131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Mat á umhverfisáhrifum og skipulags- og byggingarlög.

235. mál
[20:35]

Frsm. meiri hluta umhvn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu. Við höfum vonandi tækifæri til að taka þessi mál seinna. Eðli málsins samkvæmt eru menn ekki sammála um alla hluti og það væri gaman að ræða þetta. En eins og menn þekkja hefur verið tekin ákvörðun um að gera slíkt ekki.

Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir spurði út í túlkun og það kemur líka fram í nefndaráliti hennar. Þar segir, með leyfi forseta:

„... vill minni hlutinn taka fram að við umfjöllun í nefndinni var staðfestur sá skilningur að með þessari breytingu væri ekki verið að taka það hlutverk frá Skipulagsstofnun að hún fjalli um umsagnir og athugasemdir áður en þær eru sendar framkvæmdaraðila.“

Bara að því sé til haga haldið þá var skilningur þess sem hér stendur öðruvísi. Skilningur hans var sá að það væri Skipulagsstofnunar að halda um þetta til að sjá til þess að eftir þessu væri farið eða brugðist við því en þyrfti ekki að fara nauðsynlega yfir það á milli þess að þetta færi til framkvæmdaraðila. Síðan væri í sjálfu sér hægt að ræða hér ýmislegt en af ástæðum sem hér hafa verið tilgreindar verður það ekki gert núna.