131. löggjafarþing — 124. fundur,  6. maí 2005.

Skattskylda orkufyrirtækja.

364. mál
[20:14]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður sagði að þessi starfsemi væri ekki atvinnugrein í venjulegum skilningi. Ég minni á að fyrir svona tíu árum þá höfðu menn nákvæmlega sömu skoðun á bankastarfsemi. Hana væri ekki hægt að stunda nema opinberir starfsmenn ynnu við að afgreiða peninga yfir diskinn. Nú hefur komið í ljós að sú starfsemi gengur ljómandi vel án þess að vera ríkisrekin. Þetta er atvinnustarfsemi nákvæmlega eins og annað.

Varðandi það að verið sé að refsa Reykvíkingum þá fullyrði ég að þeir skattar sem Orkuveita Reykjavíkur kemur til með að borga vegna þessa frumvarps eru pínulitlir miðað við þá fjárfestingu sem sett var í Línu.net og kostnað við þá eðlisfræðitilraun að reyna að flytja tölvuboð eftir rafstrengjum. Í hana voru settar fleiri þúsund milljónir og það klikkaði.

Þetta nær ekki einu sinni kostnaði við risarækjueldið sem Orkuveita Reykjavíkur stendur í. Orkuveita Reykjavíkur stendur svona vel vegna þess að Reykjavík stendur á hitasvæði þar sem er eitt besta hitaveituvatn í landinu, mjög ódýrt í vinnslu og stendur á gömlum merg vegna framsýni manna sem lögðu hitaveituna, árið 1940 minnir mig. Aðrar hitaveitur þurfa að bora dýpra, fá kaldara vatn og eru ekki eins hagkvæmar. Þær þurfa að leiða vatnið langar leiðir, sem Hitaveita Reykjavíkur gerir reyndar líka, þ.e. frá Þingvöllum. Það að hún skilar hagnaði er vegna þess að hún fær þetta allt saman ókeypis.