131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Fjárframlög til stjórnmálastarfsemi.

57. mál
[14:31]

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Þetta hefur verið gagnleg umræða en ég verð hins vegar að gera þá játningu sem fyrrverandi kennari í reikningshaldi og bókhaldi að ég hef aldrei gert mér grein fyrir þessu hugtaki, opið bókhald, og veit ekki hvað það er. Ég geri mér hins vegar grein fyrir því að það þurfa að gilda reglur, það þurfa að gilda eftirlitsreglur og það er allt annað en opið bókhald. Ég held að eitthvað sem heitir opið bókhald sé ekki til. Hins vegar þurfa að gilda reglur um eftirlit, hvort það er löggiltur endurskoðandi sem skrifar upp á reikninga og annað því um líkt eða öðruvísi. Ég tel að sú nefnd sem verður skipuð mjög fljótlega, þ.e. strax og tilnefningar hafa borist frá öllum flokkum, muni hefja störf um leið og tilnefningar hafa borist frá Samfylkingunni og Frjálslynda flokknum — tilnefningar hafa borist frá öðrum flokkum.

Mér finnst með ólíkindum að halda því fram að síðasta nefnd sem hafi fjallað um þetta mál hafi skrifað undir vegna hótana. (Gripið fram í.) Hvers konar eiginlega aðdróttanir eru þetta í garð nefndarmanna? Það er merkilegt að þetta skuli koma frá Samfylkingunni. (JóhS: Þetta kom úr Ríkisútvarpinu.) Úr Ríkisútvarpinu? Ég skil varla í að Ríkisútvarpið hafi fundið upp á þessu, hv. þingmaður. Væntanlega er þetta (Gripið fram í.) haft eftir einhverjum og ég vil benda hv. þingmanni á að síðustu upplýsingar sem komu á vef Samfylkingarinnar um reikninga hennar eru frá árunum 2000 og 2001.

Því er haldið fram að Framsóknarflokkurinn hafi eytt miklu meira fjármagni í síðustu kosningabaráttu. Samfylkingin hefur upplýst að kosningabaráttan kostaði 81 milljón, Framsóknarflokkurinn hefur upplýst að kosningabaráttan kostaði 68 milljónir — og hvað á það að þýða, hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, að vera alltaf að ala á þessari tortryggni og vera með stöðugar dylgjur í þessu máli? (Gripið fram í.) Það eina sem þingmaðurinn er að gera, því miður, er að grafa undan trausti á stjórnmálum almennt. Það er ljótur leikur. Við skulum koma saman í þessari nefnd og starfa þar heiðarlega. Ég tek eftir því að hér á Alþingi er hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir alltaf talsmaður Samfylkingarinnar í þessum málum. Ég vænti þess þá að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir komi í þessa nefnd sem ég efast þó um. Nær væri að formaður flokksins tæki þátt í þessari umræðu því að ég reikna með því að formaður Samfylkingarinnar viti meira um þá erfiðleika sem felast í því að halda úti lýðræðislegu stjórnmálastarfi og standa undir væntingum landsmanna í þeim málum en hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir sem elur hér stöðugt á dylgjum í (Forseti hringir.) þessu máli.