131. löggjafarþing — 123. fundur,  4. maí 2005.

Fjárframlög til Mannréttindaskrifstofu Íslands.

[13:33]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Viðbrögð hæstv. ríkisstjórnar við þeirri gagnrýni sem hún hefur sætt vegna atlögunnar að Mannréttindaskrifstofu Íslands hafa hvorki verið mikil né stórmannleg. Fyrir liggur að dómsmálaráðherra og utanríkisráðherra nota úthlutunarvald sitt sem þeim var illu heilli fengið af meiri hluta Alþingis fyrir síðustu jól til að skera fjárveitingar til Mannréttindaskrifstofunnar niður við trog þannig að grundvelli er bókstaflega kippt undan rekstri hennar. Dómsmálaráðherra skilyrðir það litla fjármagn sem hann lætur renna til skrifstofunnar. Utanríkisráðherra lætur hana ekki hafa krónu og virðist ekki telja að það komi neinum við nema sjálfum sér hvernig hann fer með fjárlagaliðinn. Hæstv. forsætisráðherra og fyrrverandi utanríkisráðherra skríður í felur.

Kröfu okkar formanna stjórnarandstöðuflokkanna um að taka frumvarp okkar um aukafjárveitingu til Mannréttindaskrifstofunnar yfir fjáraukalög á dagskrá er hafnað. Forsætisráðherra hefur nú nýlega hafnað því að vera til svara fyrir ríkisstjórnina í umræðum utan dagskrár. Ég sendi forseta þingsins og hæstv. forsætisráðherra beiðni um að fá að ræða málið utan dagskrár úr því að dagskrármálið fæst ekki tekið fyrir og fékk svohljóðandi svar frá forsætisráðherra eða ritara hans, með leyfi forseta:

„Forsætisráðherra vísar málinu frá sér til dómsmála- og utanríkisráðherra þar sem þeir fara með þessi mál.“

Virðulegi forseti. Á ég þá að biðja um tvær utandagskrárumræður, aðra á utanríkisráðherra og hina á dómsmálaráðherra? Hvaða ráð eru til að fá málið tekið upp með eðlilegum hætti og láta á það reyna hvort meiri hluti Alþingis styður það að starfsemi Mannréttindaskrifstofunnar verði rústað með þessum hætti þvert ofan í svardaga um hið gagnstæða við fjárlagaafgreiðsluna fyrir jól? Málið varðar samskipti Alþingis og framkvæmdarvaldsins beint og er algerlega óásættanlegt að þingið ljúki störfum án þess að hægt sé að taka það til umræðu.