131. löggjafarþing — 124. fundur,  6. maí 2005.

Skattskylda orkufyrirtækja.

364. mál
[20:18]

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér um frumvarp til laga um skattskyldu orkufyrirtækja, frumvarp sem, ef að lögum verður, mun verða slæm sending til íslensku þjóðarinnar. Það er ávísun á hærra raforkuverð til almennra neytenda. Um það ber öllum saman sem að málinu koma og mál þetta snertir, þ.e. orkufyrirtækjum, sveitarfélögum í landinu, hagsmunasamtök almennings, m.a. verkalýðshreyfingunni.

Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum gert rækilega grein fyrir afstöðu okkar til þessa máls. Við teljum að eitt eigi að gilda um velferðarþjónustu og grunnþjónustu sem snýst um lífsnauðsynjar til almennings, eins og raforkan óneitanlega er, vatnið og annað af því tagi og hins vegar hitt sem er eðlileg markaðsvara. Út á það gengur þetta frumvarp, að gera rafmagnið að markaðsvöru.

Þeir sem trúa á markaðinn, hafa á honum ótakmarkaða trú, að hann lækni öll mein hvar sem þau er að finna, telja að samkeppni á þessu sviði muni leiða til lægra raforkuverðs, að fyrirtækin verði betur rekin og þegar þau keppi sín í milli þá muni það valda verðlækkunum á þeirri vöru sem menn vilja gera rafmagnið að.

Það er svo undarlegt að allar þær breytingar sem ráðist hefur verið í af þessu tagi hafa valdið hinu gagnstæða. Raforkuverð hefur hækkað. Raforkuverð fer hækkandi. Kerfisbreytingarnar sem þegar hafa átt sér stað, sem tóku gildi um síðustu áramót, hafa þegar valdið skattahækkunum. Rarik hækkaði gjaldskrá sína um 3,5% um síðustu áramót og síðan fylgdi enn hækkun um 6%, en þetta jafngildir 9,71% hækkun. Sú hækkun bliknar hins vegar í samanburði við nýja rafmagnsreikninga á Vestfjörðum. Þar var víða um að ræða um 40% hækkun. Það var þó breytilegt, sums staðar minna og sums staðar jafnvel heldur meira.

Hæstv. iðnaðarráðherra sem er ábyrg fyrir þessum kerfisbreytingum er hins vegar mjög ánægð með þessi afkvæmi sín, þessi frumvörp sem þegar hafa verið samþykkt og svo þetta sem bíður samþykktar þingsins. Hún sagði í ræðu 26. nóvember á síðasta ári, með leyfi forseta:

„Það er eiginlega alveg stórmerkilegt að það skuli þó hafa náð að verða að lögum“ — hún vísar þar í kerfisbreytingarfrumvarpið — „og vera komið á þann stað í stjórnsýslunni sem raun ber vitni. Ég er þó alltaf jafnhamingjusöm með frumvarpið og lögin og ég held að það hljóti að segja sína sögu.“

Ég hef rifjað þetta nokkrum sinnum upp vegna þess að þetta eru makalaus ummæli. Ráðherrann lýsir furðu yfir því að lagabreytingarnar skuli hafa náð fram að ganga, þá væntanlega vegna þess að þær séu svo vitlausar eða að svo mikil óeining hafi verið um þær en hún sé hins vegar afskaplega ánægð og hamingjusöm með breytingarnar. Nú er fólk að fá í hendur sannanir fyrir því, í formi rafmagnsreikninga, að varnaðarorð stjórnarandstöðunnar, ekki síst Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs því við einn flokka vöruðum mjög eindregið við þessum kerfisbreytingum. (JBjarn: Frá upphafi ferlisins alveg.) Frá upphafi þessa ferlis. Við vorum eini flokkurinn hér á Alþingi sem andmælti tilskipuninni þegar hún var fyrst fest í lög. Hún birtist reyndar fyrst sem þingsályktunartillaga, eins og tíðkast með tilskipanir frá hinu Evrópska efnahagssvæði, en þegar það mál kom inn í þingið þá andmæltum við því harðlega, gagnrýndum það og lögðum til að leitað yrði eftir því að Íslendingar fengju undanþágu frá tilskipuninni. Á það var ekki hlustað þótt margir vildu þá Lilju kveðið hafa síðar meir. Nefni ég þar annars vegar hæstv. dómsmálaráðherra Björn Bjarnason og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, varaformann Samfylkingarinnar, sem bentu á síðari stigum á að sennilega hefði verið hyggilegt að biðja um undanþágu frá þessari tilskipun, sem ég er sannfærður um að hefði gengið eftir.

Ég vek athygli á því að hæstv. forsætisráðherra, formaður Framsóknarflokksins, Halldór Ásgrímsson, hefur sagt að útilokað hefði verið að fá undanþágu frá tilskipuninni. Mér skilst að hann telji að eftir því hafi verið leitað. Ég hef ekki sannfærst um að svo hafi verið. Ég sat sjálfur í alllangan tíma í ráðgjafanefnd EFTA sem fór yfir þessi mál og varð aldrei var við að ríkisstjórnin eða nokkur á hennar vegum óskaði eftir undanþágu frá þessari tilskipun.

Hvað um það. Hún var samþykkt hér á landi og síðan var hafist handa við kerfisbreytingar um síðustu áramót sem hafa þegar leitt til umtalsverðrar hækkunar á rafmagnsverði. Nú bíður næsta skref okkar, þ.e. að færa orkufyrirtækin rækilega út á markaðinn, út á markaðstorgið. Þá skulu sömu reglur gilda um þau og önnur fyrirtæki í landinu og þau gjalda skatta samkvæmt sömu reglum og önnur fyrirtæki í landinu.

Hvað gerist þá? Málið er sent til umsagnar víðs vegar um þjóðfélagið. Það berast viðamikil gögn og álitsgerðir til þingsins og skiptist í tvö horn með umsagnirnar. Annars vegar er þunnur bunki, umsagnir Verslunarráðsins og Samtaka atvinnulífsins, sem voru mjög ánægð með þessar breytingar og töldu þær til góðs. Hins vegar var þykkur bunki, mjög þykkur bunki, ítarlegar álitsgerðir og röksemdir frá almannasamtökum í landinu, frá verkalýðshreyfingunni, frá ASÍ, frá BSRB, frá Neytendasamtökunum, frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og orkufyrirtækjum. Í þeim bunka voru allir á móti. Þar voru undantekningalaust allir á móti, á mismunandi forsendum en allir engu að síður á móti málinu.

Verkalýðssamtökin leggja áherslu á að um sé að ræða lífsnauðsynjar, grunnþjónustu sem ekki eigi að skattleggja og vara við því að skattlagning á orkufyrirtækjum muni leiða til hækkunar á raforkuverði. Frá orkufyrirtækjunum barst síðan staðfesting á því að svo muni gerast. Þau senda frá sér ítarlegar álitsgerðir, t.d. Orkuveita Reykjavíkur og Hitaveita Suðurnesja og fleiri aðilar.

Umsögn Orkuveitu Reykjavíkur er mjög ítarleg og þar er að finna margar röksemdir sem sýna fram á að skattlagning muni leiða til hærra verðs. Hér segir m.a., með leyfi forseta:

„Skattlagning á orkufyrirtæki mun óhjákvæmilega leiða til hækkunar verðs þar sem núverandi gjaldskrá gerir ekki ráð fyrir greiðslu tekju- og eignarskatta. Í athugasemdum við frumvarpið kemur ekki fram hvaða áhrif þessi skattlagning hefur á orkufyrirtækin og ekki kemur fram hvaða breytingar verða á gjaldskrám fyrirtækjanna verði frumvarpið að lögum.“

Í næstu efnisgrein er síðan vikið að langtímasamningum orkufyrirtækjanna. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Orkuveita Reykjavíkur er með samninga um orkusölu til stóriðju sem gilda í 20 ár. Samningar þessir hafa verið gerðir fyrir hvatningu ríkisins og engir fyrirvarar af þess hálfu um að gera þurfi ráð fyrir skattlagningu til framtíðar. Arðsemisútreikningar sem gerðir hafa verið í góðri trú vegna stórframkvæmda hafa ekki gert ráð fyrir greiðslu þessara skatta. Forsendur gerðra samninga um arðsemi þeirra raskast verulega verði frumvarp þetta að lögum.“

Ég ætla ekki að fara ítarlega yfir umsögn Orkuveitu Reykjavíkur né annarra orkufyrirtækja. Ég gerði það við 2. umr. málsins og vísa í nefndarálit sem ég gerði þá um frumvarpið.

Einn efnisþátturinn enn sem vert er að halda til haga er skatturinn á heita vatninu. Frumvarpið gerir ráð fyrir því að heita vatnið verði líka skattlagt. Það er nokkuð sem harðlega hefur verið gagnrýnt af Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Bent er á að þar sé í raun ekki um samkeppnisvöru að ræða. Menn vilja líta á það í þessu samhengi vegna þess að þar sem heitt vatn er til staðar er raforka engan veginn samkeppnishæf. Heita vatnið er svo miklu hagkvæmari kostur. Heita vatnið er ekki flutt langa vegu til að keppa á fjarlægum slóðum og því er fráleitt, segir Samband íslenskra sveitarfélaga, að hafa heita vatnið þarna inni.

Hér segir í niðurlagi álitsgerðar sambandsins, með leyfi forseta:

„Að lokum vill sambandið vekja athygli Alþingis á því að breyting á skattalegri stöðu hitaveitna, sem ekki verður séð að styðjist við nein efnisleg rök, felur í raun í sér meiri háttar breytingu á fjárhagslegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Slíkar breytingar þarfnast ítarlegri umræðu við sveitarfélög en farið hefur fram til þessa.“

Áður var gerð grein fyrir því hvers vegna fráleitt væri að skattleggja heita vatnið. Vikið er að því í þessum niðurlagsorðum og því bætt við að eðlilegt hefði verið að ganga frá samkomulagi við sveitarfélögin um fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga áður en þessi breyting er gerð. En grunnhugsunin hjá sveitarfélögunum er sú að með því að skattleggja orkufyrirtækin sé verið að færa fjármuni frá sveitarfélögum til ríkisins. Ríkið kemur til með að taka tekjuskattinn til sín en sveitarfélögin nutu iðulega góðs af arði út úr orkufyrirtækjunum. Arðurinn var veittur inn í fjármögnun velferðarþjónustunnar í sveitarfélögunum eins og dæmi eru um í Reykjavík þar sem mikið fé hefur verið veitt frá Orkuveitunni inn í borgarsjóð til að fjármagna aðra starfsemi þar. Með skattlagningu verður minna til ráðstöfunar og þar af leiðandi segja sveitarfélögin að eðlilegt hefði verið að klára umræðuna um fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga áður en þetta yrði lögfest.

Þegar málið var til umræðu við 2. umr. vísaði ég fyrst og fremst í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga og Orkuveitu Reykjavíkur en síðan hefur borist bréf frá borgarstjóranum í Reykjavík þar sem vikið er að þessum málum. Ætla ég að lesa það bréf, með leyfi forseta:

„Á fundi borgarráðs 28. þessa mánaðar“ — þetta er skrifað í lok apríl — „var ítrekuð andstaða Reykjavíkurborgar við áform um skattlagningu orkufyrirtækja eins og þau birtast í lagafrumvarpi um málið sem nú er fyrir Alþingi. Samkvæmt samantekt Sambands íslenskra sveitarfélaga hefði þessi skattlagning orkufyrirtækja sveitarfélaga numið um 1,1 milljarði kr. á árunum 2002 og 2003. Allar líkur eru á því að þessi fyrirhugaða skattlagning muni leiða til hækkunar á raforkuverði, heitu vatni og vatnsgjaldi í nánustu framtíð, en skipulagsbreytingar á raforkumarkaði hafa þegar leitt til hækkunar raforkuverðs. Borgarráð mótmælir því harðlega að ríkið fari fram með þessum hætti og krefst þess að viðræður fari fram milli ríkis og sveitarfélaganna áður en lagafrumvarp um skattlagningu orkufyrirtækja verður að lögum.“

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að tíunda frekar rök gegn því að samþykkja þetta frumvarp. Mig langar til að segja að það hefur komið mér á óvart við þessa umræðu hversu peningafrjálshyggjusinnuð sjónarmið hafa komið frá Framsóknarflokknum sem hefur dásamað einkavæðingu og markaðsvæðingu á þessu sviði sem öðrum með stjörnur í augunum út af einkavæðingu bankanna. Hann telur að þar hafi ekki verið stigin önnur skref en til góðs, þrátt fyrir þá miklu gagnrýni sem fram hefur komið á það hvernig einkavæðingin var framkvæmd, þá spillingu sem tengdist einkakvæðingunni á bönkunum þar sem menn tala fremur um gjöf en sölu á eðlilegum forsendum. Margir heiðarlegir hægri menn, frjálshyggjumenn, hafa gagnrýnt þetta, þeim hefur ofboðið sá máti sem hafður hefur verið á.

Framsóknarflokkurinn er greinilega líka hrifinn af markaðsvæðingu grunnþjónustunnar eins og raforkunnar án þess að nokkurn tíma hafi verið sýnt fram á hvað gott hún muni leiða af sér. Þess vegna hef ég líka spurt sjálfan mig hvað raunverulegir markaðssinnar, hægri menn, frjálshyggjumenn á borð við t.d. hv. þm. Pétur H. Blöndal, sjái því til hagsbóta að markaðsvæða þennan geira vegna þess að menn eiga svo erfitt með að koma auga á að þarna fari fram raunveruleg samkeppni. Staðreyndin er sú að ef litið er til Evrópu, reynslunnar af markaðsvæðingu raforkunnar í Evrópu, þá hefur hún yfirleitt leitt til hækkunar á rafmagni. Það hefur gerst á Norðurlöndunum og á meginlandinu er sífellt að verða meiri fákeppni á þessu sviði. Fyrirtækin eru að renna saman og í stóra risa sem skipta síðan markaðnum á milli sín.

Hér er mjög ólíklegt að um einhverja virka samkeppni verði að ræða og þess vegna hef ég furðað mig á hve lítil gagnrýnin umræða fer fram um þennan þátt, jafnvel af hálfu markaðssinna. Ég ber alveg virðingu fyrir því sjónarmiði, ég berst harðlega gegn því, ég vil ekki markaðsvæðingu á velferðarþjónustunni eða grunnþjónustu samfélagsins, en jafnvel ef við færðum okkur yfir á þennan hugmyndagrundvöll frjálshyggjumannanna finnst mér skorta á að þeir sýni fram á að það verði raunveruleg samkeppni sem muni færa verðlagið niður. Engu að síður er hægt er að skilja að Sjálfstæðisflokkurinn, sem er markaðshyggjuflokkur, vilji fara inn á þessar brautir, en erfiðara að skilja Framsókn nema þá í ljósi þess að hún hefur gerst undarleg hjálparhella, hækja undir Sjálfstæðisflokknum í einu og öllu og ekkert síður í því sem lýtur að markaðsvæðingu grunnþjónustunnar og velferðarþjónustunnar í landinu.

Þegar upp er staðið erum við hér með þingmál sem mun leiða til, ef það verður að lögum, aukinna álagna á almenning í landinu og það er miður.