132. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[15:21]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þær hugmyndir sem hér liggja fyrir eru á engan hátt lagðar fram til þess að skapa sátt. Hér er ekki um að ræða hugmyndir sem samið var um eða sjónarmiðum sem kallað var eftir úr samfélaginu. Hér er um að ræða hugmyndir sem forustumenn stjórnarflokkanna tveggja komu sér saman um en ekki að hér sé gerð tilraun til að skapa einhverja sérstaka sátt, það er langur vegur frá því.

Aðeins til að upplýsa hv. þingmann þá er hér um ræða einhvers konar samlagssjóð sem Nýsköpunarsjóður ætlar að leggja í 1,5 milljarða sem algjörlega vantar reglur um hvernig eigi að vinna, enda á eftir að semja um það hugsanlega við lífeyrissjóði, banka og fleiri, og einnig þennan fjarskiptasjóð, sem verður að vera nákvæmlega niðurneglt hvernig á að ráðstafa fjármunum því að þeir sem þekkja sögu ríkisstjórnarinnar treysta henni ekki á þann veg að hún gangi laus til að ráðstafa þeim fjármunum sem hér um ræðir án þess að Alþingi gefi henni einhver skýr fyrirmæli um hvernig það eigi að vera. Ég lagði áherslu á það í máli mínu að áður en þetta mál verður afgreitt úr þinginu liggi slíkar samþykktir eða stofnsamþykktir fyrir. Hæstv. forsætisráðherra sagði reyndar sjálfur áðan að fljótlega yrði lagt fram frumvarp um þennan fjarskiptasjóð og ég fagna því. En við eigum þá eftir að sjá hvernig hinum sjóðnum framvindur.