131. löggjafarþing — 128. fundur,  9. maí 2005.

Meðferð opinberra mála og aðför.

309. mál
[18:52]

Frsm. allshn. (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti allsherjarnefndar um frumvarp til laga um breyting á lögum um meðferð opinberra mála.

Nefndin hefur fengið á sinn fund fjölmarga aðila til að fara yfir þá tvo meginþætti sem frumvarpið fjallar um, annars vegar breytingar á lögum um meðferð opinberra mála, þ.e. sektarinnheimtan, og hins vegar breytingar á lögum um aðför og þar er einkum verið að fjalla um breytingar sem koma við fjárnámsgerðir og með hvaða hætti hægt er að ljúka fjárnámsgerðum þegar ekki næst í gerðarþolann.

Ég hygg að ég láti við það sitja að vísa í þskj. 1338 um þær lýsingar í nefndarálitinu sem snúast um efnisatriði frumvarpsins, en ætla einkum að staldra við tvö atriði sem nánar er fjallað um í nefndarálitinu.

Í fyrsta lagi leggur allsherjarnefnd til að gerð verði breyting á 2. málsl. 4. gr. frumvarpsins. Þar segir að sæki ákærði eða verjandi hans eða talsmaður samkvæmt umboði þing teljist dómur þá birtur fyrir ákærða. Nefndin telur að með þessari heimild gæti verið gengið töluvert nærri réttaröryggi sakborninga, en birting dóms hefur þær lögfylgjur að marka upphaf fjögurra vikna áfrýjunarfrests. Þetta atriði var tekið til þó nokkurrar umræðu í nefndinni og umsagnaraðilar höfðu nokkuð sterkar skoðanir á því. Sú yfirferð nefndarinnar leiddi til þess að lögð er til breyting á þessu ákvæði á þann veg að ef dómur verður ekki birtur fyrir ákærða á dómþingi og honum gerð þar önnur viðurlög en sekt eða upptaka eigna sem svarar til hærri fjárhæðar en áfrýjunarfjárhæð í einkamálum ásamt greiðslu sakarkostnaðar skuli ákærandi láta birta dóm skv. 20. gr. laga um meðferð opinberra mála. Þetta léttir af þeirri byrði sem ella hefði hvílt á réttargæslumanni sakbornings í málum þar sem áfrýjun hefði komið til greina að þurfa að hafa uppi á dómþolanum til að tryggja að hann nýtti sér þann rétt sem hann hefur til að áfrýja málinu. Þetta atriði vildi ég nefna sérstaklega.

Lagðar eru til nokkrar fleiri breytingar sem er að finna á þskj. 1339 sem varða með einum eða öðrum hætti sektarinnheimtukafla frumvarpsins, m.a. er smávægileg orðalagsbreyting. Auk þess er viðmiðunarfjárhæð hækkuð úr 50 þús. kr. upp í 60 þús. kr. og er nánar fjallað um það í nefndarálitinu.

Hitt atriðið sem ég vildi staldra sérstaklega við í nefndarálitinu lýtur að II. kafla frumvarpsins sem fjallar um breytingu á lögum um aðför, nr. 90/1989. Hér er komið að þeim þætti málsins sem ég held að óhætt sé að segja að hafi tekið rýmri tíma í störfum nefndarinnar. Þarna takast á sjónarmið um hvað skuli gera vegna þess mikla vanda sem við stöndum frammi fyrir þegar fjárnámsbeiðnir staflast upp hjá sýslumannsembættunum án þess að hægt sé að ljúka gerðunum þar sem illa gengur að ná í fjárnáms- eða gerðarþolana. Í sjálfu sér mætti segja að til væri einföld lausn á því vandamáli sem væri sú að setja stóraukna fjármuni í að tryggja viðveru gerðarþola en fæstir eru á því að það sé skynsamleg lausn á vandanum. Menn greinir hins vegar á um hversu langt megi ganga í að ljúka þessum gerðum án þess að tekist hafi að ná tali af gerðarþolanum sjálfum og hann spurður beint og milliliðalaust um eignastöðu sína.

Það er skemmst frá því að segja að nefndin lagði töluvert á sig til að kanna ólík sjónarmið um það hvernig taka eigi á málinu. Vissulega leggur frumvarpið til eina leið en að sumra mati er hún háð þeim galla að árangurslaust fjárnám án viðveru gerðarþola, eins og tillögur frumvarpsins gera ráð fyrir, getur ekki orðið grundvöllur gjaldþrotaskipta.

Það sjónarmið kom fram í störfum nefndarinnar að það sé galli á þeirri tillögu sem frumvarpið leggur til um þetta atriði og mestur tími nefndarstarfsins fór í að skoða aðrar mögulegar leiðir til að koma til móts við þetta sjónarmið. Ég ætla ekki að fara miklu dýpra ofan í þær vangaveltur eða þau sjónarmið sem takast á um ólíkar leiðir og þær leiðir sem til greina koma í þessu tilliti. Þó er hægt að segja að verði sú leið farin að gera það mögulegt að klára fjárnám, ljúka fjárnámsgerð án þess að náðst hafi til gerðarþolans, er augljóslega mjög mikilvægt að gerðarþolinn hafi tryggar endurupptökuheimildir og að hann geti gert upp skuld sína á síðari stigum hafi hann getu og vilja til þess, til að mynda eftir að krafa um gjaldþrotaskipti er komin fram á grundvelli árangurslauss fjárnáms.

Til að ljúka þessari vinnu vildi nefndin kalla eftir upplýsingum til að skýra betur þá mynd sem við er að etja og þann vanda sem við glímum hér við. Það er skemmst frá því að segja að nefndinni tókst ekki að ljúka þeirri vinnu. Öll nauðsynleg gögn voru ekki komin fram þegar undir lok nefndarstarfsins var komið á þessu þingi. Eins og segir í nefndarálitinu er það til að hindra ekki framgang annarra atriða frumvarpsins sem snúa að hagræði við sektarinnheimtu, og ég hef áður komið hér aðeins inn á, sem nefndin afgreiðir málið frá sér en leggur til að II. kafli verði felldur brott úr frumvarpinu. Því er vísað til dómsmálaráðuneytisins að vinna málið frekar og leggja það að nýju fyrir þingið á komandi haustþingi.

Ég ítreka það sem segir í nefndarálitinu um II. kafla frumvarpsins að hér er á ferðinni afar brýnt úrlausnarefni sem mikilvægt er að komið verði í traustan farveg hið fyrsta.

Nefndin leggur til að frumvarp þetta verði samþykkt með þeim breytingum sem er að finna í breytingartillögum á þskj. 1339. Ágúst Ólafur Ágústsson, Bryndís Hlöðversdóttir og Guðrún Ögmundsdóttir skrifuðu þó undir með fyrirvara.