131. löggjafarþing — 128. fundur,  9. maí 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[23:35]

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér samgönguáætlun sem eðlilega hefur tekið nokkurn tíma og engin ástæða til annars en að fara yfir þau mál eins og þau blasa hér við. Þetta eru auðvitað gríðarlega mikil hagsmunamál sem við erum að fjalla um sem snerta mjög marga og hafa áhrif á gríðarlega marga.

Þegar við fjöllum um verkáætlun af því tagi sem hér er um að ræða að getur að líta mjög mörg ákaflega mikilvæg verkefni sem við þurfum að hrinda áfram. Ég held að þegar við skoðum þetta og reynum síðan að meta þá umræðu sem farið hefur fram á undanförnum dögum og vikum sé það deginum ljósara að í landinu eru uppi gífurlega miklar væntingar um vegaframkvæmdir og framkvæmdir í samgöngumálum víðs vegar um landið. Þess vegna er mér algjörlega ómögulegt að taka undir þau sjónarmið sem hafa m.a. komið fram í þessari umræðu og hafa mjög komið fram í almennri umræðu síðustu vikurnar að það sem hér sé um að ræða og við þurfum fyrst og fremst að deila um sé spurningin um tilfærslu á peningum frá landsbyggð til höfuðborgarsvæðis, eins og haldið var fram fyrr í dag.

Það er ekki svo. Það er einfaldlega þannig að þegar við skoðum vegaframkvæmdir hvar sem er á landsbyggðinni þá fullyrði ég að hvergi er of í lagt. Þetta eru framkvæmdir sem eru nauðsynlegar, framkvæmdir sem fólkið hefur kallað á og framkvæmdir sem gera það að verkum að byggðirnar munu styrkjast. Þess vegna er algjörlega um tómt mál að tala að ímynda sér að hægt sé að leysa eða greiða úr vanda sem sannarlega er til staðar á ýmsum sviðum á höfuðborgarsvæðinu varðandi samgöngumannvirki með því að færa til peninga af landsbyggðinni til höfuðborgarinnar. Það nær engri átt.

Þegar við skoðum þessi mál í sanngjörnu samhengi og reynum að átta okkur aðeins á hvernig þessar fjárveitingar hafa verið að þróast á undanförnum árum þá er það svo, ef við skoðum þetta t.d. í 15 ára samhengi, að það varð sannarleg aukning almennt á framlögum til vegamála á höfuðborgarsvæðið og síðan hefur þetta í langstærstum dráttum þróast með heildarframlögum til vegamála. Þegar við höfum því náð því fram að framkvæmdir eða fjárveitingar til vegamála hafi aukist almennt í landinu þá hefur höfuðborgarsvæðið fengið sinn skerf og vissulega er full þörf á því.

Við gerum okkur grein fyrir því að það eru allt aðrar þarfir í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni. Á höfuðborgarsvæðinu eru menn að leysa úr miklum vanda sem stafar af vaxandi umferð, á landsbyggðinni erum við að leysa úr vanda sem stafar einfaldlega af því að við erum með algjörlega ófullnægjandi vegakerfi, vegi sem eru 50, 60 ára gamlir og standast auðvitað ekki þær kröfur sem við gerum, nútímafólk, til samgöngumannvirkja í landinu. Menn þurfa ekki annað en fara t.d. um Vestfirði til að sjá hversu gífurlega mikið vantar upp á að þar sé hægt að taka í notkun vegina og hafa þá eins og hjá fólki. Þess vegna getum við auðvitað ekki undir neinum kringumstæðum fallist á að dregið sé úr hlutfalli landsbyggðarinnar til að færa til höfuðborgarsvæðisins.

Ef menn vilja reyna að leggja áherslu á frekari framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu verður það bara gert með einum hætti og það er að auka almennt útgjöld til samgöngu- og vegamála og þá þarf að takast um það pólitísk samstaða. Við höfum hins vegar komist að því samkomulagi við fjárlagagerð, bæði fyrir þetta ár og það síðasta og áform eru um næsta ár að draga úr framkvæmdum á þessu sviði. Það getur vel verið að við höfum ýmsar skoðanir á þessu. Þetta varð hins vegar niðurstaðan, m.a. vegna þess að við kusum að fara fremur þá leið í aðhaldsskyni í ríkisfjármálum að draga úr fjárfestingum heldur en að draga úr þjónustu hjá hinu opinbera af því að við sáum og töldum að þar kallaði þörfin svo víða, bæði á velferðarsviðinu og ýmsum öðrum sviðum. Við treystum okkur einfaldlega ekki til að draga úr hvorki tilfærslum né öðrum slíkum útgjöldum sem velferðarkerfið, menntakerfið og aðrar rekstrarþarfir hins opinbera kölluðu eftir.

Niðurstaðan varð því sú, hvort sem okkur líkar það betur eða verr, að við kusum að skera niður framkvæmdir sem þessu nemur. Við stöndum þess vegna frammi fyrir því að við höfum til skiptanna tiltekna upphæð og niðurstaðan er sú milli stjórnarflokkanna að skipta þessu eins og getur að líta í tillögu til samgönguáætlunar sem við ræðum hér í kvöld. Það er bara þannig, ef við skoðum þetta í einhverju sanngjörnu samhengi, að það blasir við að landsbyggðin hefur ekki þá fjármuni aflögu að hún geti látið þá af hendi til annarra framkvæmda. Þörfin kallar hvarvetna á.

Við skulum bara taka dæmið sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson talaði um áðan, sem er alveg hárrétt hjá honum, um hinn svokallaða Vestfjarðaveg. Við höfum í þrengingum okkar neyðst til að draga úr fjárveitingum til þess vegar sem nemur hundruðum milljóna króna. Það er alveg ljóst mál að með sama áframhaldi verða ár og dagar í að almennilegar samgöngur verði milli Vestur-Barðastrandarsýslu og inn á aðalþjóðvegakerfi landsins. Það er auðvitað ekki staða sem við getum unað. Þess vegna er algjörlega um tómt mál að tala að við getum horft upp á það að draga úr því hlutfalli sem fer til landsbyggðarinnar til vegamála. Það gengur einfaldlega ekki. Menn verða að sýna því skilning.

Mér hefur fundist umræðan á undanförnum vikum um þessa vegaskiptingu, þessa fjármunaskiptingu vera ákaflega ósanngjörn og menn vilja greinilega ekki setja sig í spor þess fólks sem býr á landsbyggðinni við algjörlega óviðunandi vegasamgöngur. Þess vegna vil ég tala mjög skýrt í þessum efnum. Hvað mig áhrærir kemur það ekki til álita að lækka þetta hlutfall sem neinu nemi vegna þess einfaldlega að þörfin kallar svo víða á.

Eins og ég sagði áðan er auðvitað mjög margt í þeim tillögum sem við erum að ræða um sem verður mjög til bóta. Og þó að okkur sýnist að hægt gangi vitum við að orðið hefur gífurleg breyting á fáeinum árum í vegamálum á landsbyggðinni. Ég vil í þessu sambandi t.d. vekja athygli á því, sem er auðvitað ákaflega jákvætt, að á því samgönguáætlunartímabili sem við ræðum hér mun okkur í meginatriðum takast að ljúka tengingu Ísafjarðardjúps og ljúka uppbyggingu vegar um Ísafjarðardjúp.

Ég vil líka halda því til haga sem hefur komið fram af minni hálfu að ég taldi sjálfur að það væri ekki skynsamleg framkvæmdaröðun sem hér hefur orðið niðurstaða um. Það varð hins vegar niðurstaða í þingmannahópi Norðvesturkjördæmis að fara þá leið sem hér er gert ráð fyrir og ég virði auðvitað þá niðurstöðu þó að ég hafi haldið fram öðrum áherslum. Ég taldi með öðrum orðum skynsamlegra að fara í aðrar leiðir fyrst, þ.e. hina umtöluðu tengingu um Arnkötludal milli Strandasýslu og Austur-Barðastrandarsýslu, og að það hefði skilað okkur meira áleiðis. Við hefðum fengið 40 km styttingu, við hefðum verið að taka í notkun veg með 10–15% arðsemi, við hefðum dregið úr slysahættu með því að stór hluti umferðarinnar færi fyrr út af þjóðvegi 1, sem er mikil þörf á, og við værum með öðrum orðum að gera ráðstafanir sem skiluðu okkur meiru fyrir minni pening en með þeim áherslum sem niðurstaðan varð um. Það var hins vegar ekki það sem menn kusu að gera, menn kusu að fara aðrar leiðir og þannig er það. Þá verðum við að horfa til þess sem er jákvætt í þessum efnum því að auðvitað var mikil og er mikil þörf á því að ljúka veginum um Ísafjarðardjúp og það er það sem við sjáum gerast í mjög fyrirsjáanlegri framtíð.

Það er líka ákaflega þýðingarmikið í þessu sambandi að átta sig á því að með þessari þingsályktunartillögu sem við ræðum hér erum við að taka ákvörðun um að vegtengingin frá norðanverðum Vestfjörðum og frá Strandasýslu inn á aðalþjóðvegakerfið muni liggja um þetta svæði, um Arnkötludal og Gautsdal, veginn milli Strandasýslu og Króksfjarðarness eða Austur-Barðastrandarsýslu.

Þetta er auðvitað heilmikil ákvörðun. Þetta eru heilmikil tíðindi í vegpólitískri sögu þessa svæðis og þetta er afraksturinn af heilmikilli umræðu sem átt hefur sér stað heima fyrir. Við skulum ekki gera lítið úr þessu, þetta er mikil ákvörðun og með 100 millj. kr. fjárveitingu á árinu 2008 á að vera hægt að hefja útboð og hefja framkvæmdir á því ári. Þetta er heilmikill áfangi sem við horfumst nú í augu við.

Varðandi Vestfjarðaveg, þ.e. veginn um Austur-Barðastrandarsýslu í meginatriðum, þá höfum við, eins og ég nefndi áðan, í vandræðum okkar verið að skera niður fjárveitingar til þess svæðis, líka af því að við erum í miklum vanda núna með þær framkvæmdir vegna þess að umhverfismat liggur ekki fyrir. Við erum langt á eftir þar og ekki er útséð um hvernig þeim málum öllum lyktar.

Engu að síður er það svo, sem var upplýst í þingmannahópi Norðvesturkjördæmis, að það er mat Vegagerðarinnar að hægt eigi að vera að bjóða út Vestfjarðaveg á árinu 2006 með þeim fjárveitingum sem áætlaðar eru á því ári og með fjárveitingum áranna 2007 og 2008. Þar með mun hægt að hefja framkvæmdir á árinu 2006 við þessa nauðsynlegu framkvæmd.

Þetta er kannski til marks um þann vanda sem menn standa frammi fyrir. Hér er talað um að svo og svo miklir peningar hafi farið til Norðvesturkjördæmis, það borið saman við höfuðborgarsvæðið og ég veit ekki hvað og hvað. En átta menn sig á því að á þessu svæði, Vestfjörðum, þar sem þörfin er himinhrópandi hvarvetna í vegamálum erum við samt sem áður ekki betur stödd — þrátt fyrir að menn tali um að við höfum ofgnótt fjár til vegagerðar í Norðvesturkjördæmi — en svo að við höfum ekki með peninga til þess að hefja útboð á Vestfjarðavegi. Þar sem þörfin er einna mest höfum við ekki peninga til þess að hefja framkvæmdir eða útboð á þessu ári? Það er fyrst á næsta ári sem við eygjum það.

Í annan stað fara mjög litlar fjárveitingar í Ísafjarðardjúpið, sem geri það að verkum að við komumst ekki neitt að ráði áfram í vegagerð þar. Við munum að vísu hefja væntanlegar framkvæmdir út með Ísafirðinum að norðanverðu en engu að síður munum við komast ákaflega stutt. Þetta er veruleikinn sem blasir við okkur. Þess vegna er ekki að undra að við, sem erum í forsvari fyrir þetta kjördæmi, kjörnir fulltrúar hér á þinginu, getum ekki látið yfir okkur ganga þær hugmyndir sem fram hafa verið settar, m.a. settar í plaggi frá félaga Gunnari Birgissyni hv. þingmanni, um það að draga úr framkvæmdum og framkvæmdagetu í Norðvesturkjördæmi svo nemur mörg hundruð milljónum króna. Það er auðvitað ekki viðunandi.

Þegar maður skoðar þær tillögur sem blasa við í tillögum hv. þingmanns, a.m.k. það sem snýr að Norðvesturkjördæmi, þá eru þær ákaflega einfaldar, þ.e. bara um að skera niður. (Gripið fram í.) Það á við um Vestfjarðaveginn, Ísafjarðardjúpið, vegna uppgjörs við Kolgrafarfjörð, Norðurárdal og hið sama má segja um hringveginn í Borgarfirði, (Gripið fram í.) bara alls staðar. Það er bara niðurskurður og aftur niðurskurður í Norðvesturkjördæmi. Það er vegna þess að menn telja greinilega að þar standi menn svo vel að vígi í vegamálum, að þar sé búið að malbika upp á jökul. Ég veit nú ekki hvar þeir vegir liggja en þetta er þannig. Ég skil hv. þingmann út af fyrir sig að því leyti að hann er baráttumaður fyrir sínu svæði en þarna virðist mér a.m.k. ekki seilst í hina digru sjóði, þ.e. vegasjóðina á Vestfjörðum. Það er óskaplega rýrt í roðinu sem við búum við þar.

Í þessu sambandi langar mig að koma inn á fáein atriði sem hafa orðið að umræðuefni. Það hefur t.d. verið rætt, kemur m.a. fram í þessum tillögum, um hugmyndir um að skera niður í vegamálum um Útnesveg, sem er vegurinn fyrir Jökul á Snæfellsnesi. Sú framkvæmd er gífurlega nauðsynleg, ekki bara sem framkvæmd til þess að tryggja ferðamannastraum, sem er vaxandi á þessu svæði, heldur er þar um að ræða innanhéraðsveg, veg sem tengir Snæfellsbæ innbyrðis. Það sjá allir að við eigum þar heilmikið eftir. Sem betur fer eru uppi áform um að fara í vegaframkvæmdir um Klifhraunið og þá blasir við að það er ekki hægt að láta þar staðar numið heldur verður að halda áfram með þá vegagerð fyrir jökulinn, um þennan Útnesveg sem gert er ráð fyrir að fái nokkrar upphæðir á vegáætlunartímabilinu, guði sé lof. Þess vegna er náttúrlega fráleitt að leggja til, eins og gert er í þessari breytingartillögu, að skera þær framkvæmdir niður um heil 40%, sem mundi rústa þeirri vegaframkvæmd og þeim áformum sem þar eru uppi.

Hér hefur aðeins verið spurt um Þingeyrarflugvöll og þau áform í samgönguáætluninni um að byggja upp þann flugvöll. Gerðar voru miklar kröfur, af mínum góða vini, hv. þm. Gunnari I. Birgissyni, sem er því miður ekki hérna sem stendur en vonandi heyrir hann í mér. Hann taldi að við sem værum talsmenn þessa flugvallar þyrftum að færa sönnur á að sá flugvöllur væri spurning um líf og dauða. Það er þá skilgreiningin á því hvort maður eigi að fylgja framkvæmd, hvort um líf og dauða sé að tefla. Það væri gaman að vita það hvort allar þessar brýr á þurru landi á höfuðborgarsvæðinu séu út af spurningum um líf og dauða. Ég ætla að leyfa mér að efast um það. Hins vegar er sjálfsagt að ræða þessa framkvæmd við Þingeyrarflugvöll. Auðvitað er eðlilegt að spurt sé þegar farið er út í framkvæmd af þeirri stærðargráðu við flugvöllinn.

Þingeyrarflugvöllur er í raun hluti af þeirri flugvallarstarfsemi sem fer fram í Ísafjarðarbæ. Þingeyrarflugvöllur og Ísafjarðarflugvöllur eru að því leyti órofa heild. Forsendan fyrir góðum flugsamgöngum inn á Ísafjarðarsvæðið er að Þingeyrarflugvöllurinn sé í stakk búinn til þess að mæta þeirri flugumferð sem við byggjum allar okkar flugsamgöngur á, þ.e. Fokker-flugvélum Flugfélags Íslands. Þær þurfa auðvitað að geta flogið fulllestaðar, hvort sem er um að ræða á flugbrautina á Þingeyri eða við Ísafjörð.

Menn hafa talað um að umferðin sé ekki svo mikil um Þingeyrarflugvöll og það er út af fyrir sig rétt við þessar aðstæður. En það er að ýmsu öðru að hyggja og m.a. verða menn að átta sig á því að Þingeyrarflugvöllur gerir það að verkum að í mörgum tilvikum, þegar tvísýnt er um flugsamgöngur til Ísafjarðar, hafa menn getað lagt af stað með flugvélar frá Reykjavík til Ísafjarðar í trausti að ef ekki væri hægt að fljúga inn til Ísafjarðar þá væri alltént hægt að fljúga inn til Þingeyrar. Það er þetta sem gerir að verkum að lendingarnar segja ekki alla söguna. Í ýmsum tilvikum leggja menn af stað, þó talið sé að ófært sé til Ísafjarðar, í trausti þess að menn geti lent á Þingeyri. Síðan breytast veðuraðstæður og menn fljúga til Ísafjarðar. Í raun er um að ræða öryggisbraut, hreina viðbót við möguleikann á flugi til Ísafjarðar.

Athyglisvert er að þegar við skoðum tölur um flug á Ísafjarðarflugvöll, til Ísafjarðar frá Reykjavíkurflugvelli, þá hefur traffíkin aukist þar ár frá ári á sama tíma og við vitum að vegaframkvæmdir hafa leitt af sér að meiri traffík er um vegina sömuleiðis, vestur og suður frá Vestfjörðum. Því er ákaflega mikilvægt að gera sér grein fyrir því að með þessari framkvæmd, sem er nánast eina flugvallarframkvæmdin á undaförnum árum sem heitið getur og tekur máli á þessu svæði, þá er verið að ljúka uppbyggingu í meginatriðum á þessu flugvallakerfi á Ísafjarðarsvæðinu þannig að hægt eigi að vera að fljúga þangað af meira öryggi en verið hefur. Það má vel vera að það sé ekki hægt að færa sönnur á að varðandi þennan flugvöll sé bókstaflega um líf og dauða að tefla. Þó er það þannig að við vitum að á Ísafjarðarflugvelli er oft á tíðum spurning um líf og dauða vegna þess að hann er líka sjúkraflugvöllur fyrir þetta svæði. Við vitum að þetta eykur flugöryggið og ætli það leiði ekki nokkrar líkur, varðandi spurningu hv. þm. Gunnars I. Birgissonar, að því að í raun og veru sé um líf og dauða að tefla, að við getum byggt upp þennan flugvöll.

Rétt í lokin langar mig að víkja að einn einum veginum sem orðið hefur fyrir niðurskurðarhnífnum í breytingartillögu hv. þingmanns. Það er Þverárfjallsvegurinn milli Sauðárkróks og Húnavatnssýslna. Sá vegur hefur í allmörg ár verið í uppbyggingu. Því miður, vegna innbyrðis deilna í héraði, hafa framkvæmdir dregist en nú sér fyrir endann á þeim. Þess vegna er mikilvægt, þegar þeim framkvæmdum lýkur, að við getum haldið áfram að byggja upp þetta svæði. Við erum að reyna að styrkja þetta byggðasvæði með því að byggja upp þennan veg og gera að verkum að byggðasvæðið í Austur-Húnavatnssýslu og Skagafirði verði eitt og sameinað og geti tekist á við stærri verkefni, svo sem eins og við uppbyggingu stóriðju, sem er nauðsynleg á þessu svæði. Þessi vegur er ein forsendan fyrir því að svæðið, sem hefur orðið undir í atvinnulegu tilliti á margan hátt, geti náð vopnum sínum og menn geti farið í að sækja á um framkvæmdir og sækja á í atvinnuuppbyggingu sem mikil þörf er fyrir á því svæði.

Virðulegi forseti. Það væri hægt að fara mjög mörgum orðum um þetta mál. Ég held að í þessu tilliti beri okkur að reyna að sýna gagnkvæma sanngirni. Við vitum að uppi eru andstæð sjónarmið dreifbýlis og þéttbýlis. Ég hef ekki dregið af mér í því að reyna að verja hlut dreifbýlisins í þessum efnum. Þingmönnum á landsbyggðinni er hins vegar oft legið á hálsi af kjósendum sínum og umbjóðendum fyrir að vera ekki nægilega harðdrægir í að draga meira fjármagn inn í vegaframkvæmdir á landsbyggðinni þótt það væri á kostnað höfuðborgarsvæðisins.

Ég tel að með þessari þingsályktunartillögu hafi verið reynt að fara sanngjarnan veg í þeim efnum við þær aðstæður sem við búum við, það fjármagn sem við höfum, að leggja áherslu á nauðsynlegar framkvæmdir á landsbyggðinni, framkvæmdir sem heimamenn hafa kallað eftir, og enn fremur að fara í framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu, sem sannarlega eru nauðsynlegar og ég ætla ekki að gera lítið úr. En þarfirnar fyrir vegaframkvæmdir eru annars eðlis á þessu svæði en á landsbyggðinni og við eigum að viðurkenna það. Það er ekki neitt svigrúm á tilfærslu á peningum frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins við þessar aðstæður. Þörfin er svo mikil svo víða að við komumst ekki hjá því að nýta það fjármagn sem við höfum til bráðnauðsynlegra framkvæmda.

Ég hygg nú að þegar upp verður staðið og menn fara að skoða þessar tillögur og átta sig á því hvað þær þýða í raun þá muni mörgum bregða í brún að sjá hve seint okkur miðar þrátt fyrir allt og þrátt fyrir að talað sé digurbarkalega um að kjördæmi á borð við Norðvesturkjördæmið hafi allt til alls og sé blúndulagt með þessari vegáætlun.

Ég viðurkenni og þakka sannarlega fyrir að hæstv. samgönguráðherra hefur haft forustu um að tryggja fjárveitingar inn í Norðvesturkjördæmið en ég fullyrði hins vegar, og tala af mikilli reynslu sem þingmaður þessa svæðis, að þar er hvergi of í lagt. Þar vantar fremur fé en að þar sé ofgnótt af því. Þess vegna eiga menn ekki að reisa kröfur eða búa til tillögur sem fela í sér að draga úr fjárveitingum inn á svæði í vegamálum þar sem þörfin er himinhrópandi og kallar hvarvetna eftir auknu fjármagni til nauðsynlegra framkvæmda.