131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Umgengni um nytjastofna sjávar.

732. mál
[18:07]

Frsm. meiri hluta sjútvn. (Guðjón Hjörleifsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sagðist hafa talað við skipstjóra sem tók þátt í þessu verkefni og nýtti þessar skiljur þannig að árangurinn væri mjög góður.

Ég talaði um stjórnvaldsaðgerðir, handaflsaðgerðir þegar verið væri að flytja kvóta frá þeim sem voru í aflamarkskerfinu yfir á smábáta. Sú er ástæðan fyrir því að bæjarstjórn Vestmannaeyja mótmælti á sínum tíma.

Ég er mjög kvótasinnaður maður. Varðandi kolmunnann taldi ég þá aðferðafræði betri að í staðinn fyrir að taka þrjú viðmiðunarár vildi ég taka síðasta árið og hafa hærri hlutföll, þá voru fleiri bátar komnir í þetta. Við fengum mjög stór skip sem höfðu verið í smíðum og misstu af því að veiða þennan tilraunakvóta.