upp þjónustu þar sem umferðin hefur meira og minna einungis verið á sumrin en lítið við að vera í greininni að vetrinum. Ferðaþjónustubúskapur hefur sums staðar tekið við, er víða undirstaða samfélagsins og er örugglega stór liður í að halda hreinlega stórum landsvæðum í byggð. Vísast væru mörg landsvæði nánast komin í eyði ef ekki væri um að ræða öfluga uppbyggingu ferðaþjónustunnar.

Það má segja að góðar samgöngur, nútímaleg samskipti, fjarskiptatækni, verulega aukin og bætt menntun og öflug landkynning séu undirstaða uppbyggingar ferðaþjónustunnar til framtíðar. Ef markmið þeirrar áætlunar sem við ræðum hér nást þá gæti margt batnað verulega innan greinarinnar. Tækifærin eru mörg og hægt að efla mjög ferðaþjónustuna frá því sem nú er, gera hana að heilsársatvinnugrein þar sem starfar fólk með sérstök réttindi, sérstakt starfsréttindanám sem stendur þar með enn þá betur undir greininni. Það þarf að skapa ferðaþjónustunni þau skilyrði að í henni sé ekki of mikil áhættufjárfesting þannig að oft sé teflt á tæpasta í fjárhag manna til að fara í umfangsmikinn rekstur af því tagi. Eins og fram kom í máli hæstv. samgönguráðherra og margra annarra við fyrri umræðu þarf að sjálfsögðu fyrst og fremst að lengja ferðamannatímann, gera ferðaþjónustuna að heilsársatvinnugrein. Það skiptir öllu máli til að auka vægi hennar enn og gera umhverfi hennar betra.

Eins og ég nefndi áðan þarf sérstaklega að huga að menntun starfsfólks í greininni. Það helst mjög í hendur við lengingu ferðaþjónustutímans því þar sem greinin hefur mestan part verið starfrækt yfir sumartímann, þrjá, fjóra, fimm mánuði á ári, hefur hún byggst að miklu leyti á ungu fólki sem er að vinna í skólahléum sínum og í vaxandi mæli á erlendu vinnuafli sem er mjög fjölmennt núna á mörgum hótelum landsins og stendur að mörgu leyti undir uppbyggingu og sókn ferðaþjónustunnar, þ.e. erlent vinnuafl. Er í sjálfu sér fagnaðarefni að það skuli hafa tekist svo vel sem raun ber vitni. En að sjálfsögðu þarf að búa því fólki góðar aðstæður og gera því eins og öðrum sem hingað koma, bæði Íslendingum og innflytjendum og nýjum Íslendingum, tækifæri til að menntast, læra íslenskuna, læra fög sem tengjast ferðaþjónustunni þannig að það verði enn hæfara og öflugra starfsfólk sem dvelji við greinina. Það þarf um leið og ferðaþjónustutíminn er lengdur að mennta mannskapinn og koma þar með á miklu meiri festu í starfsmannaveltuna þannig að hún sé ekki með þeim hætti að inn komi ungt fólk sem hefur litla þekkingu og stoppar mjög stutt við. Það þarf að fjölga fagfólkinu til að bera uppi ferðaþjónustuna sem mundi að sjálfsögðu sjálfkrafa efla greinina umtalsvert, bæta alla þjónustu og allt umhverfi í kringum ferðamennina, bæði innlenda og útlenda. Menntun starfsfólksins mun tvímælalaust auka festuna og tryggja að upp kæmu hópar af fagfólki í ferðaþjónustunni sem væru að stunda sitt fag og gerði það að verkum að auðveldara væri að gera greinina að heilsársatvinnugrein sem skiptir náttúrlega öllu máli. Ég kom áðan sérstaklega og frekar inn á menntunarmálin sem er tæpt töluvert á í ályktuninni.

Ferðaþjónustan er borin uppi af fólki um allt Ísland, hringinn í kringum landið. Fólk út um hinar dreifðu byggðir sem sér hana sem nýjan atvinnumöguleika eftir að hinar hefðbundnu greinar hafa lagst af. Þess vegna þurfum við að standa vel að menntunarframboðinu, sérstaklega gegnum fjarnámið og símenntunarstöðvarnar sem hæstv. menntamálaráðherra hefur ekki tekið utan um. Hæstv. ráðherra hefur ekki staðið við bakið á símenntunarstöðvunum þannig að nokkur sómi sé að, heldur eru þær á það miklu undanhaldi að þeir sem standa undir rekstri t.d. símenntunarstöðvanna á Suðurnesjum og Suðurlandi hafa látið í það skína að fái þær ekki verulegt aukið og fast fjármagn þá leggist t.d. háskólanám í gegnum fjarnám þeirra af. Það væri mikið högg t.d. fyrir uppbyggingu ferðaþjónustunnar þar sem margir eru að nýta sér þessi tækifæri til að menntast frá sínum heimilum og heimabyggðum án þess að þurfa að taka sig upp og fara burt til náms sem þeir mundu kannski aldrei hafa tækifæri til að gera. Því er mikilvægt að starfsemi símenntunarstöðvanna verði skilgreint upp á nýtt, umhverfi þeirra samhæft og þær fluttar að sjálfsögðu undir menntamálaráðuneytið eins og önnur menntun í landinu. Þetta er að mörgu leyti nýtt menntunarstig sem þarf að búa um eins og aðra menntun í landinu. Þær eru á fjárlögum þar sem það ræðst frá ári til árs hversu miklu er varið til greinarinnar. Það þarf að efla þeirra umhverfi umtalsvert.

Það er ástæða til að vona að þessi umræða verði til þess að umhverfi símenntunarstöðvanna verði eflt ætli menn sér í alvöru að fylgja eftir þeim markmiðum sem fram koma í þeirri þingsályktunartillögu um ferðamál sem við ræðum í dag. Það verður að gera þeim kleift að búa við betra fjárhagslegt atlæti þannig að þær geti staðið undir þeim kröfum sem við eigum og þurfum að gera til þessara nýju menntastofnana sem hafa opnað dreifðu byggðunum, fólki út um allt land og líka á höfuðborgarsvæðinu, ótrúlegan fjölda tækifæra til að skapa ný tækifæri í hvers konar uppbyggingu á smáiðnaði og þjónustu og ekki síst hvað varðar uppbyggingu ferðaþjónustunnar. Því er mjög mikilvægt að taka það inn í þessa umræðu hér hvernig stjórnvöld ætli raunverulega að standa að þeim menntunarmálum sem eru kynnt í tillögunni. Ætli menn sér í alvöru að láta þau markmið ganga eftir þarf að skýra það og skilgreina og hæstv. ráðherra hlýtur að leggja sérstaka áherslu á að menntunarúrræðin um allt Ísland verði efld þannig að hægt sé að standa undir þeim markmiðum sem hér eru nefnd, með leyfi forseta:

„Menntun taki mið af og þróist í samræmi við síbreytilegar þarfir ferðaþjónustunnar.

Allt nám á lægri skólastigum opni möguleika til frekara framhaldsnáms.

Fjarnám verði í boði þar sem við á.“

Ef það er raunverulegur vilji stjórnvalda að efla fjarnámið og gera það að raunverulegum kosti til að efla ferðaþjónustuna og standa við bakið á uppbyggingu þeirrar greinar þá þarf að bæta hið bráðasta úr umhverfi símenntunarstöðvanna.

Þá segir, með leyfi forseta:

„Dregið verði úr misræmi námskostnaðar í „réttindanámi“.

Menntunarframboð stjórnvalda taki mið af þarfagreiningu á hverjum tíma.

Gæði menntunar skal tryggja með sérhæfingu menntastofnana þar sem við á.“

Það er mjög mikilvægt að nota hina fjölbreyttu og góðu framhaldsskóla sem við eigum hringinn í kringum Ísland til að byggja upp sérhæft nám þar sem tilteknir skólar einbeita sér sérstaklega að styttri námsbrautum sem koma að ferðaþjónustunni og eru að byggja undir þá grein eins og við höfum þá séð í Menntaskólanum í Kópavogi, Verkmenntaskólanum á Akureyri og mörgum öðrum skólum. Þess vegna er vonandi að ekki verði úr tillögum sem hæstv. menntamálaráðherra hefur lagt til um að skerða stúdentsprófið einhliða og vinna þar með gegn sérhæfingu og fjölbreytileika skólanna, þeirra menntastofnana, eins og hér segir, „þar sem við á“.

Leiðir þær sem tíundaðar eru hér að þessu markmiði í menntamálum eru, með leyfi forseta:

„Aukið tillit verði tekið til kostnaðar fyrirtækja í tengslum við starfsnám.

Námsbrautir framhaldsskóla og sérskóla tengist svo sem kostur er þannig að ekki myndist blindgötur eða óþörf skörun námsbrauta og skólastiga.

Háskólanám í ferðamálum byggist í vaxandi mæli á þeim grunni sem lagður er á framhaldsskólastigi, þannig að við inntöku nemenda verði tekið tillit til menntunar og/eða reynslu á sviði ferðamála.“

Þarna er um að ræða mjög mikilvægt atriði sem ætti að eiga við í allri okkar menntauppbyggingu, þ.e. að reynsla fólks af vinnumarkaði verði metin sérstaklega þegar það fer í skóla til að ná sér í réttindi hvort sem það er starfsnám eða nám til stúdentsprófs og þá verði reynsla fólks af vinnumarkaði metin til eininga þannig að það stytti námstímann og fólk fái sanngjarnt mat á þeirri þekkingu sem það hefur aflað sér sjálft. Eins og allir vita er skólagangan ekki nema lítill hluti af menntun hvers og eins. Hins vegar er skólinn rammi utan um þau réttindi sem einstaklingarnir geta aflað sér og byggir þar af leiðandi undir tækifærin sem bæði fólk og fyrirtæki geta nýtt sér t.d. við að byggja upp ferðaþjónustuna.

Að lokum vil ég nefna annað sem skiptir miklu máli. Það viðkemur rannsóknum á stöðu greinarinnar. Í markmiðslýsingunni segir, með leyfi forseta:

„Rannsóknir í ferðaþjónustu verði í samræmi við þarfir greinarinnar og styðji við framkvæmd ferðamálaáætlunar.

Unnið verði úr rannsóknum og niðurstöðum þeirra og þær túlkaðar á hagnýtan hátt þannig að þær nýtist greininni sem best.

Þjóðhagsleg áhrif ferðaþjónustunnar verði skilgreind.“

Eins og fram hefur komið í þeim tölum sem ég hef vísað ítrekað í við þessa umræðu í dag þá þarf að kortleggja sérstaklega þjóðhagsleg áhrif af því þau eru orðin feikilega mikil. Komi það til á einhverjum tímapunkti t.d. að uppbygging stóriðju og stórvirkjana sé farin að skaða og vinna gegn greininni þá er það stóralvarlegt mál af því þjóðhagsleg áhrif ferðaþjónustunnar eru svo mikil. Þar koma sérstaklega upp í hugann undarlegar fyrirætlanir stjórnvalda um að skerða náttúruperlur á heimsmælikvarða eins og hin verðmætu Þjórsárver. Því þarf að skilgreina þjóðhagslegu áhrifin og taka það sérstaklega inn í að virkjana- og stóriðjuuppbyggingin skaði ekki þessa mikilvægu grein sem til lengri tíma litið er miklu mikilvægari en ávinningurinn af stóriðjunni.

Leiðir sem eru lagðar til í þessu samhengi eru þessar í tillögunni, með leyfi forseta:

„Hluta þeirra fjármuna er nýsköpunar- og þróunarsjóður ferðamála fær til ráðstöfunar skal varið til rannsókna í ferðamálum.

Starfrækt verði gagnamiðstöð er vinni að söfnun, úrvinnslu og túlkun gagna til hagnýtingar fyrir bæði opinbera aðila og einkaaðila innan greinarinnar.

Hlúð verði að hvers kyns grunnrannsóknum og hagnýtum rannsóknum í ferðamálafræði.“

Það hefði verið mjög fróðlegt að sjá nánari útlistun og útskýringu á þessu, hvernig eigi að standa að þessu og hvernig eigi að nýta mennta- og vísindastofnanir okkar til að taka þátt í þessu. Markmiðin eru alla vega háleit. Það er ágætt, komi hæstv. ráðherra með skýrar leiðir til að fylgja þessu eftir.

Eins er mikilvægt að hyggja vel að gæða- og öryggismálunum í greininni en þar hefur stundum eða oft verið pottur brotinn. Kemur tillagan sérstaklega inn á það að þjónustan á Íslandi sé umfram væntingar ferðamanna um gæði og öryggi þannig að gestir til landsins verði fljótir að átta sig á þeim þáttum grunnskipulags þjóðfélagsins sem að þeim snúa. Það er nauðsynlegt að neytendurnir hafi greiðan aðgang að upplýsingum um forsendur ferðaþjónustufyrirtækja í öryggis- og gæðamálum hvers konar.

Hér er um að ræða, eins og ég segi, metnaðarfulla tillögu sem er að sjálfsögðu tímabær. Þar er að finna fögur fyrirheit og háleit markmið. Staða greinarinnar er að mörgu leyti góð. En margt ógnar henni. Því þarf að skapa mjög skýran ramma utan um starfsemi hennar og rekstrarskilyrði þannig að þau verði sambærileg við rekstrarskilyrði í samkeppnislöndunum, sérstaklega þegar kemur að forustu í umhverfisvænni ferðaþjónustu og uppbyggingu þjóðgarða. Ég er sannfærður um að uppbygging þjóðgarða sé algjört grunnstef í því að efla ferðaþjónustuna til allrar framtíðar um leið og það stuðlar að skynsamlegri nýtingu á náttúruperlunum og verndar þær fyrir öðrum ágangi um leið.

Það er ástæða til að fagna þeim fyrirheitum sem koma fram í þessari tillögu til þingsályktunar um leið og við hljótum að kalla eftir því hvernig stjórnvöld ætla að fylgja hinum háleitu markmiðum eftir.