131. löggjafarþing — 123. fundur,  4. maí 2005.

Stofnun hlutafélags um síldarútvegsnefnd og stofnun sjóða í þágu síldarútvegs.

583. mál
[14:49]

Frsm. sjútvn. (Guðjón Hjörleifsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Jón Gunnarsson spurði af hverju við hefðum ekki prentað álitið upp á nýtt vegna upplýsinga frá fjármálaskrifstofu. Ég taldi vera nóg að þetta kæmi fram í framsögu minni. Ég man ekki eftir því að í nefndarálitinu höfum við verið að minnast á fjármálaskrifstofuna.

Hann talaði um hvort það væri flumbrugangur í sjávarútvegsnefnd við að koma þessu máli út. Sjávarútvegsnefnd lauk störfum sl. miðvikudag með þau mál sem komu frá ríkisstjórn og er sennilega mjög tímanlega miðað við aðrar nefndir. Frestun á þessari umræðu varð vegna beiðni manna sem eru í sjávarútvegsnefnd en voru staddir erlendis. Við hefðum þess vegna getað tekið þessa umræðu á mánudaginn þannig að við höfum haft nógan tíma, og allan þann tíma til að koma saman. Ég vísa þessu frá.

Það var í hléi á fundi í sjávarútvegsnefnd sem ég hringdi upp í sjávarútvegsráðuneyti og fékk þær upplýsingar að þarna væri um mistök að ræða. Ég held að ég muni meira að segja bókhaldsnúmerið á sjóðnum með þessum 150 milljónum, 05-210 minnir mig að það hafi verið ef menn vilja fara í fjárlögin. Þarna urðu mannleg mistök og þó að þessi tala standi í þessu skjali fara menn ekki að eyða meiru en eigið fé segir til um.

Hv. þm. Jón Gunnarsson las upp athugasemdir sem ég ætla að fá að gera líka, með leyfi forseta:

„Sjóðurinn lýtur alfarið stjórn síldarútvegsmanna, enda er hann byggður upp fyrir það fé sem þeir greiddu til síldarútvegsnefndar af verðmæti útflutnings síldarafurða á þessum tíma.“

Svo las hv. þm. Jón Gunnarsson í viðbót:

„Er hér lagt til að nýjum málslið verði bætt inn í ákvæðið þannig að stjórn sjóðsins verði almennt heimilt að styrkja nýsköpun, rannsóknir og fræðslu- og kynningarstarf í sjávarútvegi.“

Hann las hins vegar ekki síðustu setninguna: „Er það í samræmi við vilja stjórnar sjóðsins.“

Það er stjórnin sem hefur forræði yfir þessum sjóði, aðilarnir sem greiddu í sjóðinn. Ég fagna því að við erum að fá viðbótarfé í rannsóknir. Það fé getur náttúrlega líka nýst í síldarrannsóknir. Þetta fer í alhliða rannsóknir og það er mjög ánægjulegt. Þessir aðilar vilja þetta. Hv. þingmaður ræddi um síldarrannsóknir fyrir Vestmannaeyinga. Það er stjórnarmaður sem er framkvæmdastjóri (Forseti hringir.) fyrirtækis í Vestmannaeyjum sem er í stjórn þarna.