131. löggjafarþing — 124. fundur,  6. maí 2005.

Geðlyfjanotkun barna.

[10:38]

Jón Gunnarsson (Sf):

Herra forseti. Ég verð að segja að þegar ég las svar hæstv. ráðherra við fyrirspurn hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur um lyfjanotkun barna dauðbrá mér. Hvernig í ósköpunum getur staðið á því að það sé þörf fyrir okkur hér á Íslandi að ávísa geðlyfjum til barna tífalt til tuttugufalt á við það sem gerist í nágrannalöndunum?

Auðvitað er örugglega þörf fyrir það að ávísa lyfjum í einhverjum tilvikum þegar um ofvirkni og athyglisbrest er að ræða. Þessi mikla aukning á notkun þessara lyfja hlýtur þó að vekja upp áleitnar spurningar. Getur verið að við séum farin að sjúkdómsvæða eðlilega hegðun barna? Getur verið eðlilegt ef barn er ódælt, til vandræða í skóla og fyrirferðarmikið, eins og það var kallað hér í gamla daga, að þá sé ráðið það að ávísa á lyf, ávísa á dóp? Er það það sem við viljum sjá? Ég held ekki.

Svo virðist sem þessi þróun hafi orðið sjálfkrafa. Smátt og smátt hefur þetta verið að aukast. Kostnaðurinn er eitt í þessu sambandi, 376 þús. kr. árið 2002, 129 milljónir árið 2004 í geðlyf fyrir börn.

Ég held að við hljótum að þurfa að staldra við. Við hljótum að þurfa að velta fyrir okkur á hvaða leið við erum. Og við hljótum að þurfa að velta fyrir okkur þeirri áleitnu spurningu: Hverjir eru að ávísa öllum þessum lyfjum til barnanna? Eru það sérfræðingar á því sviði sem um ræðir? Í fæstum tilvikum held ég að um það sé að ræða.