131. löggjafarþing — 121. fundur,  3. maí 2005.

Breyting á ýmsum lögum á orkusviði.

396. mál
[23:49]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að víkja að vinnulaginu sem nú er notast við. Menn voru flestir á nefndafundum í morgun, hygg ég, um hálfníu. Ef ég veit rétt þá er boðaður fundur í fyrramálið í samgöngunefnd, menntamálanefnd og landbúnaðarnefnd klukkan 8.30.

Umræðan hefur staðið síðan hálfellefu í morgun, erum komin á fjórtánda tímann, hæstv. forseti, og farið að nálgast miðnætti. Mér hefði fundist eðlilegri vinnubrögð að fara að huga að því, og vil mælast til þess við hæstv. forseta að svo verði gert, hvort ekki væri rétt að fara að ljúka þessum fundi, miðað við þá vinnu sem á að leysa af hendi í fyrramálið og þá síðar um daginn. Ég held að það væri rétt, virðulegu forseti.

Ég verð líka að taka undir þær óskir og ábendingar sem hér hafa komið fram, að það er náttúrlega nokkuð sérstakt að haga umræðunni þannig um svo mikið álitamál eins og við erum hér að ræða en ráðherra málaflokksins, raforkumálanna í heild sinni, hæstv. iðnaðarráðherra, láti ekki svo lítið að vera við umræðuna, jafnvel þótt óskað hafi verið eftir því. Það væri fróðlegt að fá að vita hvort ekki hafi verið komin boð til iðnaðarráðherra um að mæta til umræðunnar. Ég veit að það hafa komið fram óskir um það. Eftir því sem ég best veit var iðnaðarráðherra fyrr í kvöld ekki mjög langt héðan, í Iðnó. Það ætti því varla að vera ofverkið að láta hana vita að menn hafi óskað eftir nærveru hennar.

Ég tel nauðsynlegt að fjalla nánar um málið í ljósi þeirrar umræðu sem farið hefur fram um þær afleiðingar sem geta orðið af slíkri lagasetningu, m.a. þeim að orkuverð hækki enn í landinu umfram það sem þegar er orðið. Sú hækkun kom ýmsum á óvart á sínum tíma og nú á þetta að bætast við. Miðað við allar viðvaranir sem samtök sem gáfu umsögn um þetta mál, sveitarfélög og orkufyrirtæki, þá held ég að stjórnarflokkarnir hljóti að taka mark á því, þótt þeir taki ekki mikið mark á okkur þingmönnum stjórnarandstöðunnar í þessu máli og láti ekki svo lítið að reyna að svara neinum af spurningum okkar.