131. löggjafarþing — 123. fundur,  4. maí 2005.

Stofnun hlutafélags um síldarútvegsnefnd og stofnun sjóða í þágu síldarútvegs.

583. mál
[14:00]

Frsm. sjútvn. (Guðjón Hjörleifsson) (S):

Virðulegi forseti. Sjávarútvegsnefnd hefur fjallað um frumvarp um breytingu á lögum um stofnun hlutafélags um síldarútvegsnefnd og stofnun sjóða í þágu síldarútvegsins. Frumvarpið tekur á heimild stjórnar til sjóðsins um að styrkja nýsköpun, rannsóknir og fræðslu- og kynningarstarf í sjávarútvegi.

Á sínum tíma var stofnaður sjóður, Vöruþróunar- og markaðssjóður síldarútvegsins, sem hafði þann tilgang að efla vöruþróun síldarafurða …

(Forseti (JBjart): Forseti biður þingmenn um að gefa gott hljóð í þingsal.)

… og efla markaðssókn fyrir síldarafurðir. Það er mat stjórnar sjóðsins að hagsmunir síldarútvegsmanna liggi í fleiru en vöruþróun og öflun nýrra markaða fyrir síldarafurðir og gerir þetta frumvarp ráð fyrir enn frekari útvíkkun á verksviði stjórnar sjóðsins. Ég er því algjörlega sammála.

Sjávarútvegsnefnd fékk afrit af skipulagsskrá Vöruþróunar- og markaðssjóðs síldarútvegsins ásamt ársreikningum fyrir árið 2004. Þá kom fram að eignir sjóðsins þann 31. des. 2004 eru rúmar 88 millj. kr. Í umsögn um frumvarpið frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins kemur fram að eigið fé sé 150 millj. kr. Ég kannaði hvernig stæði á þessu ósamræmi en það reyndist vera vegna þess að sjóður til síldarrannsókna á vegum Hafró var með eigið fé upp á 150 millj. kr. en það er ekki sami sjóður og við erum að ræða um og tengist á engan hátt þessu frumvarpi. Nefndarmönnum sjávarútvegsnefndar hefur verið gerð grein fyrir þessu.

Virðulegi forseti. Ég mun kynna hér nefndarálit sjávarútvegsnefndar um þetta frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 43 29. maí 1998, um stofnun hlutafélags um síldarútvegsnefnd og stofnun sjóða í þágu síldarútvegsins.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jón B. Jónasson frá sjávarútvegsráðuneyti. Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá Hafrannsóknastofnun, Sjómannasambandi Íslands, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands og Landssambandi smábátaeigenda.

Með frumvarpinu er lagt til að heimildir svonefnds Vöruþróunar- og markaðssjóðs síldarútvegsins sem stofnsettur var með lögum nr. 43/1998 til að efla vöruþróun síldarafurða og afla nýrra markaða fyrir síldarafurðir verði rýmkaðar þannig að sjóðnum verði jafnframt heimilt að styrkja nýsköpun, rannsóknir og fræðslu- og kynningarstarf í sjávarútvegi.

Sjávarútvegsnefnd leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Jón Bjarnason var viðstaddur afgreiðslu málsins og er hann samþykkur áliti þessu með fyrirvara. Undir nefndarálitið rita hv. þm. Guðjón Hjörleifsson, Guðlaugur Þór Þórðarson, Dagný Jónsdóttir, Sigurrós Þorgrímsdóttir, Una María Óskarsdóttir, og Jón Gunnarsson, Jóhann Ársælsson og Magnús Þór Hafsteinsson með fyrirvara.

Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni 2. umr. verði frumvarpinu vísað til 3. umr.