132. löggjafarþing — 2. fundur,  4. okt. 2005.

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[21:55]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Gott kvöld, góðir landsmenn. Við þingmenn erum nú fyrir augliti ykkar í Alþingishúsinu við Austurvöll í Reykjavík. Við störfum hér í ykkar umboði. Þið fylgist með og leggið dóma á störf okkar en það gera fleiri. Á laugardag fór fram þingsetningarathöfn. Húsið var þéttsetið af fólki, m.a. erlendum sendiherrum. Ég komst ekki hjá því þá að leiða hugann að því að þetta ágæta fólk, gestir í landi okkar, hefur m.a. það verkefni með höndum að senda heim minnisblöð og skýrslur um atburði líðandi stundar hjá okkur Íslendingum, þ.e. sendiherrarnir greina frá þeim tíðindum sem þeim þykja markverð í lífi þessarar þjóðar við ysta haf og þeir leggja mat og jafnvel dóm á gang mála. Það skapar orðspor Íslands erlendis. Orðtak segir að glöggt sé gestsaugað.

Hvernig skyldi þetta fólk líta á ástandið á Íslandi? Hvernig metur það stöðuna í skýrslum sem fara á milli landa sem diplómatapóstur og eru einungis ætlaðar augum háttsettra embættismanna, stjórnmálamanna og þjóðhöfðingja í heimalöndum sendiherranna? Gætu sendiherrarnir tekið undir hið skefjalausa sjálfshól sem ráðherrar og aðrir ríkisstjórnarliðar hafa flutt um eigin verk í kvöld? Gleypa þeir við blekkingunum og áróðrinum? Þeir hljóta að gera sér grein fyrir að velmegun þjóðarinnar er að stærstum hluta keyrð áfram á skuldasöfnun og gríðarlegum viðskiptahalla. Þeir skynja að hin svokallaða útrás íslenskra fyrirtækja er byggð á lánsfé sem enginn veit hvaðan er komið.

Þeir hljóta að sjá að launamunur í þjóðfélaginu er alltaf að aukast, að hér lifir nýrík og fámenn yfirstétt fólks á ofurlaunum sem aðeins borgar örfáar prósentur af tekjum sínum í skatta á meðan til að mynda fátækar barnafjölskyldur búa við geysihátt húsnæðisverð. Ellilífeyrisþegar og öryrkjar lifa við bága afkomu og allir þessir þjóðfélagshópar og reyndar allir hinir sem ekki fá aðgang að peningasukkinu eru mergsognir af skattheimtu yfirvalda.

Það væri athyglisvert að sjá hvernig gestir okkar lýsa til að mynda ráðstöfun á Búnaðarbankanum og öðrum vandræðagangi ríkisstjórnarinnar með hæstv. forsætisráðherra, Halldór Ásgrímsson, í fararbroddi. Hvernig horfir Baugsmálafarsinn við þeim? Hvað með eftirlaunamálið og brotthvarf Davíðs Oddssonar úr stjórnmálum og skipan hans á sjálfum sér í embætti seðlabankastjóra? Hvaða tiltrú skyldu þeir hafa á nýjum fjármálaráðherra í ljósi þess að hann sló sjálfur taktinn í fjármálasukki þjóðarinnar nokkrum dögum áður en hann tók við hinu nýja embætti með því að selja aðgang að Sparisjóði Hafnarfjarðar fyrir 50 millj. kr.?

Góðir landsmenn. Ég held að þeir hljóti að hlæja dátt að þessari litlu þjóð, ráðamennirnir í London, Kaupmannahöfn, Ósló og víðar þegar þeir lesa skýrslur sendiherranna. Fyrir utanaðkomandi hlýtur þetta að líta út eins og vel skrifað spaugstofuhandrit þó mér finnist þetta reyndar ekkert fyndið.

Góðir Íslendingar. Við í Frjálslynda flokknum störfum í stjórnmálum vegna þess að við viljum breyta þessu. Vinna þarf bug á spillingunni, það þarf að siðbæta íslensk stjórnmál. Allir utanaðkomandi hljóta að sjá að það er lengi mikið búið að vera að í þjóðfélaginu.

Það haustar snemma í ár og fram undan er langur vetur en við vitum að aftur mun vora, að hver dagur sem líður þýðir einum degi færra í lífi þessarar ríkisstjórnar og óðum styttist nú ævi hennar.

Ég vil að lokum fyrir hönd Frjálslynda flokksins óska ykkur öllum góðs og gæfuríks vetrar. — Í guðs friði.