131. löggjafarþing — 121. fundur,  3. maí 2005.

Breyting á ýmsum lögum á orkusviði.

396. mál
[16:58]

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var mjög sérkennileg ræða sem hv. þingmaður flutti og ég tel að ég verði að leiðrétta ákveðnar rangfærslur. Ég vonast til þess að hv. þingmaður muni leggjast á sveif með okkur í stjórnarandstöðunni og fresti gildistöku skattskyldunnar þegar hann áttar sig á því að hann hefur farið með rangt mál um að breytingarnar á skattskyldu fyrirtækjanna muni ekki leiða til hækkunar. Fram kemur, vegna þess að það virðist hafa farið fram hjá hv. þingmanni, að orkufyrirtækin a.m.k. segir Orkuveita Reykjavíkur í umsögn að skattlagning orkufyrirtækja, með leyfi forseta: „muni óhjákvæmilega leiða til hækkunar verðs þar sem núverandi gjaldskrá gerir ekki ráð fyrir greiðslu tekju- og eignarskatts.“

Nú þegar ég hef upplýst hv. þingmann um umsögnina vonast ég til þess að hann leggist á sveif með okkur í stjórnarandstöðunni. Í umsögn frá Hitaveitu Suðurnesja segir: „Til að mæta auknum álögum er líklegt að hækka þurfi orkuverð.“ Mér finnst náttúrlega mjög hjákátlegt og mjög sérkennilegt að menn hafi ekki lesið betur umsagnir um þau frumvörp sem þeir eru að flytja og eru formenn iðnaðarnefndar, frú forseti.

(Forseti (SP): Forseti vekur athygli hv. þingmanna á því að þeir hafa aðeins eina mínútu til að halda ræðu sína.)