132. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[15:05]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst þetta mál afskaplega einfalt. Eign ríkisins var seld fyrir tæpa 70 milljarða kr. Það eru ekki reglulegar tekjur og eðlilegt að Alþingi taki sérstaka ákvörðun um ráðstöfun söluverðsins og það er lagt til með þessu frumvarpi. Auðvitað er það skuldbindandi fyrir framtíðina og auðvitað verður fólk að geta treyst því að við það verði staðið. Það er skuldbindandi fyrir þá flokka sem að málinu standa en ég trúi ekki öðru en að allir flokkar á Alþingi muni standa að því. Ég hef enga trú á öðru.

Að því er varðar fjarskiptasjóð þá verður frumvarp lagt fram um hann næstu daga. Þar kemur skýrt fram hvernig því skal háttað. Ég vil líka taka fram að það lá fyrir, í umræðum um söluna síðasta vor, að gera mætti ráð fyrir að lagt yrði fram frumvarp til laga (Forseti hringir.) um hvernig þeim fjármunum yrði ráðstafað.