131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Fjarskipti.

738. mál
[15:59]

Frsm. meiri hluta samgn. (Hjálmar Árnason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr: Hvað kallar á það sem hann kallar gróflegt brot á friðhelgi einkalífsins? Í fyrsta lagi er ég ósammála þeirri fullyrðingu að þetta sé gróft brot á friðhelgi einkalífsins. Ég er algjörlega ósammála hv. þingmanni. Ef hv. þingmaður hefur ekki gert sér grein fyrir því hver einn aðalsamfélagsvandi okkar er í dag skal ég upplýsa hann um að það er sala fíkniefna, fórnarlömb harðsvíraðra fíkniefnasala sem fyrst og fremst nota nútímafjarskipti til að dreifa vöru sinni.

Í öðru lagi, ef það hefur farið fram hjá hv. þingmanni, á það sér stað hér, því miður, að óprúttnir einstaklingar stunda svokallað barnaklám og brjótast inn á tölvur, eru þar með í rauninni að brjóta friðhelgi einkalífsins. Það er það sem kallar á þau viðbrögð sem lögreglan óskar eftir til að geta brugðist við þessum þrjótum, fíkniefnasölum, þeim sem stunda barnaklámið og þeim sem fara ólöglega inn í tölvur einstaklinga og eru að því leytinu til að brjóta friðhelgi einkalífsins. Það er þess vegna, til að lögreglan geti fengið eitthvert það vopn, fingrafar, geti fengið að vita hvaða númer var að hringja, úr hvaða tölvu var verið að brjótast inn í t.d. tölvu hv. þingmanns. Það er einungis það sem verið er að kalla eftir og ég hygg að hv. þingmaður hafi ekki kynnt sér frumvarpið nægilega vel eða breytingartillögurnar því að við erum ekki að tala um hlerun. Við erum einungis að tala um það að ná númerunum og IP-tölunum. Ef til hlerunar kemur skal dómsúrskurður fyrst upp kveðinn. Hins vegar getur þetta fingrafar verið frekari rökstuðningur fyrir dómstólum um að fá að hlera meintan brotamann.