131. löggjafarþing — 122. fundur,  4. maí 2005.

Jarðgöng í Dýrafirði.

775. mál
[12:01]

Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) (F):

Herra forseti. Það er mikilvægt að sem fyrst liggi fyrir pólitísk ákvörðun um hvort menn ætli að ráðast í þessa jarðgangagerð eða ekki. Fyrir liggur yfirlýsing ráðherra um vilja hans en ekki liggur fyrir yfirlýsing ríkisstjórnarinnar. Ég verð að segja, herra forseti, að það er orðið brýnt að ríkisstjórnin tali skýrt í þessum efnum. Hún hefur unnið þannig á síðustu árum að það er ástæða til að hafa nokkrar áhyggjur af því hvernig ákvarðanir eru teknar um röð verkefna að þessu leyti til.

Á milli þeirra þriggja verkefna sem ég taldi upp að nefnd Vegagerðar ríkisins hafi dregið fram sem þau verkefni sem fyrst og fremst ætti að ráðast í, var ráðist í jarðgöng undir Almannaskarð. Hvað segir í skýrslu Vegagerðar ríkisins um þann valkost? Um þann valkost segir í þessari skýrslu, herra forseti: „Jarðgöng koma þarna varla til álita fyrr en eftir 30 ár.“ Engu að síður er þessi kostur kominn inn og er verið að ljúka því verki núna. Einn kostur af þeim þremur sem dregnir voru út úr er ekki enn kominn af stað. Ekki er enn búið að taka pólitíska ákvörðun um hvort ráðast eigi í hann.

Ég er alveg sammála hæstv. samgönguráðherra um að það er ekkert að vanbúnaði með frekari rannsóknir og engin ástæða til að ráðast í þær fyrr en ákvörðun liggur fyrir, en ég legg ríka áherslu á að hún liggi fyrir. Alþingi mun þurfa að taka afstöðu til málsins áður en kemur að kosningum, herra forseti. Lögð verður fyrir þingið tillaga um að ráðast í þessa framkvæmd og ég mun gera það, virðulegur forseti, ef hæstv. samgönguráðherra gerir það ekki fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Það verður ekki beðið lengur eftir ríkisstjórninni í þessum efnum, virðulegi forseti.