132. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[15:19]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vel má vera að ég hafi ekki talað nægilega skýrt þegar ég flutti mál mitt. Ég sagði um Nýsköpunarsjóðinn og á sama hátt um væntanlegan fjarskiptasjóð að það yrði að vera alveg klárt að þeir sjóðir hefðu sér ákveðnar stofnsamþykktir sem þeir ynnu eftir um hvernig fjármunum yrði ráðstafað, hvert væri markmið þeirra o.s.frv. en ekki í hvaða verkefni. Það er síðan síðari tíma mál.

Þannig má vel vera að á einhvern hátt megi misskilja það sem ég sagði áðan og ég geri ekkert lítið úr því. En ekki er hægt að leggja það að jöfnu að það liggi nákvæmlega fyrir hvernig þessir sjóðir komi til með að vinna, hvort þeir hafi stjórn, í hvaða verkefni þeir ætli að ráðstafa fjármunum, þeir hafi ákveðnar stofnsamþykktir o.s.frv., eða þá að menn ráðstafi og segi nákvæmlega til um hvar og hvenær menn ætli næstu sjö árin að eyða peningum í tilteknar stofnframkvæmdir.