131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Stefna í fjarskiptamálum 2005--2010.

746. mál
[17:28]

Frsm. samgn. (Hjálmar Árnason) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um stefnu í fjarskiptamálum fyrir árin 2005–2010. Um málið fjallaði hv. samgöngunefnd nokkuð ítarlega og fékk til sín ýmsa góða gesti í tengslum við frumvarp um breytingar á lögum um fjarskipti sem hefur nú hlotið nokkra umræðu í dag og er rétt að minna á það enn einu sinni að meginkjarni þess frumvarps snýst einmitt um að setja stoð í lög um að setja skuli á fót fjarskiptaráð og fjarskiptaáætlun. Það er einmitt á grundvelli þess sem þessi þingsályktunartillaga er flutt.

Skemmst er frá því að segja, virðulegur forseti, að þessi tillaga er mjög vandlega unnin. Að henni koma fjölmargir aðilar einkum þeir sem eru á fjarskiptamarkaði og fjarskipti tengjast mikið, eru svokallaðir hagsmunaaðilar úr hinum ýmsu ráðuneytum og ýmsum stjórnmálaflokkum. Sú nefnd sem undirbjó þessa þingsályktunartillögu virðist hafa komist að sameiginlegri niðurstöðu. Enda eru í henni sett fram afskaplega metnaðarfull markmið um með hvaða hætti eigi að byggja upp fjarskipti á Íslandi þannig að Ísland verði í fremstu röð fjarskipta.

Hafandi sagt þetta þarf ekki að koma á óvart, virðulegur forseti, að mikil fagnaðarbylgja fór um hv. samgöngunefnd og leiddi til þess að nefndin afgreiddi málið út mjög samstiga. Undir nefndarálitið þar sem mælt er með því að tillagan verði samþykkt óbreytt rita auk þess sem hér stendur, hv. þingmenn Arnbjörg Sveinsdóttir, Björgvin G. Sigurðsson, Bryndís Hlöðversdóttir, Guðjón Hjörleifsson, Guðjón A. Kristjánsson, Einar K. Guðfinnsson, Kristján L. Möller, Magnús Stefánsson auk þess sem hv. þm. Jón Bjarnason sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og lét mikið til sín taka að vanda og er hann samþykkur áliti þessu. Er rétt að vekja athygli á því að hin virðulega samgöngunefnd er mjög einhuga og afskaplega ánægð með þessi metnaðarfullu markmið og þar af leiðandi að sjálfsögðu leggur hún til að þingsályktunartillagan verði samþykkt óbreytt.